Aðstöðuleysi og gott rauðvín
Er Logi Gunnars eins og gott rauðvín. Lesið Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar
Körfuboltavertíðin er farin af stað og það má svo sannarlega segja að tímabilið hafið byrjað með látum en síðasta föstudag mættust erkifjendurnir Njarðvík og Keflavík í opnunarleik vetrarins karlamegin í Ljónagryfjunni. Þessi tvö stórveldi verða vonandi með sterk lið í vetur sem berjast á toppnum enda sýnist mér mikill metnaður í gangi hjá báðum liðum.
Eftir að hafa einokað Íslandsmeistaratitilinn í næstum 30 ár þá er orðið allt of langt síðan hann kom hingað síðast karla megin eða árið 2008. Stelpurnar hafa hinsvegar haldið þessu upp með miklum glæsibrag. Keflavíkurstúlkum spáð titlinum í vetur og spennandi uppbygging í gangi Njarðvíkurmegin. Hvet ykkur bæjarbúa sem fyrr til þess að fjölmenna á leiki liðanna í vetur, það veitir ekki af stuðninginum og svo er þetta frábær skemmtun.
En aftur að leiknum á föstudaginn sem var svo sannarlega frábær auglýsing fyrir bæjarfélagið og félögin okkar enda smekkfullt hús, frábær stemming og gæði leiksins voru ansi mikil. Þriggja stiga körfunum rigndi gjörsamlega niður og þetta minnti á gamla góða tíma enda var smá úrslitakeppnis hasar á köflum. (fæ vatn í munninn við þá tilhugsun að sjá þessi félög mætast í vor í úrslitakeppninni). Njarðvík vann svo leikinn eftir mikla spennu og ekki skemmdi það fyrir. Hrósa samt Keflvíkingum sem leiddu nánast allan leikinn en það er fegurðin við körfuna, hlutirnir eru fljótir að breytast. Tvennt er það þó sem stendur mest uppúr hjá mér eftir þennan leik en í fyrsta lagi sú staðreynd að Ljónagryfjan, heimavöllur UMFN er algjört barn síns tíma, þetta sögufræga hús er allt of lítið. Árið 1973 þegar Gryfjan var byggð voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar (íbúar Reykjanesbæjar eru 18.773 í dag). Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem fyrst. Treysti á ykkur Reykjanesbær! Hitt atriðið sem stóð uppúr er Logi Gunnarsson leikmaður UMFN. Það er ávallt sagt að rauðvín verði betra eftir því sem það verður eldra (eflaust er það rétt en persónulega drekk ég ekki þetta sull og kýs þá frekar ískaldan mjöð en það er bara ég) og því er samlíkingin við Loga ekki svo galin. Logi Gunnarsson, 37 ára unglingur kláraði leikinn með tveimur þriggja stiga körfum sem verða lengi í minnum hafðar en rétt áður hafði hann misst auðvelt sniðskot og fór þá nettur kliður um stúkuna. Einhverjir jafnvel dæmt hann úr leik en gamli seigur kom til baka og kláraði leikinn nánast upp á eigin spýtur á ótrúlegan hátt.
Logi er sannkölluð fyrirmynd innan og utan vallar, hann heldur sér betur við en nánast allir aðrir leikmenn og er meiri gæðadrengur vandfundinn. Svo er hann líka frábær í körfubolta! Logi er meira en gott rauðvín, hann er eflaust eitt af bestu rauðvínum sem sést hefur á fjölum Ljónagryfjunnar og ég veit það uppá tíu að hann hættir ekki að spila fyrr en UMFN fær nýtt íþróttahús.
Gamli unglingurinn ætlar að vígja það með einni þriggja stiga, úr horninu.