Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Af hverju markmaður?
Sunnudagur 1. apríl 2012 kl. 10:38

Af hverju markmaður?



Undirbúningstímabil eru ekki alltaf skemmtilegasti tími fótboltamanna. Það segir sig eiginlega í sjálfu orðinu að þetta er bara undirbúningur fyrir eitthvað meira og skemmtilegra. Ég ætla alls ekki að gera lítið úr mikilvægi góðs undirbúnings. Það var heimskur maður sem byggði hús á sandi. Það er samt á þriðjudögum núna í vetur sem ég er minntur á einn af kostunum við að spila í marki. Á þriðjudögum hlaupum við. Hring eftir hring eftir hring og svo framvegis. Maður lætur sig hafa það en ég viðurkenni fúslega að þetta er ekki í uppáhaldi. Ég sem endaði í öðru sæti í hinu víðfræga Landsbankahlaupi á sínum tíma. Þá æfði ég líka bæði fótbolta og handbolta og ef ég var ekki að æfa þá fór maður niður í Myllubakkaskóla í körfu eða rugby á slökkviliðslóðinni (skotleikir á netinu voru ekki til þá). Í dag er ég sáttur við að vera bara markmaður og langhlaup eru ekki í starfslýsingunni.

Mörgum finnst markmenn vera skrítið fólk, ég vil reyndar meina að við séum eðlilegir en allir hinir skrítnir. Markmenn eru í það minnsta ekki alveg eins og allir hinir. Í fyrsta lagi fáum við öðruvísi búning til að undirstrika það að við erum ekki eins og hinir. Oftast eru þessir búningar líka í skærum litum svo allir taki eftir okkur. Við erum þeir einu sem mega taka boltann með höndum. Maradona gerði það reyndar einu sinni en þegar hann frétti að hann mátti það ekki sagði hann bara að guð hefði gert það og þá voru allir sáttir. Flest betri fótboltalið í dag hafa líka sérstakan markmannsþjálfara sem passar upp á að þeir fái rétta þjálfun. Það er nokkuð til í því hjá þeim sem segja að markmenn spili ekki alveg sömu íþrótt og útileikmennirnir. Þarna stöndum við semsagt fyrir framan markið í trúðabúningunum okkar og þvælumst fyrir á meðan allir hinir reyna að skora.

Maður á það til að vera örlítið öfundsjúkur þegar sóknarmennirnir baða sig í dýrðarljómanum eftir að hafa fengið boltann í sig og inn á síðustu mínútu. Það er nefnilega þannig að sóknarmaður sem klúðrar fullt af færum en skorar svo sigurmarkið á síðustu mínútu er hetja. Markmaður sem ver fullt af skotum en missir svo eitt í gegnum klofið á síðustu sekúndu er skúrkur. Ef ég væri ekki í marki þá væri ég frammi, það er engin önnur staða sem kæmi til greina. Bakvörður er síðasta staðan sem kæmi til greina, endalaus hlaup og skora aldrei. Miðvörður er önnur staða sem er ekki spennandi fyrir mér. Einu skiptin sem þeir fá að fara fram er í hornum og aukaspyrnum, bara til þess að þurfa að bruna til baka blótandi þeim sem tóku spyrnuna. Til að toppa þetta þurfa þeir svo að skalla boltann um það bil 10 sinnum í leik eftir 60 metra spyrnu frá hinum markmanninum.

Nú má ekki misskilja þessi skrif og halda að ég væri ekki góður útileikmaður. Eins og allir markmenn hef ég gríðarlega trú á hæfileikum mínum sem útileikmaður sem fá því miður allt of sjaldan að njóta sín. Í þau fáu skipti sem ég öfunda útileikmennina er ég samt fljótur að minna mig á kostina við að hanga í markinu. Ég þarf ekki að hlaupa út um allan völl, skallandi boltann hægri vinstri og er í miklu flottari búning. Svo hef ég minn eigin þjálfara á æfingum. Ætli það sem heilli ekki samt mest á endanum sé ekki einfaldlega að fá að vera öðruvísi en hinir. Kannski eru það skrítnir menn sem velja það að fara í markið. Kannski verður maður skrítinn á því að hanga í markinu í mörg ár. Ég ætla samt að halda mig við skýringuna að við séum eðlilegir, það eru allir hinir sem eru skrítnir.

Ómar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024