Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Af duglausum þingmönnum
Fimmtudagur 26. október 2017 kl. 05:00

Af duglausum þingmönnum

Reykjanesbær boðaði til fundar í síðustu viku um mál sem er mjög athyglisvert og í raun með ólíkindum. Málið varðar lögbundin fjárframlög ríkisins til hinna ýmsu málaflokka, er varða almenning á Suðurnesjum. Kjarni málsins er þessi, Suðurnesjamenn fá hlutfallslega lægri fjárframlög frá ríkinu heldur en sambærilegar stofnanir víða um land og fjárveitingar hafa ekki fylgt mikilli fjölgun íbúa á svæðinu. Málaflokkarnir sem hér um ræðir eru: heilbrigðisþjónustan, fjölbrautaskólinn, Keilir, löggæslan, tollgæslan, landamæraeftirlitið, Helguvík og MSS.

Þingmenn vissu af vanda Reykjanesbæjar en gerðu ekkert í málinu
Hann var þéttsetinn bekkurinn á fundinum og á Reykjanesbær hrós skilið fyrir skýra og vel unna framsetningu á málinu. Á fremsta bekk sátu meðal annars þingmenn kjördæmisins og fyrrverandi ráðherrar. Einn þeirra stýrði einu sinni fjármálaráðuneytinu og annar var meira að segja forsætisráðherra um tíma. Tveir þeirra sitja nú í fjárlaganefnd. Sumir þeirra tóku til máls og sögðu að þessu yrði að breyta og bættu svo við að þeir vissu af vandanum en vissu ekki að munurinn væri svona mikill. Einn þingmanna líkti ríkinu við flugmóðurskip þegar kemur að breytingum, skipið sé seint að snúa við stefnunni og reyndi þar með að réttlæta málið að hluta. Sami þingmaður var skipstjóri á þessu sama flugmóðurskipi um tíma en veit ekki að góður skipstjóri getur tekið U beygju á flugmóðurskipi á innan við 10 mínútum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kjósendur hafa völd
Kjósendur geta ákveðið hverjir fara á þing og hverjir ekki. Viljum við hafa fólk í vinnu sem á erfitt með að taka ákvarðanir eða taka af skarið? Viljum við hafa fólk í vinnu sem segir eitt en gerir annað? Viljum við hafa fólk í vinnu sem fer í skóla þegar það er kosið til þess að sinna þingstörfum?

Var það til dæmis trúverðugt þegar þingmenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, sögðu fyrir kosningar 2016 að það þyrfti að hækka fjárframlög til heilbrigðismála í kjördæminu, komust svo í ríkisstjórn eftir kosningar og lögðu fram fjárlagafrumvarp þar sem fjárveitingar voru lækkaðar? Til viðbótar ákváðu þeir svo að hækka bensín og díselolíu vegna þess að einhver embættismaður sagði þeim að það væri betra að samræma verðið og þá til hækkunar en ekki lækkunar.

Var það trúverðugt þegar Framsóknarflokkurinn birti stóra auglýsingu í síðustu viku og sagðist ætla að sækja allt að 2 milljarða til Kadeco á Ásbrú og setja í skólamál? Málið kalla þeir leiðréttinguna en gleyma að minnast á það að þeir hafa haft mörg tækifæri til leiðréttingar og að sækja þennan pening, en gerðu ekkert í málinu. Þingmaður þeirra frá Suðurkjördæmi var í forsvari ríkisstjórnar og þeir áttu fulltrúa í fjárlaganefnd, sem kemur frá Suðurnesjum, en gerðu ekkert.

Miðflokkurinn er afl sem þorir
Miðflokkurinn er nýtt stjórnmálaafl sem byggt er á traustum grunni. Við erum komin í stjórnmál til þess að framkvæma og erum ekki ákvarðanafælin. Við ætlum að láta lýðræðið virka á Íslandi. Við látum ekki kerfið segja okkur fyrir verkum né telja okkur trú um að engu sé hægt að breyta. Við ætlum að breyta fjármálakerfinu, lækka vexti, afnema verðtrygginguna, leiðrétta kjör eldri borgara, byggja nýjan landspítala og bæta samgöngur. Allt kostar þetta peninga en við höfum raunhæfar tillögur um hvaðan peningarnir eiga að koma. Þeir munu koma úr endurskipulagningu fjármálakerfisins. Við munum ekki hækka skatta. Við ætlum að bæta lífskjörin á Íslandi og bæta búsetuskilyrðin á Suðurnesjum. Við óskum eftir þínum stuðningi á laugardaginn kæri kjósandi, svo við getum hafist handa.
X-M

Birgir Þórarinsson,
oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi