Ætlar ÞÚ í pólitík?
– Kolbrún Jóna Pétursdóttir skrifar
Já, ég er búin að taka ákvörðun um að fara í pólitík. Ólíkt „alvöru“ stjórnmálamönnum þá komu ekki menn að máli við mig og báðu mig að vera með heldur þurfti ég að leita eftir fólki sem var að hugsa það sama og ég og banka á nokkrar dyr. Mig langar að taka þátt í bæjarmálunum hér á annan hátt en ég hef gert áður og þyrstir í nýjan tón í bæjarmálin. Þar sem ég er ekki tilbúin til að staðsetja mig á þessu hefðbundna pólitíska litrófi og ekki upptekin af muninum á hægri og vinstri hentar hópur óflokksbundinna einstaklinga mér. Bein leið hentar mér.
Mér finnst ég búa á einum fallegasta stað á landinu þótt ég fái mjög reglulega athugasemdir þegar ég held því fram í öðrum sveitarfélögum. Ég er Suðurnesjakona, Keflvíkingur í húð og hár og langt aftur í ættir og þykir óendanlega vænt um bæinn minn. Hér finnst mér vera allt til alls og í bænum býr yndislegt fólk. Ég viðurkenni samt að ég á ennþá frekar erfitt með að líta á mig sem Reykjanesbæing, en það kemur vonandi þegar ég verð stór.
Eftir að ég tók ákvörðun um að vinna með því fólki hér í bæjarfélaginu sem langar að fara í hlutina á svipuðum nótum og ég, fólki sem ég treysti fullkomlega, hef ég fengið ýmis skemmtileg viðbrögð. Sumir hafa hvatt mig mikið og aðrir hvatt mig aðeins minna. Flestir hafa nefnilega skoðun á því hvernig hinn eini sanni stjórnmálamaður á að vera svo að hann fái nú atkvæði. Ég hef ekki endilega fengið að heyra hvað fólk vill að ég geri en aftur á móti geri ég mér alltaf betur grein fyrir því að ég þarf helst að vera voða sæt, sem ég klárlega er, en ég þarf líka að vera skemmtileg, brosandi, sjarmerandi og helst að geta sagt góða brandara. Svo þarf ég að koma með eitthvað nýtt í bæjarmálin. Ég ætla að gera þetta allt með bros á vör og er löngu byrjuð að æfa mig. Það sem mig langar hins vegar að gera öðru fremur er að vera heiðarleg, vinna vel, sýna auðmýkt og geta viðurkennt að ég kann ekki allt og á örugglega eftir að gera mistök. En það hljómar bara svo leiðinlega.
Ég ætla að sjá til þess að byggð verði risarennibraut yfir Faxaflóann, útvega hræódýra orku í allar fyrirhugaðar verksmiðjur á svæðinu og nægt fjármagn í háhraðalest til Reykjavíkur. Að sjálfsögðu mun ég strax flytja flugvöllinn frá Reykjavík til Reykjanesbæjar og að endingu mun ég breyta klukkunni líka. Þegar ég er búin að þessu öllu langar mig að innleiða ný vinnubrögð í bæjarmálin. Gera stjórnsýsluna gegnsæja og opna og reka bæjarsjóð í samráði við bæjarbúa. Þar sem ásýnd bæjarins okkar er bara orðin mjög flott finnst mér kominn tími til að hvíla verklegar framkvæmdir nema þær allra nauðsynlegustu og hlúa betur að fólkinu okkar. Hugmyndin um verksmiðjuhverfi í Helguvík hugnast mér alls ekki en tel aftur á móti mikilvægt að fara nýjar leiðir í að koma höfninni á kortið til að geta farið að borga gamlar skuldir upp á mjög margar krónur.
Ég sé fyrir mér að hér í bæ geti komið saman hópur fólks sem vinnur sameiginlega að því að gera bæinn enn betri, já að samfélagi þar sem okkur líður vel. Pólitík er nefnilega ekkert annað en samskipti og virðing milli fólks og þess umhverfis sem það býr við hverju sinni. Við getum svo vel unnið þetta á nýjum nótum. Ég tel mikilvægt að fleiri raddir komi að ákvarðanatöku varðandi bæjarmálin og við kveðjum í bili núverandi stöðu þar sem einn flokkur fer með óskorðað vald í nánast allri ákvarðanatöku. Breytum þessu saman!
Kolbrún Jóna Pétursdóttir