Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Af duglausum bæjarfulltrúum í Vogum
    Frá Vogum á Vatnsleysuströnd fyrir fáeinum árum síðan. Mynd úr safni.
  • Af duglausum bæjarfulltrúum í Vogum
    Birgir Þórarinsson sendir bæjaryfirvöldum í Sveitarfélaginu Vogum tóninn í aðsendri grein til Víkurfrétta í þessari viku.
Fimmtudagur 5. maí 2016 kl. 11:00

Af duglausum bæjarfulltrúum í Vogum

– Birgir Þórarinsson skrifar

Um þessar mundir eru 20 ár síðan undirritaður óskaði fyrst eftir liðsinni sveitarfélagsins Voga við hitaveitu á Vatnsleysuströnd. Hitaveita  var lögð í  Vogana árið 1979 og í framhaldi í hluta af Ströndinni.

Í dag vantar 6 kílómetra upp á að lögnin nái inn alla Ströndina. Á þessum 6 kílómetra kafla eru um það bil 40 notendur, húshitunarkostnaður þar er um 100 prósent hærri en í þéttbýlinu Vogum og Brunnastaðahverfi, þrátt fyrir niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Árið 2000 var hitalögnin lengd um 500 metra vegna beiðni hænsnabúsins Nesbú. Frekari hitaveituframkvæmdum hefur ítrekað verið hafnað. Fiðurfénaðurinn nýtur greinilega forgangs framar mannfólkinu.

Einkavæðing HS veitna – samfélagsskyldu fórnað

Undirritaður hefur á liðnum árum lagt inn beiðni um hitaveitu til stjórnar Hitaveitu Suðurnesja,  HS veitna, bæjarráðs Voga og átt  fundi með stjórnarformönnum fyrirtækjanna og  bæjarstjórum Voga,  án árangurs. Fundir með HS veitum hafa skilað þeirri niðurstöðu að ekki verður ráðist í hitaveitu nema  sveitarfélagið eða væntanlegir notendur borgi framkvæmdina. Þannig átti undirritaður að greiða 17 milljónir fyrir að fá hitaveitu, samkvæmt kostnaðaráætlun HS veitna. Það á sér þá einföldu skýringu að  þessi grunnþjónusta hefur verið einkavædd, en allir þekkja þá sorgarsögu. Hagnaðurinn er einfaldlega meiri með því að selja rafmagn til húshitunar en að ráðast í hitaveitu. Samfélagsleg skylda fyrirtækisins heyrir nú sögunni til. Henni var fórnað á altari stundargróðans af grunnhyggnum bæjarfulltrúum á Suðurnesjum. Hér sjáum við afrakstur einkavæðingarinnar í sinni tærustu mynd. Þess má geta að á síðasta ári greiddu HS veitur eigendum sínum 450 milljónir í arð. Hagnaður fyrirtækisins hefur verið um 800 milljónir á ári.

Í skúffu bæjarstjóra

Fyrir 5 árum var bæjarstjóra afhent undirskriftasöfnun og áskorun frá  40 fasteignaeigendum á Ströndinni með ósk um hitaveitu. Tók það sveitarfélagið rúmt ár að svara erindinu og sendi það þá loks bréf til baka og spurði um afstöðu þeirra til þess að fá hitaveitu. Þrátt fyrir að íbúarnir hefðu þegar lýst yfir áhuga sínum með undirskriftasöfnuninni. Málið er enn í skúffu bæjarstjóra.

Hitaveita og framfarasjóður

Víkjum þá að kostnaði við framkvæmdina og fjármögnun. Sé tekið mið af kostnaði við núverandi  hitaveituframkvæmdir á landsbyggðinni, til dæmis í Húnaþingi vestra, má ætla að framkvæmdin kosti á bilinu 50 til 60 milljónir króna. Þessi upphæð mun síðan lækka töluvert sé tekið tillit til lögbundis framlags frá ríkissjóði og heimæðargjalds. Ætla má að beinn kostnaður sveitarfélagsins verið í kringum 30 milljónir, sem telst mjög lágt í samanburði og lægri upphæð en fer í viðhaldsframkvæmdir í þéttbýlinu Vogum ár hvert. Árið 2007 seldi sveitarfélagið Vogar hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og stofnaði í framhaldi svokallaðan framfarasjóð. Eignir sjóðsins árið 2010 voru 1369 milljónir. Ekkert af þessum peningum voru nýttir í hitaveituframkvæmdir, þrátt fyrir að það sé óumdeilt að hitaveita teljist til framfara, bæti búsetuskilyrði verulega og stuðli að atvinnuuppbyggingu til dæmis í ferðaþjónustu.
Sjóðurinn var nýttur til að greiða niður skuldir, fasteignir voru keyptar aftur sem höfðu verið seldar og framkvæmt í Vogum, meðal annars byggður nýr knattspyrnuvöllur fyrir 100 milljónir. Sveitarfélagið getur því ekki borið það fyrir sig að ekki hafi verið til fjármunir fyrir hitaveitu. Bæjarfulltrúarnir og bæjarstjórinn búa reyndar í þéttbýlinu og hafa hitaveitu, hugsanlega hefur það haft áhrif. Sumir þeirra eru áhugamenn um knattspyrnu. Vilji til verka var allt sem þurfti.

Duglausir bæjarfulltrúar

Fróðlegt er að bera saman sögu þessa máls við tvö sveitarfélög á landsbyggðinni. Húnaþing vestra stendur nú fyrir hitaveituframkvæmdum. Fjöldi bæja með sumarhúsum sem fá hitaveitu eru 42, vegalengdin er 47 kílómetrar. Íbúafjöldi Húnaþings vestra er 1100.

Árið 2007 var hitaveita lögð til Grenivíkur, vegalengdin er  50 kílómetrar, fjöldi notenda 100.

Íbúafjöldi í Grýtubakkahreppi er 360.

Í sveitarfélaginu Vogum búa tæplega 1200 manns og hefur það reynst duglausum bæjarfulltrúum ofviða að leggja hitaveitu 6 kílómetra.

Hitaveita er lífsgæði.                            

Birgir Þórarinsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024