Aðsent

Ætla Píratar að skattpína ferðaþjónustuna? Vilja þeir brenna kolum í stað umhverfisskárri orkukosta?
Fimmtudagur 27. október 2016 kl. 12:00

Ætla Píratar að skattpína ferðaþjónustuna? Vilja þeir brenna kolum í stað umhverfisskárri orkukosta?

- Aðsend grein frá Skúla Thoroddsen

Píratar hafa sett fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum sem á margan átt má taka undir. Þó eru á þeim vanhugsaðir og óraunhæfir agnúar. Píratar vilja nýta hagræna hvata til að draga úr útstreymi mengunar í umhverfið. Þannig skal öll starfsemi sem losar mengandi efni í umhverfið greiða mengunarrentu umfram hefðbundna skatta. Ferðamannaflaumurinn til Íslands næstu árin mun skilja eftir sig mestu og subbulegustu kolvetnissporin hér á landi. Menga mjög. Ætla Píratar þá að draga úr þeim flaumi með skattlagningu á ferðaþjónustuna, til að stemma stigu við loftslagsbreytingum, með stuðningi VG og Samfylkingarinnar komist þeir í næstu ríkisstjórn með þeim flokkum? Maður bara spyr sig.
Píratar vilja að Ísland taki skýra afstöðu gegn frekari olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögsögunni, meðan VG og Samfylkingin vilja afturkalla gildandi olíuleitar- og eftir atvikum vinnsluleyfi á Drekasvæðinu sem þau stóðu þó að í síðustu ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. Píratar virðast þannig vilja halda samninga, sem VG  og Samfylkingin ætlar ekki að gera, en Píratar vilja ekki, frekar en VG og S, stofna til nýrra leyfa komi í ljós vinnanlegar gas- eða olíulindir á Drekasvæðinu.

Samkvæmt auðlindastefnu Pírata kemur fram að þeir vilji að íslenska þjóðin fái sanngjarnan arð af nýtingu sameiginlegra auðlinda sinna en samt taka þeir skýra afstöðu gegn frekari olíuleit og þar með að íslenska þjóðin fái arð af þeirri auðlind sinni sé hún á annað borð vinnanleg. Því ræður aðgerðastefna Pírata í loftslagsmálum m.a. um að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og að axla ábyrgð á málaflokknum.  En er það svo?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Framlag okkar Íslendinga til að stemma stigu við loftslagsbreytingum er, auk okkar eigin markmiða vegna Parísarsamningsins, að nýta sem best okkar sjálfbæru virkjunarkosti. Evrópa, sem á fárra sjálfbærra kosta völ, gæti líklega uppfyllt Parísarsáttmálann með því að skipta út kolum fyrir gas með því að auka kaup á gasi frá Rússlandi og úr Norðursjó. Um helmingur raforku í Þýskalandi í dag kemur frá brennslu kola og kolvetnissporin því yfirþyrmandi í Þýskalandi. Um 30% af orkuvinnslu heimsins alls stafar frá kolum.
Það skildi þó aldrei vera að olía/gas á Drekasvæðinu gæti hjálpað til við að losna við kolin til að stemma stigu við loftslagsbreytingum á síðari helmingi 21. aldarinnar? Eigum við þá að vera á móti frekari olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögsögunni í anda náttúruverndar?

Gott væri að Píratar hugsuðu málið heildstætt, meðal annars í hnattrænu samhengi út frá orkuþörf heimsins alls. Andstætt stefnu Pírata er stefna Viðreisnar alveg skýr að maður tali nú ekki um stefnu Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar. Viðreisn vill leita raunhæfra lausna í samhengi við þann raunveruleka sem við búum við. Leggja okkar af mörkum í þágu vistvænna orkugjafa, nýta sjálfbæra orkukosti og auðlindir landsins, í sátt við náttúruna. Það verður að skipta út vondum orkukostum fyrir betri eða skárri kosti, gas fyrir kol eða þess vegna olíu fyrir kol, ef það hjálpar til við að bregðast við loftslagsvandanum, vegna þess að það er skynsamlegt, einkum til skemmri tíma litið meðan sjálfbærir, vistvænir orkukostir eru enn af skornum skammti.


Skúli Thoroddsen
Höfundur býr í Reykjanesbæ og skipar 12. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi