Aðgerðaráætlun um fjölgun leikskólaplássa
Stefna Reykjanesbæjar er að stuðla að barnvænu sveitarfélagi. Allar áherslur okkar í bæjarstjórn undanfarin átta ár hafa snúið að því.
Mikil fjölgun barna hefur verið í Reykjanesbæ sem sést best á því að árgangurinn 2020 telur um 300 börn sem er einn stærsti árgangur í sögu bæjarins. Eins skemmtilegt og það er, fylgir því ábyrgð að byggja upp leikskóla og skóla og forgangsraða þarf fjármunum í þau verkefni.
Samfylkingin og óháðir ásamt Framsókn og Beinni leið settu sér það markmið við myndun meirihluta í bæjarstjórn árið 2018 að reyna að koma 18 mánaða börnum á leikskóla. Þetta markmið tókst í nokkrum leikskólum en ekki öllum á kjörtímabilinu.
Ástæðan er aðallega mikil fjölgun barna undanfarin ár, fylgifiskur mikillar fjölgunar í bænum okkar sem nú er orðinn 4. stærsta sveitarfélag landsins.
300 ný leikskólapláss
En við skemmtilegum áskorunum þarf að bregðast við og Samfylkingin og óháðir munu leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu á tæplega 300 leikskólaplássum á næstu tveimur árum.
- Leikskólinn Holt mun stækka um 36 pláss.
- Byggður verður nýr leikskóli í Hlíðarhverfi sem rúmar 120 börn.
- Nýr leikskóli mun rísa í Dalshverfi III sem rúmar 120 börn.
- Við Stapaskóla mun rísa leikskóli sem rúmar 120 börn. Nú þegar hefur verið brugðist við með færanlegum kennslustofum sem rúma 85 börn.
Til að brúa bilið og koma til móts við foreldra ungra barna meðan beðið er eftir fleiri leikskólaplássum var tekin ákvörðun í bæjarstjórn um að Reykjanesbær niðurgreiðir foreldrum gjald sem greitt er til dagforeldra ef barnið er orðið 18 mánaða eða eldra og hefur ekki fengið leikskólapláss.
Það er ákveðinn skortur af dagforeldrum og hvetjum við áhugasama um að prófa þetta frábæra starf og sinna þörfinni sem er á þessari þjónustu.
Framtíðin er heldur betur björt með börnunum og uppbyggingunni í Reykjanesbæ.
Guðný Birna Guðmundsdóttir,
bæjarfulltrúi sæti á S-lista Samfylkingarinnar og óháðra.