Af hverju ætlar þú í framboð, Elín?
Elín Rós Bjarnadóttir skrifar.
Þegar ljóst varð að ég skipaði 2. sæti Frjáls afls í Reykjanesbæ spurði góð vinkona hvers vegna ég stæði í þessu og bætti svo við: „Veist þú eitthvað um pólitík?“
Fyrri spurningunni svaraði ég þannig að öllum væri hollt að stíga út fyrir þægindarammann og takast á við nýjar áskoranir. Seinni spurningunni svaraði ég svona: „Ég kann sem betur fer lítið inn á gamaldags pólitík sem snýst um að tryggja sér og sínum valdastöður, en ég veit nákvæmlega hvernig pólitík ég vil sjá í Reykjanesbæ í framtíðinni.“
Mín pólitíska sýn gengur út á ábyrga stjórnun bæjarfélagsins, þar sem bætt lífskjör eru eðlileg afleiðing af öguðum vinnubrögðum. Hún gengur út á að við einbeitum okkur að raunhæfum atvinnutækifærum í stað þess að dreifa kröftunum út um víðan völl með engum árangri. Hún gengur út á að hagsmunir íbúanna verði í brennidepli í stað þess að stjórnendur bæjarfélagsins baði sig í sviðsljósinu.
Fyrir mér snýst pólitík um ákvarðanir um skólamál, atvinnumál, heilbrigðisþjónustu, samgöngur, menningu, tómstundir, fjármál og margt fleira. Ég kann svo sannarlega að taka ákvarðanir og hef brennandi áhuga á að byggja upp betri Reykjanesbæ. Áskorunin felst í því að skapa hér réttlátt, heilbrigt og skemmtilegt bæjarfélag þar sem okkur getur öllum liðið vel.
Elín Rós Bjarnadóttir,
skipar 2. sæti á lista Frjáls afls.