Af hverju segja kennarar upp störfum sínum?
- Aðsend grein frá Margréti Þórólfsdóttur, grunnskólakennara
Í lok síðustu viku sögðu 20 kennarar upp í Njarðvíkurskóla sem er 71 prósent kennaramenntaðra starfsmanna í þeim skóla. Þeir kennarar sem sagt hafa upp störfum sínum eru sorgmæddir yfir því að geta ekki unnið við það sem þeir menntuðu sig til vegna lágra launa. Álag á kennara grunnskólanna hefur aukist mikið síðustu misseri, kennarar hafa tekið á sig hin ýmsu verkefni en laun hafa ekki fylgt þessum verkefnum. Fyrir utan hina hefðbundnu kennslu hefur bæst ofan á ný aðalnámskrá og útfærsla hennar inn í skólastarfið. Nýtt námsmat sem þarf að útfæra fyrir hverja námsgrein, hvert aldursstig og hvern getuflokk miðað við einkunnagjöfina A,B,C og svo framvegis. Nú í haust var tekið í notkun nýtt Mentor-kerfi sem er með mörgum nýjum aðferðum þar sem slá þarf inn námsáætlunum, lotum, hæfniviðmiði, hæfnimati fyrir alla nemendur og mörgu fleiru. Innleiðing á spjaldtölvum til vendikennslu hefur bæst við inn í skólana, í takt við nýja tíma sem krefst einnig mikils undirbúnings kennara við að gera rafræna fyrirlestra og hanna verkefni á tölvutæku formi. Þá er að nefna kennslu á PBS eða önnur agastjórnunarkerfi þar sem nemendum er kennt hvernig æskileg hegðun getur hjálpað þeim að ná betri tökum á daglegu lífi innan skólans sem bætir svo námsárangur þeirra. Vinna við eineltisáætlanir, svo sem Olweus og Stöndum saman. Alls konar próf/skimanir og úrvinnslu úr þeim þarf kennarinn að gera til að finna út hvaða nemendur eru í vanda hvað til dæmis lestur og lesskilning varðar. Skrá þær svo inn í skólagátt hjá Námsmatsstofnun til að halda utan um tölfræði hjá hverjum nemanda fyrir sig. Svo eru það 2 til 4 fundir í viku, kennarafundir, starfsmannafundir, deildafundir, teymisfundir, stigsfundir, fagfundir og svo fundir með öðrum sérfræðingum, svo sem talmeinafræðingum, félagsfræðingum eða sálfræðingum.
Skólar í Reykjanesbæ eru fjölmennigarskólar með mörg börn af öðrum þjóðernum. Þannig að nýbúafræðsla og undirbúningur við kennslu þessara barna til að þau fái bestu fáanlegu menntun tekur sinn tíma. Einnig þarf að finna lesefni og fleira á þeirra tungumáli. Því að skóli án aðgreiningar er skóli fyrir alla. Þetta er ekki tæmandi listi yfir starf kennarans en smá innsýn inni starfið.
En nú eru kennarar bugaðir og með miklum trega hafa þeir sagt upp störfum vegna þess að launin eru of lág. Við kennarar erum að berjast fyrir kjörum sem hæfa okkar menntun og ábyrgð í samfélaginu. Við sjáum ekki fram á að vilji samninganefndar sveitafélaga til að semja um ásættanlega kauphækkun sé í farvatninu og ekki eru kennarar tilbúnir í verkfallsátök. Síðan komu yfirlýsingar, bæði frá Gylfa Arnbjörnsyni og Sambandi sveitarfélaga, um að kennarar væru búnir að fá viðunandi launahækkanir fyrir sína vinnu og menntun. Þarna dró ský fyrir sólu hjá kennurum, ekki bara á mínum vinnustað heldur eru kennarar að segja upp störfum út um allt land. Í síðustu samningum seldum við ýmis réttindi og tókum á okkur mikla vinnu til viðbótar til að fá einhverja launahækkun sem skilaði engu nema auknu vinnuálagi. Nú höfum við ekkert til að selja enda höfum við alltaf komið illa út úr þannig samningum. Það eina sem kennarar geta gert í þessari stöðu er að yfirgefa skólana og hverfa frá starfi sem þeir elska og hafa menntað sig til.
Ég er ein af þeim átta kennurum sem ekki hef sagt upp starfi mínu við Njarðvíkurskóla en ég skoða atvinnuauglýsingar daglega og hver veit hvað gerist á morgun eða eftir þrjár vikur. Ég er 55 ára grunnskólakennari með kvíðahnút í maganum yfir því að kanski verð ég eini starfandi grunnskólakennarinn í mínum skóla á næsta ári, það er að segja ef ég hef þá ekki fengið betur launað starf fyrir þann tíma og sagt upp mínu starfi. Mér finnst sveitarfélögin í þessari löngu samningslotu afhjúpa skammsýni hvað varðar skólastarf og skólahald með því að semja ekki um mannsæmandi laun til kennara. Hver á svo að kenna nemendum þegar engir eru kennararnir? Það er ekki nóg að sveitarfélög, menntamálaráðuneytið og ríkið sendi frá sér fallega menntastefnu í bók eða á blaði og vilja svo ekki borga mannsæmandi laun fyrir alla vinnuna.
Margrét S. Þórólfsdóttir
grunnskólakennari