Af hjúkrunarheimilum
Baldur Þ. Guðmundsson bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar ritar
Málefni aldraðra hafa mikið verið í umræðunni á Suðurnesjum undanfarið og þá sérstaklega úrræði fyrir þá sem þurfa búsetu á hjúkrunarheimilum. Með byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Nesvöllum mun þjónustan í þessum málaflokki taka stórt stökk fram á við í gæðum og aðbúnaði. Einnig er gert ráð fyrir að rýmum til ráðstöfunar fjölgi um 25 frá því sem nú er á Garðvangi og Hlévangi eða úr 68 rýmum í 93. Hugmyndafræði nýja hjúkrunarheimilisins byggir á litlum einingum þar sem 10 íbúar búa í hverri einingu og hefur hver einstaklingur rúmgott herbergi með sér baðherbergi. Þannig er hægt að segja að á Nesvöllum verði sex lítil hjúkrunarheimili en með alla nauðsynlega stoðþjónustu, s.s. endurhæfingu, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun, í næsta húsi. Einnig má segja að verið sé að færa þjónustuna nær íbúunum því að af þeim 38 sem hafa búsetu á Garðvangi
hafa allt að 30 komið frá Reykjanesbæ.
Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar hafa setið undir ámæli um að hafa svikið aðra sveitarstjórnarmenn í Garði og Sandgerði en ef hlutirnir eru skoðaðir ofan í kjölinn þá er það ofsögum sagt. Undirritaður var stjórnarformaður DS frá árinu 2010 til 2013 og situr í nefnd fyrir hönd Reykjanesbæjar sem fjallar um málefni hjúkrunarheimilanna. Í þeirri vinnu hef ég ávallt haft það að leiðarljósi að gæta að hag þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta, þ.e. aldraðir á Suðurnesjum og því hefur fyrrgreindum sveitarstjórnarmönnum kannski fundist á þá sjálfa hallað.
Á aðalfundi DS í maí 2012 var lögð fram stefnumótunarvinna sem stjórn DS hafði unnið að með aðstoð Sigurðar Garðarssonar og fengu eignaraðilar (Reykjanesbær, Garður, Sandgerði og Vogar) það verkefni að leggjast yfir þau gögn og bera saman bækur sínar á haustfundi SSS. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lagði fram sitt sjónarmið um framtíðaruppbyggingu öldrunarþjónustu á Nesvöllum og lokun Garðvangs og síðan Hlévangs í kjölfarið. Sveitarfélagið Vogar studdi þá framtíðarsýn en því miður hafa önnur sveitarfélög lýst sig mótfallin þeirri stefnu. Ekki hafa verið lögð fram fagleg eða rekstrarleg rök fyrir þeirri andstöðu en vitnað er í samkomulag frá árinu 2004 um uppbyggingu á Nesvöllum og endurbætur á Garðvangi. Það samkomulag byggir að stærstum hluta á aðkomu ríkisins og þar hafa allar forsendur breyst verulega. Ekki er lengur hagkvæmt að leggjast í endurbætur á Garðvangi vegna aukinna krafna um aðstöðu á hjúkrunarheimilum af hendi ráðuneytis. Fé til endurbóta hefur einnig verið skorið verulega niður hjá ríkinu og myndi sá kostnaður lenda á sveitarfélögunum og þar er hlutur Reykjanesbæjar rúm 70%. Ríkið ber ábyrgð á þessum málaflokki og því er óásættanlegt að telja Reykjanesbæ einan hafa brotið þetta samkomulag sem var gert fyrir sjö ráðherrum og þremur sveitarstjórnum síðan. Landslagið hefur einfaldlega tekið stakkaskiptum á þessum 10 árum og nauðsynlegt er að laga sig að aðstæðum þannig að öldrunarþjónustan verði rekin á sem skynsamlegastan og hagkvæmastan hátt.
Einnig hefur verið vísað í drög að samkomulagi sem vinnuhópur bæjarstjóra sveitarfélaganna setti saman nú í mars og var lagt fyrir öll hlutaðeigandi bæjarráð. Ekkert bæjarráðanna samþykkti þetta samkomulag án fyrirvara um kostnað og rekstrarhæfi og sveitarfélagið Vogar hafnaði því alfarið. Forsendur þeirra hugmynda voru alltaf að rekstrargrundvöllur væri til staðar sem síðan reynist ekki vera. Hvorugur þeirra fagaðila sem skoðuðu möguleika á rekstri Garðvangs treystu sér til að reka Garðvang áfram, annars vegar vegna of lítillar og þar með óhagkvæmrar einingar sem ekki næði að uppfylla lágmarksgæði, svo og vegna húsnæðismála. Ekki þarf að fara í neinar kostnaðarsamar breytingar á Hlévangi til að reka þar áfram hjúkrunarheimili til næstu ára.
Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar og vinnuhópur sá sem settur var á laggirnar til að skoða málefni hjúkrunarheimilanna hefur lagt á það höfuðáherslu að aldraðir íbúar sveitarfélagsins og Suðurnesja allra eigi kost á þeirri bestu þjónustu sem völ er á með hagkvæmni að leiðarljósi. Litlar einingar eru bæði óhagkvæmar og ekki er hægt að halda út allri stoðþjónustu nema með ærnum tilkostnaði. Því er það skynsamlegast að bjóða upp á öfluga þjónustu á einum stað og byggja á þeirri hugmyndafræði sem lagt er upp með á Nesvöllum, þ.e. litlar heimilislegar einingar með alla nauðsynlega þjónustu í seilingarfjarlægð.
Baldur Þ. Guðmundsson
bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar