Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Af hverju má ekkert vera í friði?
Laugardagur 14. september 2019 kl. 12:34

Af hverju má ekkert vera í friði?

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Í mínum síðustu lokaorðum vakti ég athygli á því sem mér finnst vera skortur á sumarstemmningu í miðbæ Keflavíkur í sumar. Nú að lokinni vel heppnaðri Ljósanótt, þar sem bærinn iðaði af lífi og skemmtilegheitum frá morgni til kvölds, er ég enn sannfærðari um að það ætti algjörlega að vera hægt að hafa líf í bænum okkar allt árið. Við viljum held ég flest búa í líflegum, fallegum bæ sem við getum verið stolt af og notið mannlífsins í fallegu og snyrtilegu umhverfi. Lífið er bara skemmtilegra svoleiðis. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er rétt sem mamma mín sagði alltaf að við göngum betur um þar sem er snyrtilegt. Þess vegna gafst hún ekki upp við það stundum mjög erfiða verkefni að kenna mér að ganga vel um, búa um mig á hverjum degi og láta mig bera ábyrgð á að taka til í herberginu mínu. Það gekk að lokum og þessi elska væri svo stolt af því að heyra mig nota nákvæmlega sömu orðin við syni mína, í þeirri trú að þetta muni síast inn að lokum hjá þeim eins og gerðist með mig. Þegar allt er í rusli verður okkur meira sama. Við berum miklu meiri virðingu fyrir umhverfinu þar sem vel er gengið um. Við hendum ekki rusli í okkar eigin garði og við hvorki skemmum né stelum úr görðum vina okkar. Við kennum börnunum okkar þetta viðhorf og finnst þetta svona frekar beisikk. 

Þess vegna fer það óendanlega í taugarnar á mér þegar ég les fréttir eins og þá að ljóskösturunum við fallega vatnstankinn hafi verið stolið af óprúttnum aðilum. Og þegar ég sé brotin ljós á strandleiðinni sem einhver hálfvitinn þurfti endilega að sparka niður. Að ég minnist nú ekki á þegar búið er að sprengja botninn úr ruslafötunum þannig að ruslið fýkur út um allt og tæma úr öskubökkunum á planinu við gula vitann á Vatnsnesinu. Mér finnst virðingarleysið líka algjört þegar svo illa er gengið frá af hálfu eigenda hússins að skemmdarvörgum sé allt að því boðið í gömlu Sundhöllina til að skemma það sem eftir er af menningarverðmætum þar.

Punkturinn er þessi – af hverju ætti það að vera í lagi að brjóta og bramla, skemma og stela út um allan bæ þegar við myndum aldrei gera þetta heima hjá okkur eða vinum okkar? Svarið er auðvitað að það er ekki í lagi og á ekki að líðast. Eignarspjöll kosta okkur skattborgarana stórar fjárhæðir sem hægt væri að nota í mun skemmtilegri hluti. Ég er ekkert sérstaklega refsigjörn manneskja en mér finnst að það ætti að sekta fólk duglega fyrir að henda rusli, hirða ekki upp eftir hundana sína og skemma eigur annara. 

Og þið sem stáluð ljóskösturunum eruð algjörlega síðasta sort. Skammist ykkar.