Af hverju segir bæjarfulltrúinn Inga Sigrún Atladóttir ósatt?
Í viðtali á vefmiðlinum visir.is þar sem fjallað er um 33. fund bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga fer oddviti minnihlutans Inga Sigrún Atladóttir mikinn og fullyrðir gegn betri vitund að meirihlutinn hafi hafnað því að „búa til nýja lóð fyrir kvenfélagið niðri við höfnina”.
Staðreyndin er hins vegar sú að sameiginleg umsókn smábátafélagsins og kvenfélagsins hlaut eftirfarandi afgreiðslu bæjarstjórnar: „Með vísan til 5.liðar fundargerðarinnar leggur meirihlutinn til að bæjarstjórn fresti afgreiðslu málsins þar til ítarlegri gögn liggja fyrir.” (sjá vogar.is).
Í vinnu okkar í meirihluta E-listans hefur verið lögð á það rík áhersla að vanda til allra verka og ekki síst hvað lítur að skipulagsvinnu í sveitarfélaginu. Því þykir okkur eðlilegt að aflað sé frekari gagna um fyrirætlanir smábátafélagsins og
kvenfélagsins jafnt og annara félaga eða einstaklinga, áður en farið er út í vinnu við breytingu á gildandi skipulagi með tilheyrandi kostnaði fyrir íbúa sveitarfélagsins.
Hvað varðar samstarf milli listanna tveggja hefur það að okkar mati verið með ágætum og verðum við að játa, að logandi illdeilur í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hafa farið fram hjá okkur. Vissulega hefur okkur greint á en allt tal um að bærinn logi í illdeilum er ofsögum sagt.
Birgir Örn Ólafsson
Inga Rut Hlöðversdóttir
Hörður Harðarson
Bergur Álfþórsson
bæjarfulltrúar E-listans