Af hverju áhyggjur af mengun?
Mat á umhverfisáhrifum er ekki skotheld niðurstaða heldur matsgerð út frá fyrirfram gefnum forsendum um þau áhrif sem framkvæmd kann hugsanlega að hafa á umhverfið. Matinu er ætlað að draga úr óvissuþáttum, sem engu að síður eru áfram til staðar að einhverju leiti því náttúran er jú alltaf óútreiknanleg. Framkvæmdaraðilinn annast sjálfur umhverfismatið og reynir því skiljanlega að hafa niðurstöðuna sér í hag. Hafa ber í huga að reiknilíkön reikna út frá þeim forsendum sem menn gefa þeim. Menn slá inn tölur – forritið reiknar. Þetta er svona svipað og að gera skattskýrslu, þú tínir til allt sem er frádráttarbært, slærð það inn reikniforritið og reynir að fá hagstæðustu niðurstöðuna fyrir þig.
Útreikningar á mengun frá stóriðju eru undarleg vísindi . Menn skilgreina eitthvað sem þeir kalla þynningarsvæði. Innan þess má mengun vera yfir viðmiðunarmörkum en ekki utan þess. Þetta þýðir alls ekki að mörk þynningarsvæðis sé ósýnileg girðing sem mengunin fer ekki yfir. Það er af og frá. Mörk þynningarsvæðis fyrir stóriðjuna í Helguvík ná alveg að íbúabyggð sem einungis er í eins kílómetra fjarlægð frá verksmiðjunum. Hvað segir okkur að mengunin muni stoppa þar?
Og já, verkfræðingar geta haft rangt fyrir sér og útreikningar brugðist. Landeyjarhöfn og Vaðlaheiðargöng eru ágæt dæmi um slík klúður sem kostað hafa okkur skattborgarana stórfé.
Áhyggjur stóriðjunnar
Norðurál lýsti áhyggjum sínum af uppbyggingu tveggja kísilvera í Helguvík og telur að brennisteinsmengun verði of há í íbúabyggð. Norðurál benti á þetta í leyfisferli United Silicon. Þá gerði USil alvarlegar athugasemdir við umhverfismat Thorsil og taldi útblásturinn ná verulega langt út fyrir þynningarsvæðið (aðrir verkfræðingar, önnur reiknlíkön, aðrar forsendur - allt önnur niðurstaða).
Af þessu má ráða að stóriðjufyrirtækin hafi sjálf miklar áhyggjur af of mikilli mengun frá Helguvík.
Ætti þetta ekki að segja okkur eitthvað?
Þess má jafnframt geta að Veðurstofan gerði alvarlegar athugasemdir við umhverfismat Thorsil og taldi m.a. ómögulegt að segja til um hvort spárnar um dreifingu mengunarefna væru byggðar á traustum gögnum. Einnig taldi Veðurstofan vinnslu dreifingarkortanna ábótavant.
Er „besta fáanlega tækni“ nógu góð?
Stóriðjan hefur gjarnan haldið á lofti því sem hún kallar „besta fáanlega tækni“ þegar talið berst að mengunarvarnarbúnaði verksmiðjanna. Forsvarmenn Thorsil eru þar engin undantekning. Með klisjunni um „bestu fáanlegu tækni“ er gefið í skyn að búnaðurinn sé svo fullkominn að hann hindri nánast alla mengun út í umhverfið. „Besta fáanlega tækni“ þýðir alls ekki „fullkomin tækni“. Þetta þýðir eingöngu að menn nota einhvern tiltekinn búnað vegna þess að ekkert betra er í boði. Hvort hann dugar er svo annað mál.
EF mengunin verður meiri en reiknað var með er augljóst „að besta fáanlega tækni“ dugar ekki. Þar sem ekkert betra en „besta fáanlega tækni“ er í boði munu menn standa frammi fyrir tveimur valkostum:
1. Draga úr framleiðslu til að minnka mengun.
2. Gefa út undanþágu frá starfsleyfi.
Hvor leiðin haldiði að yrði farin?
Í því samhengi má geta þess að ekki er langt síðan að í ljós kom að mengunin frá Hellisheiðarvirkjun var mun meiri en menn höfðu reiknað með og langt umfram þau mörk sem sett eru í reglugerðum. Orkuveita Reykjavíkur hafði engar lausnir á þessum vanda, þrátt fyrir að hafa fengið fjögur ár til að leysa hann áður en ný og hertari lög um útblástur tóku gildi. Til þess að leysa málið gaf umhverfisráðuneytið út undanþágu frá starfsleyfi til ársins 2020. Sem þýðir að þangað til getur fyrirtækið óáreitt haldið áfram að spúa eitruðum útblæstri í sama magni og áður yfir Reykvíkinga og nærsveitir. Haldiði að þetta yrði eitthvað öðruvísi í Helguvík?
Peningarnir ráða
Bæjaryfrvöld hafa reynt að slá á áhyggjur bæjarbúa með því að segjast ætla að „fylgjast vel með“ menguninni. Þau hafa hins vegar ekkert sagt um það hvernig þau ætla að bregðast við ef „besta fáanlega tæknin“ dugar ekki og mengunin fer yfir mörk.
Það vita flestir að stóriðjufyrirtækin eru látin hafa eftirlit með sjálfum sér, eins fáranlega og það hljómar. Þau sjá semsagt sjálf um vöktun og rannsóknir á sínum eigin umhverfisáhrifum og geta haft það algörlega eftir eigin höfði og hentugleik hvernig sú vinna fer fram. Niðurstöður og skýrslur þeirra eru langt í frá trúverðugar.
Hvernig verður þessari vöktun háttað af hálfu bæjaryfirvalda?
Verða þau mötuð á upplýsingum frá stóriðjuverunum sjálfum?
Á það ber að líta að bæjaryfirvöld hafa gengið erinda Thorsil og varið hagsmuni fyrirtækisins í þessu máli. Þau virðast tilbúin að leggja allt í sölurnar til að fá þessa verksmiðju. Af þeim sökum fæ ég ekki með nokkru móti séð að þeim sé treystandi til að „fylgjast vel með“ menguninni og upplýsa bæjarbúa á heiðarlegan hátt. Peningalegir hagsmunir eru alltaf settir ofar öðru, eins og allir ættu að vita.
Tökum ekki áhættuna, krefjumst þess að njóta vafans og kjósum gegn frekari stóriðju í Helguvík, fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir í Reykjanesbæ. Kosningin stendur yfir á ibuakosning.is til 4. desember næstkomandi.
Ellert Grétarsson,
íbúi í Reykjanesbæ.