Af hverju er ekki talað um þetta?
– Guðjón Ingi Guðjónsson skrifar
Það eru kosningar á laugardaginn hér í Reykjanesbæ eins og annars staðar á landinu. Í aðdraganda kosninga er jafnan tekist á um hin ýmsu mál sem snerta bæjarbúa. Þá eru sitjandi bæjarstjórnir gagnrýndar fyrir það sem betur má fara. Hér í Reykjanesbæ bjóða nú fram sex flokkar, þar af fimm sem ekki eru í bæjarstjórn. Það sem kannski er eftirtektaverðast, og það sem segir kannski mest um þann árangur sem náðst hefur, er það sem þessir fimm flokkar tala lítið sem ekkert um. En það eru einmitt þau mál sem skipta okkur bæjarbúa svo ótrúlega miklu máli.
Af hverju er ekki talað um þessi mál sem svo mikið brenna á í fjölmörgum öðrum bæjarfélögum?
Menntun barna okkar, aðbúnað aldraðra, aðbúnað fatlaðra, umhverfismál, menningarmál, íþrótta- og tómstundarmál, sorphirðumál, frárennslismál, húsnæðismál, samgöngur?
Ætli það sé vegna þess að þessi mál skipti þessi fimm framboð engu máli? Nei, við skulum nú ætla að þessi mikilvægu mál skipti þau jafn miklu máli og aðra bæjarbúa. Ætli það sé ekki frekar það að á síðustu árum hefur þessum málum verið vel sinnt af Sjálfstæðisflokknum og bæjarstjóranum Árna Sigfússyni?
Vegna þess hversu vel hefur verið gert í öllum þessu stóru málum þá leggja framboðin áherslu á fjárhag bæjarins, að þar þurfi að taka til hendinni. En hvar eru lausnirnar? Það er ekki nóg að skipta um tölvukerfi og perur í ljósastaurum. Eða að segjast ætla að auka útgjöld en samt bæta fjárhag bæjarins. Hvar þessi framboð ætla að skera niður, hvar þau ætla að segja upp fólki og draga úr þjónustu hefur hvergi komið fram. Getur verið að það sé nú ekki til vinsælda fallið að segjast ætla að skera niður í þeim mikilvægu málaflokkum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið sig svo vel í? Getur verið að þessir fimm flokkar hafi einfaldlega ekki lausnir?
Lausnin að bættum fjárhag bæjarins hlýtur fyrst og fremst að felast í því að auka tekjur, meðal annars með því að ná upp atvinnu á svæðinu. Þá er mikilvægt að nýta þá miklu uppbyggingu sem farið hefur verið í meðal annars í Helguvík og síðustu fréttir herma að eru svo sannarlega að fara að skila sér. Þá er gríðarlega mikilvægt að verðandi meirihluti hafi fulla trú á því verkefni til þess að fylgja því eftir. Ég bið fólk um að meta það hvaða flokki þeir treysta nú best fyrir því að halda þeim verkefnum áfram.
Við hljótum að vera sammála um það að vilja halda áfram því góða starfi sem Sjálfstæðisflokkurinn og Árni Sigfússon hafa verið að vinna í öllum þessu mikilvægu málaflokkum. Stefnum ekki því góða starfi í hættu með því að kjósa yfir okkur flokka sem ekki hafa gert grein fyrir því hvernig þeir ætla að bæta fjárhag bæjarins. Kjósum þann flokk sem hefur sýnt það með góðu verki að honum er treystandi fyrir öllum þessum stóru málaflokkum sem skipta okkur íbúa bæjarins svo miklu máli.
Setjum X við D.
Guðjón Ingi Guðjónsson
Stoltur íbúi í Reykjanesbæ