Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Af hverju vill Samfylkingin aðildarviðræður við ESB?
Miðvikudagur 22. apríl 2009 kl. 08:45

Af hverju vill Samfylkingin aðildarviðræður við ESB?

Samfylkingin vill fara í aðildarviðræður við ESB og leggja niðurstöður þeirra í dóm kjósenda. Ástæðan er einföld – ef við förum í aðildarviðræður vitum við hvað við fáum og hvað það mun hugsanlega kosta okkur að vera aðilar að ESB. Úr þessu fáum við aldrei skorið nema með því að fara í aðildarviðræður.

Ferlið er tiltölulega einfalt. Við sendum inn beiðni til ESB þar sem við óskum eftir að hefja aðildarviðræður og vonum og treystum því að sú beiðni verði samþykkt, en öll núverandi aðildarríki þurfa að samþykkja hana. Við undirbúum samningsmarkmiðin í samráði við hagsmunaaðila, þ.e. landbúnaðarmarkmiðin í samvinnu við bændasamtökin, byggðamarkmiðin í samvinnu við sveitarfélögin o.s.fv.  Þegar búið er að skilgreina samningsmarkmið, sem sátt ríkir um, hefjast aðildarviðræðurnar. Á sama tíma og þær standa yfir koma hingað til lands ýmsir sérfræðingar ESB  til að kynna sér aðstæður en það er gert til að ESB átti sig betur á okkar sérstöðu.

Þegar báðir aðilar, þ.e. íslenska samninganefndin og saminganefnd ESB, hafa náð samkomulagi sem báðir aðilar fella sig við kemur íslenska samninganefndin heim til Íslands með drög að samningi.  Hann er lagður í dóm þjóðarinnar til synjunar eða samþykktar. Ef þjóðin hafnar samningnum er málið úr sögunni. Ef þjóðin samþykkir samninginn verður boðað til kosninga þar sem tvö þing þarf til að breyta stjórnarskránn (þessum millileik, þ.e. aukakosningum, hefði mátt sleppa ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði samþykkt stjórnarskrárbreytingar á nýafstöðnu þingi). Að þessu loknu gerumst við formlegir aðilar að ESB og getum sótt um aðild að myntbandalagi sambandsins.

Um leið og beiðni okkar um að hefja aðildarviðræður hefur verið samþykkt getum við óskað eftir tenginu við Seðlabanka Evrópu. Það hefur jákvæð áhrif á gengi krónunnar og þar með verðbólgu í landinu. Bæði heimili og fyrirtæki njóta því góðs af tengingunni við aðrar Evrópuþjóðir strax á fyrstu stigum aðildarviðræðna.

Það er ábyrgðarhluti að stíga ekki þetta skynsamlega skref að óska ekki eftir að hefja aðildarviðræður við ESB. Þjóðin mun alltaf eiga síðasta orðið í þessum efnum.

Anna Margrét Guðjónsdóttir
forstöðumaður í Brussel
Höfundur skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024