Aðstoðarráðherra í grjótkasti
Það er drýldinn maður sem skrifar á vef Víkurfrétta í vikunni um að Framsóknarflokkurinn sé helsti þrándur í götu álvers í Helguvík og vitnar þar í viðtal við formann flokksins í hádegisfréttum síðastliðinn fimmtudag. Og það er rétt að þar sagði formaður flokksins að það væri ekki tímabært við núverandi aðstæður að ráðast í uppbyggingu á umræddu álveri.
En það er rangt að Framsóknarflokkurinn leggist gegn umræddu álveri. Við teljum þetta brýna framkvæmd þegar þær aðstæður hafa skapast í efnahagslífi landsmanna að mögulegt sé að ráðast til framkvæmda. Við teljum okkur skylt að reka ábyrga stefnu í stjórnarandstöðunni og tölum ekki á sama tíma fyrir tveimur nýjum álverum og því að ná verði tökum á verðbólgu og ofurvöxtum. Það er nóg að stjórnarflokkarnir séu ábyrgðarlausir um stjórn efnahagsmála þó svo að stjórnarandstaðan sé ekki öll sama marki brennd.
Hvað vill ríkisstjórnin?
Fréttir af framkvæmdum við umrætt álver koma í sömu viku og ákvörðun Seðlabankans um að lækka ekki stýrivexti og sömu daga heyrum við af því að verðbólgan er enn að sækja sig. Það eru engin sólarmerki um að stjórnarflokkarnir geti náð samstöðu um aðgerðir í efnahagsmálum. Þeir ná reyndar heldur ekki samstöðu um losunarkvóta fyrir stóriðju sem er alger forsenda þess að hér sé hægt að ráðast í verkefni eins og Helguvíkurálverið og þaðan af síður ná þeir samstöðu um það í hvaða forgangsröð álver skuli rísa í landinu, hvort sé fyrst Bakki eða Húsavík.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala út og suður um forgangsröðun álvera og einnig um það hvort byggja megi nokkurt álver á kjörtímabilinu. Framsóknarflokkurinn hefur skýra afstöðu í þessu þar sem við leggjum áherslu á Bakka vegna byggðasjónarmiða en útilokum hvorki Helguvík né Þorlákshöfn í framtíðinni. Sú afstaða er ekki tekin til að ganga í augu kjósenda eins og fjármálaráðherra reynir nú að gera með fagurgala heldur til að sýna ábyrgð og festu. Við hringlanda stjórnarflokkanna er líklegast að öll þessi verk tefjist. Ef ekki næst að koma böndum á efnahagslegan óstöðugleika eru aðstæður stórfyrirtækjanna til uppbyggingar hinar verstu og hagur almennings af því að ráðist sé í stórverkefni enginn. Allt eru þetta heimatilbúnar aðstæður sitjandi sundurlyndisstjórnar.
Stjórnleysi hamlar uppbyggingu!
Í ljósi alls þessa er það merkilegt að Böðvar Jónsson sem titlar sig bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ skuli kasta steinum að Framsóknarflokki og forystu hans fyrir ábyrga afstöðu til stóriðjuframkvæmda. Það vill nefnilega til að umræddur bæjarfulltrúi hefur að aðalatvinnu að vera aðstoðarmaður fjármálaráðherra og ber sem slíkur mikla ábyrgð á þeim aðstæðum hagkerfisins sem nú standa í vegi fyrir stóriðjuuppbyggingu.
Vitaskuld geta þeir Böðvar og Árni varið tíma sínum í að taka skóflustungu að nýju álveri en væru verkinu samt þarfari með því að reyna að ná lendingu um það innan eigin stjórnar. Meðan svo línulagnir eru allar í óvissu og orkuöflun sömuleiðis má velta fyrir sér hvaða tilgangi skóflustunga við þessar aðstæður þjónar.
Stjórnarflokkarnir hafa ástundað þann ljóta leik allt frá hausti að tala hér upp atvinnuleysi og réttlæta með því að spenna upp fjárlög og nú síðast að setja í gang margfalda stóriðjuvæðingu. Það rétta er að íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir alvarlegum vandamálum verðbólgu, hárra vaxta og gengislækkunar. Á sama tíma ríður yfir alþjóðleg kreppa á hlutafjármörkuðum og er svo sannarlega komin að bæjardyrum hér heima. Atvinnuleysis er samt fráleitt farið að gæta og ekkert víst að það sé í kortunum. Því er alls ekkert sem bendir til að réttu viðbrögðin við þessum aðstæðum sé stóriðjuinnspýting. Þvert á móti getur slíkt flan aukið á vandann.
Bjarni Harðarson alþingismaður og bóksali
En það er rangt að Framsóknarflokkurinn leggist gegn umræddu álveri. Við teljum þetta brýna framkvæmd þegar þær aðstæður hafa skapast í efnahagslífi landsmanna að mögulegt sé að ráðast til framkvæmda. Við teljum okkur skylt að reka ábyrga stefnu í stjórnarandstöðunni og tölum ekki á sama tíma fyrir tveimur nýjum álverum og því að ná verði tökum á verðbólgu og ofurvöxtum. Það er nóg að stjórnarflokkarnir séu ábyrgðarlausir um stjórn efnahagsmála þó svo að stjórnarandstaðan sé ekki öll sama marki brennd.
Hvað vill ríkisstjórnin?
Fréttir af framkvæmdum við umrætt álver koma í sömu viku og ákvörðun Seðlabankans um að lækka ekki stýrivexti og sömu daga heyrum við af því að verðbólgan er enn að sækja sig. Það eru engin sólarmerki um að stjórnarflokkarnir geti náð samstöðu um aðgerðir í efnahagsmálum. Þeir ná reyndar heldur ekki samstöðu um losunarkvóta fyrir stóriðju sem er alger forsenda þess að hér sé hægt að ráðast í verkefni eins og Helguvíkurálverið og þaðan af síður ná þeir samstöðu um það í hvaða forgangsröð álver skuli rísa í landinu, hvort sé fyrst Bakki eða Húsavík.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala út og suður um forgangsröðun álvera og einnig um það hvort byggja megi nokkurt álver á kjörtímabilinu. Framsóknarflokkurinn hefur skýra afstöðu í þessu þar sem við leggjum áherslu á Bakka vegna byggðasjónarmiða en útilokum hvorki Helguvík né Þorlákshöfn í framtíðinni. Sú afstaða er ekki tekin til að ganga í augu kjósenda eins og fjármálaráðherra reynir nú að gera með fagurgala heldur til að sýna ábyrgð og festu. Við hringlanda stjórnarflokkanna er líklegast að öll þessi verk tefjist. Ef ekki næst að koma böndum á efnahagslegan óstöðugleika eru aðstæður stórfyrirtækjanna til uppbyggingar hinar verstu og hagur almennings af því að ráðist sé í stórverkefni enginn. Allt eru þetta heimatilbúnar aðstæður sitjandi sundurlyndisstjórnar.
Stjórnleysi hamlar uppbyggingu!
Í ljósi alls þessa er það merkilegt að Böðvar Jónsson sem titlar sig bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ skuli kasta steinum að Framsóknarflokki og forystu hans fyrir ábyrga afstöðu til stóriðjuframkvæmda. Það vill nefnilega til að umræddur bæjarfulltrúi hefur að aðalatvinnu að vera aðstoðarmaður fjármálaráðherra og ber sem slíkur mikla ábyrgð á þeim aðstæðum hagkerfisins sem nú standa í vegi fyrir stóriðjuuppbyggingu.
Vitaskuld geta þeir Böðvar og Árni varið tíma sínum í að taka skóflustungu að nýju álveri en væru verkinu samt þarfari með því að reyna að ná lendingu um það innan eigin stjórnar. Meðan svo línulagnir eru allar í óvissu og orkuöflun sömuleiðis má velta fyrir sér hvaða tilgangi skóflustunga við þessar aðstæður þjónar.
Stjórnarflokkarnir hafa ástundað þann ljóta leik allt frá hausti að tala hér upp atvinnuleysi og réttlæta með því að spenna upp fjárlög og nú síðast að setja í gang margfalda stóriðjuvæðingu. Það rétta er að íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir alvarlegum vandamálum verðbólgu, hárra vaxta og gengislækkunar. Á sama tíma ríður yfir alþjóðleg kreppa á hlutafjármörkuðum og er svo sannarlega komin að bæjardyrum hér heima. Atvinnuleysis er samt fráleitt farið að gæta og ekkert víst að það sé í kortunum. Því er alls ekkert sem bendir til að réttu viðbrögðin við þessum aðstæðum sé stóriðjuinnspýting. Þvert á móti getur slíkt flan aukið á vandann.
Bjarni Harðarson alþingismaður og bóksali