Af hverju set ég X við Á?
– Rósa Sigurðardóttir skrifar
Frjálst afl er nýr valkostur fyrir bæjarbúa í komandi sveitastjórnarkosningum. Þegar við göngum inn í kjörklefann þann 31. maí nk. þurfum við að kjósa af meiri ábyrgð en nokkru sinni áður. Ástæðan? Við verðum að losna undan skuldaklafa og auknum álögum. Við látum ekki falskar tölur um fjárhagsstöðu bæjarins villa okkur sýn enn einu sinni. Já, hægt er að fá fallegar en falskar tölur um hagstæðan rekstur heils sveitafélags þegar reikningsdæmið er einungis reiknað út frá völdum tölum sem þar af leiðandi sýna ágæta rekstrarstöðu á yfirborðinu. Til að reikna dæmi rétt þarf að taka allar tölur með í reikninginn. Aðeins þannig fæst rétt og heiðarleg niðurstaða. Meira að segja húsmóðir í Njarðvík gerir sér grein fyrir þessu.
Gunnar Þórarinsson hafði kjark til að segja meiningu sína varðandi fjárhagsstöðu bæjarins við fyrrverandi samherja sína í bæjarpólitíkinni. Þetta var ekki einungis skoðun Gunnars heldur reiknaði hann dæmið út frá öllum tölum og þar af leiðandi á réttum forsendum. Hann hlaut bágt fyrir það af fyrrverandi samherjum.
Það þarf vart að kynna Gunnar. Hann hefur verið forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs síðasta kjörtímabil. Hann er menntaður viðskiptafræðingur, rekur rekstrarþjónustu, sér um skattaframtöl fyrirtækja og einstaklinga. Honum finnst tími til kominn að bæjarbúum verði tryggt betra siðferði í fjármálastjórnun bæjarins en þeir hafa átt kost á allt frá hruni. Hann hefur, ásamt stórum hópi fólks úr öllum lögum samfélagsins, sett fram metnaðarfulla stefnuskrá varðandi bæjarmálin. Þessi stefnuskrá tryggir endurreisn bæjarins í víðum skilningi og gerir eftirsóknarvert að búa í Reykjanesbæ .
Valið er því einfalt. Við setjum X við Á og tryggjum Gunnari og hans fólki brautargengi í komandi kosningum þann 31. maí nk.
Rósa Sigurðardóttir,
framhaldsskólakennari í FS og húsmóðir í Njarðvík.