Ævintýra- og Undraheimar
Vinnu lokið og það næsta á dagskrá að sækja guttann minn. Í dyragættinni á leikskólanum kveðjum við þá sem þar eru og fáum á móti hugheilar kveðjur frá starfsfólkinu og beðnir í Guðs bænum að fara varlega í umferðinni.
Úti er farið að rökkva, drungalegir skýjabólstrar flögra um himininn.. Snörp vindhviða stingur sér niður á milli húsanna, feykir öllu lauslegu til og býr til strók sem vefur sig upp eftir götunni og slæst í andlit þeirra sem leið eiga um.
Við feðgarnir herðum á hlaupunum í áttina að bílnum sem bíður okkar efst í brekkunni fyrir ofan leikskólann. Þetta lúna eðaltæki, Kengúran mín, sem margir líkja við hvæsandi kött með kryppuna upp, býr yfir þeim hæfileika að fá mig í heilsuskokk á ólíklegustu tímum, oftast í leiðinda veðri upp á heiði og hikar ekki við að sýna mér, nokkurn veginn þegar bæjarljósin hverfa út af baksýnisspeglinum, hversu óstöðvandi hóstakast einn mótor geti fengið.
Ég spenni son minn rjóðan og sællegan ofan í aftursætið og við leggjum af stað.
Gulur lítill poki, sem skrjáfar í, með alls kyns góðgæti, svörtum fiskum, Bónuskúlum, konfektmolum og nammihlaupi, galdra ég upp úr vasanum á úlpunni og rétti unga manninum. Það er tuggið, velt á milli munnvika og kinna, litlir fingur á iði við að losa um það sem vill festast. Á ótrúlega skömmum tíma hefur honum tekist að sporðrenna vænum hluta af innihaldinu. Tungan sér um að fínkemba þær fáu agnir sem rata ekki réttu leið. Ég sé hann taka út úr sér jórturgúmmí og bera það upp að nefinu.
Augun líta ekki af mynd sem var utan um.
„Hvað ertu að gera?”
„Finna betur Batmanlyktina af tyggjóinu.”
„Já, einmitt.”
„Það er flottara að segja Bachman en Batman. Sumir segja Baman en mér finnst flottast að segja Paggman.” Ég virði hann fyrir mér og íhuga þessa nýju skoðun sem hann hefur látið í ljós á uppáhaldinu sínu.
„Þessi mynd, pabbi, er Tatoo, Tyggjótatoo af Paggman.”
Því er ekki að neita að líkur er hann móður sinni, eljusemin og natnin við hvað sem hann tekur sér fyrir hendur. Hitt er líka augljóst hvað hann hefur sótt til mín og minna. Þó hann hafi enn sloppið við að fá þennan tvöfalda bílskúr á milli augnanna, sem nef heitir og er “Óðal Ættarinnar” hefur hann erft þrjóskuna úr föðurgarði. Af öllum hlutum hefði verið hægt að velja honum betra hlutskipti.
„Manstu í gær, pabbi, Gunnar ha, hann Gunnar. Sástu hvernig hann lék sér að Indíánanum á járn-brautarlestinni?” Hér er hann að rifja upp heimsókn okkar til systur minnar en sonur hennar hafði nýlega fengið tölvu í afmælisgjöf. Ungi maðurinn byrjar að leika eftir hljóðunum sem voru í leiknum.
„Hei-ja, hei-ja, hei-ja. Hvernig verður maður svona klár?”
„Æfingin skapar meistarann. Bráðum verður þú jafn klár.”
„En hvernig, ég á enga tölvu og engan Indíána Jones?”
Léttur hrynjandi dægurtóna leikur um okkur. Bíll flautar fyrir aftan, þeytist fram úr og hverfur sjónum í næstu beygju.
„Það má ekki spítta og glanna í beygjurnar,” segir sonur minn ábúðarfullur og hvessir brýrnar á eftir bílstjóranum.
Þó lítill væri hafði honum tekist að hreiðra svo kyrfilega um sig í sálu minni að stundum fannst mér ég standa á öndinni af áhyggjum yfir velferð hans, yfir óvissunni sem fylgir okkur í lífinu. Brátt kæmi að því að þessar litlu hendur sem maður hefði leitt í gegnum súrt og sætt myndu draga sig til baka þegar við mættum jafnöldrum hans en bjóðast svo aftur þegar þeir væru farnir hjá.
„Pabbi hann Öddi, Öddi pabbi. Heyrirðu ekki í mér?”
„Jú jú hvað með hann?”
„Manstu þegar hann kastaði í mig...”
„Úff, kom blóð?”
Hann setur höndina ofan á höfuðið og lætur hana síga ofur rólega niður að höku. Á trúlega við að yfirborðið innvortis hafi lækkað sem þessu nemi.
„Ég trúi þessu varla, svona mikið?”
„Jááá.”
„Það er ekki fallegt þegar litlir strákar eru kasta grjóti,” segi ég.
„….Og það er ljótt” bætir hann við með áherslu.
Tónninn í rödd hans segir meira en mörg orð. Eftir allan hamaganginn og glaðværðina á leikskólanum, hefur orðið spennufall. Nú sé komið að mér að lita veröldina björtum ævintýraljóma og eftirvæntingu, örskamma stund. Eftir það muni hann fræða mig um þann heim þar sem hugarflugið og sköpunargleðin eru allsráðandi. Á þeim vettvangi er hann kennarinn en ég nemandinn. En núna yrði ég að einbeita mér að reynsluheiminum, nota forskotið sem tíminn hafði gefið mér. Saga af ofurmenninu Superman, gæti hún breytt einhverju? Eða saga af Rambó sem átti heilræði á takteinunum við ólíklegustu uppákomur? Það hafði oft gengið. Batman og Robin voru sér á báti, að fletta saman minningabroti úr lífi unga mannsins inn í líf þeirra og búa til sameiginlega atburðarás, var í uppáhaldi. Ég lít í baksýnisspegilinn og sé að hann er að gramsa ofan í nammipokanum. Veislunni hjá bragðlaukunum er enn ekki lokið.
„Ég skal sko segja þér flotta sögu í kvöld þegar við förum að sofa.”
Hann lítur ekki upp. “Hvernig sögu?”
„Hún fjallar um sjö ára stelpu sem átti heima í höll upp í sveit. Pabbi hennar var eins og Prince Valiant, mikils metinn riddari. Átti sverð galdrasverð, skjöld, riddaraspjót og flottan hest.”
„Já...” segir hann yfirlætislega og stingur sykurhúðuðu hlaupi upp í sig. “Og..”
„Stelpan var búin að leika sér svo mikið við systur sínar að hún var búin að fá leið á að leika sér eins og stelpur gera, vildi fá að leika sér eins og strákar gera. Og veistu hvað? Herbergið hennar, þar sem hún geymdi gullin sín, dótið sitt, var stærra en þrjár leikfangaverslanir til samans. Næstum því jafnstórt og Hagkaup.” Ég sé að hann er að flytja nammið úr munninum út í kinnina.
„Átti hún þá svona mikið dót og líka strákadót?”
„Ég er nú hræddur um það en… það var alveg skelfilegt og hún fór til föður síns og bað hann um að hjálpa sér.”
Áhuginn blossar upp í aftursætinu.
„Hvað var alveg skelfilegt og af hverju átti pabbi hennar að hjálpa henni?”
„Nú skal ég segja þér. Höllin var dálítið mikið upp í sveit og af því að hún var svona langt í burtu, nenntu strákarnir ekki að labba alla þessa leið til að leika við Fjólu, en það hét stelpan.
Pabbi hennar vissi hvernig ætti að leysa svona smá vandamál. Hann sendi vin sinn Jóhann riddara með orðsendingu í bæinn.”
Eitthvað brýst um í huga unga mannsins og ég hleypi honum að.
„Hvað?”
„Skeður sagan þar sem Köngulóarmaðurinn á heima?”
„Þetta gerist svolítið langt í burtu en ekki mjög.”
Það sakar ekki að geta komið honum að í sögunni ef ég yrði uppiskroppa.
„Orðsendingin var eftirfarandi: Hver sá strákur, frá fjögurra ára aldri og upp úr sem vill leika við hana Fjólu í höllinni fær flottan fjarstýrðan Villys herjeppa á stærð við stóran kassabíl, svartan með blæju, að launum. Hægt er að setja bílinn, sem gengur fyrir rafgeymi, í gang og tveir aukalyklar fylgja.” „Hvernig þá með bílinn?”
„Hann var með útvarpi, hægt að kveikja á miðstöð og rúðuþurrkum.”
„Og...”
„Heldurðu að ég ætli að segja þér alla söguna núna? Hvað á ég þá að segja þér í kvöld?”
„Við förum þá snemma að sofa?”
„Auðvitað.”
Þó blandað væri saman miðöldum og líðandi stund, riddara og blæjujeppa, kom það ekki að sök þegar hugarflugið átti leik. Ég sé hann láta fara vel um sig í aftursætinu. Mikið var ljúft að eiga aðdáanda. Við rennum inn á planið.
Kona í dökkri kápu með sofandi barn í fanginu lítur til okkar um leið og ég set lykilinn í útidyraskrána. Það glymur í stéttinni undan háhæluðu skónum þegar hún heldur leiðar sinnar meðfram blokkinni.
„Viltu sjá hvað ég var að kubba í gær?”
Hann ryðst fram hjá mér í dyragættinni. Litríkur kastali með vígamenn, bogmenn og riddara á hverri syllu, hefur fengið nýtt útlit.
„Sjáðu hérna undir hengibrúnni, eru krókódílar og mannætufiskar.”
Augu hans hvíla á mér og ég læt sem mér hafi orðið um.
„Þá er víst betra að fara varlega og detta ekki ofan í.”
„Og þarna er felligildra og snúningsbrú.” Hann bendir hér og þar um kastalann.
„Og veistu hvað er ofan í dýflissunni?” Augun stækka og röddin lækkar niður í lægstu tóna barnsraddarinnar. “Óhugnalega grænt?”
Á meðan hóstinn gengur yfir eftir þessa áreynslu virði ég hann fyrir mér með andakt.
„Pabbi ertu hræddur?”
„Ekki enn.”
Þá er farið að róta í leikfangagrindinni. Hann kemur með plastsverð og lætur ljósið sem er innan í lýsa upp andlitið.
„Ú, ú' ú, ofan í dýflissunni er...”
„Ekki meira. Nú varð ég hræddur.” segi ég og ber mig aumlega, geri eins og hann vill, skil það sem upp á vantar, ýti undir stórfengleika sköpunarverksins.
Hvellur hávaði berst til okkar og slítur í sundur þennan frábæra leikþátt.
„Síminn, það er síminn.”
Á augabragði hefur hann snúið sér við og rokið fram á ganginn.
„Já, halló. Jú það er hann.”
Hljómmikil röddin berst til mín inn í herbergið.
„Já ja, en - amma þú mátt ekki hringja í mig þegar ég er að leika mér.”
Samtalið í stysta lagi. Hann kemur á harðaspretti aftur inn.
„Pabbi, pabbi ég gleymdi alveg að sýna þér. Mamma er sko flottur teiknari. Ég skal sýna þér He-man.”
„Veistu hvað hann heitir á íslensku?”
„Já, Garpur. Hvenær er mamma eiginlega búin að vinna?”
Það ber heim og saman. Umgangur við dyrnar að íbúðinni. Snöggt viðbragð hjá unga manninum. „Mamma þú ættir bara að vita hvað það var gaman í dag. Hann Rúnar litli sem er með mér á leikskólanum á Rambójeppa, ninjuna Hvíta-Dreka, Turbó og líka Stríðshauk og Hanakamb!”
Augnablikið, um þetta óhugnalega græna í dýflissunni, er gleymt og grafið, um leið og annað fæðist og maður telur sig heppinn að geta fangað fáein prósent af sköpunargáfunni og frásagnarlistinni.
Lego-deildin liggur í loftinu, en seinna um kvöldið þegar ævintýrasögunni um Fjólu í höllinni er lokið, syfjuð augu búin að gera upp við sig óteljandi smáatriði til að fá heildarsvipinn réttan, mun svefnhöfgi leiða ungan dreng af stað inn í draumalandið sem er yfirfullt af framandleika, undri og stórmerkum.
Þá fyrst gefst mér tími til að setja mig niður við ritvélina.
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ.
Úti er farið að rökkva, drungalegir skýjabólstrar flögra um himininn.. Snörp vindhviða stingur sér niður á milli húsanna, feykir öllu lauslegu til og býr til strók sem vefur sig upp eftir götunni og slæst í andlit þeirra sem leið eiga um.
Við feðgarnir herðum á hlaupunum í áttina að bílnum sem bíður okkar efst í brekkunni fyrir ofan leikskólann. Þetta lúna eðaltæki, Kengúran mín, sem margir líkja við hvæsandi kött með kryppuna upp, býr yfir þeim hæfileika að fá mig í heilsuskokk á ólíklegustu tímum, oftast í leiðinda veðri upp á heiði og hikar ekki við að sýna mér, nokkurn veginn þegar bæjarljósin hverfa út af baksýnisspeglinum, hversu óstöðvandi hóstakast einn mótor geti fengið.
Ég spenni son minn rjóðan og sællegan ofan í aftursætið og við leggjum af stað.
Gulur lítill poki, sem skrjáfar í, með alls kyns góðgæti, svörtum fiskum, Bónuskúlum, konfektmolum og nammihlaupi, galdra ég upp úr vasanum á úlpunni og rétti unga manninum. Það er tuggið, velt á milli munnvika og kinna, litlir fingur á iði við að losa um það sem vill festast. Á ótrúlega skömmum tíma hefur honum tekist að sporðrenna vænum hluta af innihaldinu. Tungan sér um að fínkemba þær fáu agnir sem rata ekki réttu leið. Ég sé hann taka út úr sér jórturgúmmí og bera það upp að nefinu.
Augun líta ekki af mynd sem var utan um.
„Hvað ertu að gera?”
„Finna betur Batmanlyktina af tyggjóinu.”
„Já, einmitt.”
„Það er flottara að segja Bachman en Batman. Sumir segja Baman en mér finnst flottast að segja Paggman.” Ég virði hann fyrir mér og íhuga þessa nýju skoðun sem hann hefur látið í ljós á uppáhaldinu sínu.
„Þessi mynd, pabbi, er Tatoo, Tyggjótatoo af Paggman.”
Því er ekki að neita að líkur er hann móður sinni, eljusemin og natnin við hvað sem hann tekur sér fyrir hendur. Hitt er líka augljóst hvað hann hefur sótt til mín og minna. Þó hann hafi enn sloppið við að fá þennan tvöfalda bílskúr á milli augnanna, sem nef heitir og er “Óðal Ættarinnar” hefur hann erft þrjóskuna úr föðurgarði. Af öllum hlutum hefði verið hægt að velja honum betra hlutskipti.
„Manstu í gær, pabbi, Gunnar ha, hann Gunnar. Sástu hvernig hann lék sér að Indíánanum á járn-brautarlestinni?” Hér er hann að rifja upp heimsókn okkar til systur minnar en sonur hennar hafði nýlega fengið tölvu í afmælisgjöf. Ungi maðurinn byrjar að leika eftir hljóðunum sem voru í leiknum.
„Hei-ja, hei-ja, hei-ja. Hvernig verður maður svona klár?”
„Æfingin skapar meistarann. Bráðum verður þú jafn klár.”
„En hvernig, ég á enga tölvu og engan Indíána Jones?”
Léttur hrynjandi dægurtóna leikur um okkur. Bíll flautar fyrir aftan, þeytist fram úr og hverfur sjónum í næstu beygju.
„Það má ekki spítta og glanna í beygjurnar,” segir sonur minn ábúðarfullur og hvessir brýrnar á eftir bílstjóranum.
Þó lítill væri hafði honum tekist að hreiðra svo kyrfilega um sig í sálu minni að stundum fannst mér ég standa á öndinni af áhyggjum yfir velferð hans, yfir óvissunni sem fylgir okkur í lífinu. Brátt kæmi að því að þessar litlu hendur sem maður hefði leitt í gegnum súrt og sætt myndu draga sig til baka þegar við mættum jafnöldrum hans en bjóðast svo aftur þegar þeir væru farnir hjá.
„Pabbi hann Öddi, Öddi pabbi. Heyrirðu ekki í mér?”
„Jú jú hvað með hann?”
„Manstu þegar hann kastaði í mig...”
„Úff, kom blóð?”
Hann setur höndina ofan á höfuðið og lætur hana síga ofur rólega niður að höku. Á trúlega við að yfirborðið innvortis hafi lækkað sem þessu nemi.
„Ég trúi þessu varla, svona mikið?”
„Jááá.”
„Það er ekki fallegt þegar litlir strákar eru kasta grjóti,” segi ég.
„….Og það er ljótt” bætir hann við með áherslu.
Tónninn í rödd hans segir meira en mörg orð. Eftir allan hamaganginn og glaðværðina á leikskólanum, hefur orðið spennufall. Nú sé komið að mér að lita veröldina björtum ævintýraljóma og eftirvæntingu, örskamma stund. Eftir það muni hann fræða mig um þann heim þar sem hugarflugið og sköpunargleðin eru allsráðandi. Á þeim vettvangi er hann kennarinn en ég nemandinn. En núna yrði ég að einbeita mér að reynsluheiminum, nota forskotið sem tíminn hafði gefið mér. Saga af ofurmenninu Superman, gæti hún breytt einhverju? Eða saga af Rambó sem átti heilræði á takteinunum við ólíklegustu uppákomur? Það hafði oft gengið. Batman og Robin voru sér á báti, að fletta saman minningabroti úr lífi unga mannsins inn í líf þeirra og búa til sameiginlega atburðarás, var í uppáhaldi. Ég lít í baksýnisspegilinn og sé að hann er að gramsa ofan í nammipokanum. Veislunni hjá bragðlaukunum er enn ekki lokið.
„Ég skal sko segja þér flotta sögu í kvöld þegar við förum að sofa.”
Hann lítur ekki upp. “Hvernig sögu?”
„Hún fjallar um sjö ára stelpu sem átti heima í höll upp í sveit. Pabbi hennar var eins og Prince Valiant, mikils metinn riddari. Átti sverð galdrasverð, skjöld, riddaraspjót og flottan hest.”
„Já...” segir hann yfirlætislega og stingur sykurhúðuðu hlaupi upp í sig. “Og..”
„Stelpan var búin að leika sér svo mikið við systur sínar að hún var búin að fá leið á að leika sér eins og stelpur gera, vildi fá að leika sér eins og strákar gera. Og veistu hvað? Herbergið hennar, þar sem hún geymdi gullin sín, dótið sitt, var stærra en þrjár leikfangaverslanir til samans. Næstum því jafnstórt og Hagkaup.” Ég sé að hann er að flytja nammið úr munninum út í kinnina.
„Átti hún þá svona mikið dót og líka strákadót?”
„Ég er nú hræddur um það en… það var alveg skelfilegt og hún fór til föður síns og bað hann um að hjálpa sér.”
Áhuginn blossar upp í aftursætinu.
„Hvað var alveg skelfilegt og af hverju átti pabbi hennar að hjálpa henni?”
„Nú skal ég segja þér. Höllin var dálítið mikið upp í sveit og af því að hún var svona langt í burtu, nenntu strákarnir ekki að labba alla þessa leið til að leika við Fjólu, en það hét stelpan.
Pabbi hennar vissi hvernig ætti að leysa svona smá vandamál. Hann sendi vin sinn Jóhann riddara með orðsendingu í bæinn.”
Eitthvað brýst um í huga unga mannsins og ég hleypi honum að.
„Hvað?”
„Skeður sagan þar sem Köngulóarmaðurinn á heima?”
„Þetta gerist svolítið langt í burtu en ekki mjög.”
Það sakar ekki að geta komið honum að í sögunni ef ég yrði uppiskroppa.
„Orðsendingin var eftirfarandi: Hver sá strákur, frá fjögurra ára aldri og upp úr sem vill leika við hana Fjólu í höllinni fær flottan fjarstýrðan Villys herjeppa á stærð við stóran kassabíl, svartan með blæju, að launum. Hægt er að setja bílinn, sem gengur fyrir rafgeymi, í gang og tveir aukalyklar fylgja.” „Hvernig þá með bílinn?”
„Hann var með útvarpi, hægt að kveikja á miðstöð og rúðuþurrkum.”
„Og...”
„Heldurðu að ég ætli að segja þér alla söguna núna? Hvað á ég þá að segja þér í kvöld?”
„Við förum þá snemma að sofa?”
„Auðvitað.”
Þó blandað væri saman miðöldum og líðandi stund, riddara og blæjujeppa, kom það ekki að sök þegar hugarflugið átti leik. Ég sé hann láta fara vel um sig í aftursætinu. Mikið var ljúft að eiga aðdáanda. Við rennum inn á planið.
Kona í dökkri kápu með sofandi barn í fanginu lítur til okkar um leið og ég set lykilinn í útidyraskrána. Það glymur í stéttinni undan háhæluðu skónum þegar hún heldur leiðar sinnar meðfram blokkinni.
„Viltu sjá hvað ég var að kubba í gær?”
Hann ryðst fram hjá mér í dyragættinni. Litríkur kastali með vígamenn, bogmenn og riddara á hverri syllu, hefur fengið nýtt útlit.
„Sjáðu hérna undir hengibrúnni, eru krókódílar og mannætufiskar.”
Augu hans hvíla á mér og ég læt sem mér hafi orðið um.
„Þá er víst betra að fara varlega og detta ekki ofan í.”
„Og þarna er felligildra og snúningsbrú.” Hann bendir hér og þar um kastalann.
„Og veistu hvað er ofan í dýflissunni?” Augun stækka og röddin lækkar niður í lægstu tóna barnsraddarinnar. “Óhugnalega grænt?”
Á meðan hóstinn gengur yfir eftir þessa áreynslu virði ég hann fyrir mér með andakt.
„Pabbi ertu hræddur?”
„Ekki enn.”
Þá er farið að róta í leikfangagrindinni. Hann kemur með plastsverð og lætur ljósið sem er innan í lýsa upp andlitið.
„Ú, ú' ú, ofan í dýflissunni er...”
„Ekki meira. Nú varð ég hræddur.” segi ég og ber mig aumlega, geri eins og hann vill, skil það sem upp á vantar, ýti undir stórfengleika sköpunarverksins.
Hvellur hávaði berst til okkar og slítur í sundur þennan frábæra leikþátt.
„Síminn, það er síminn.”
Á augabragði hefur hann snúið sér við og rokið fram á ganginn.
„Já, halló. Jú það er hann.”
Hljómmikil röddin berst til mín inn í herbergið.
„Já ja, en - amma þú mátt ekki hringja í mig þegar ég er að leika mér.”
Samtalið í stysta lagi. Hann kemur á harðaspretti aftur inn.
„Pabbi, pabbi ég gleymdi alveg að sýna þér. Mamma er sko flottur teiknari. Ég skal sýna þér He-man.”
„Veistu hvað hann heitir á íslensku?”
„Já, Garpur. Hvenær er mamma eiginlega búin að vinna?”
Það ber heim og saman. Umgangur við dyrnar að íbúðinni. Snöggt viðbragð hjá unga manninum. „Mamma þú ættir bara að vita hvað það var gaman í dag. Hann Rúnar litli sem er með mér á leikskólanum á Rambójeppa, ninjuna Hvíta-Dreka, Turbó og líka Stríðshauk og Hanakamb!”
Augnablikið, um þetta óhugnalega græna í dýflissunni, er gleymt og grafið, um leið og annað fæðist og maður telur sig heppinn að geta fangað fáein prósent af sköpunargáfunni og frásagnarlistinni.
Lego-deildin liggur í loftinu, en seinna um kvöldið þegar ævintýrasögunni um Fjólu í höllinni er lokið, syfjuð augu búin að gera upp við sig óteljandi smáatriði til að fá heildarsvipinn réttan, mun svefnhöfgi leiða ungan dreng af stað inn í draumalandið sem er yfirfullt af framandleika, undri og stórmerkum.
Þá fyrst gefst mér tími til að setja mig niður við ritvélina.
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ.