Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Aðstoð við Suðurnes
Þriðjudagur 18. janúar 2011 kl. 09:46

Aðstoð við Suðurnes

Ég var mjög hugsi yfir málflutningi Víkurfrétta þegar ég las fréttir af fundi sem haldinn var í Duus húsum á föstudaginn til að fara yfir þær aðgerðir sem ríkistjórnin er að fara í til að efla atvinnu-, velferðar- og menntamál á Suðurnesjum.

Í fréttinni kemur fram að Suðurnesjamenn hafi verið mjög óánægðir með fundinn og sérstaklega þá staðreynd að ekki er hafin hagkvæmnisathugun á flutningi landhelgisgæslunnar sem á að vera lokið 1. febrúar.

Ég sat þennan fund og mér finnst þetta vægast sagt áróðurskenndur fréttaflutningur af fundinum. Margir fundarmenn létu í ljós ánægju sína, fögnuðu ýmsum verkefnum og athugunum sem nú þegar hafa verið komið í framkvæmd.
Á fundinum kom fram að:


Búið að breyta lögum til að liðka fyrir uppbyggingu gagnavers

Búið að hreinsa húsið sem ætlað er herminjasafni (kaldastríðssafni) og ræða við aðila um að koma að verkefninu.

Búið að kynna erlendum aðilum möguleika í heilsutengdri ferðaþjónustu í samstarfi við fjárfestingastofu.

Búið að skipa starfshóp um atvinnumál sem hefur fundað í með hagsmunaaðilum og skilaði af sér framvinduskýrslu á fundinum, lokaskýrsla verður tilbúin 1. mars.

Búið að koma í ítarlega skoðun stóru ylræktarverkefni (tómataframleiðsla) og erlendir aðilar hafa sýnt verkefninu áhuga.

Búið er að móta klasasamstarf á sviði líforku með aðkomu nýsköpunarmiðstöðvar.

Búið að stofna umboðsmann skuldara á suðurnesjum og ráða tvo lögfræðinga.

Búið að ráða Lovísu Lilendal sem verkefnastjóra í velferðamálum.

Búið að setja af stað athugun á nauðungasölum hjá sýslumanninum í Keflavík.

Búið að leggja drög af einum til þremur störfum í mennta- og menningarmálum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Ennfremur var rætt um að efla Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum þannig að landshlutasamtökin geti beitt sér fyrir svæðið í meira mæli en verið hefur. Í því samhengi var rætt um hugsanlega markaðsskrifstofu og þekkingarsetur Suðurnesja.

Mér sýnist að fréttamenn Víkurfrétta hafi heldur betur dregið lappirnar við heimildaöflun sína í þessu tiltekna máli og ekki nóg með það heldur hefur farist fyrir að geta heimildamanna blaðsins því mér vitanlega var enginn blaðamaður Víkurfrétta var á staðnum (allir fundarmenn kynntu sig í upphafi fundar).

Hvernig væri ef Suðurnesjamenn stæðu nú saman um að gera sem mest úr þeim aðgerðum sem á að fara í á Suðurnesjum. Ekki fyrir okkur stjórnmálamennina heldur til að bæta lífskjör fyrir alla íbúa Suðurnesja.

Inga Sigrún Atladóttir
Forseti bæjarstjórnar í Sv.Vogum