Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum
Sunnudagur 20. júní 2021 kl. 08:49

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum

Það var vissulega ánægjulegt þegar tilkynnt var í vikunni um að til stæði að opna nýja heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík í árslok 2024. Íbúum í Reykjanesbæ hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og því full þörf á því að bregðast við þeirri þróun til þess að tryggja aðgengi íbúa að heilsugæslu með þessum hætti.

Á undanförnum árum hefur þróunin í heilbrigðiskerfinu verið sú að sértæk þjónusta lækna er meira og minna aðgengileg á höfuðborgarsvæðinu. Að mörgu leyti er þetta eðlilegt af ákveðnum öryggissjónarmiðum en þó verður ætíð að gæta þess að sú þróun komi ekki niður á þjónustu heilsugæslunnar á landsbyggðinni. Það er til lítils að tala um eflingu landsbyggðarinnar þannig að þar verði eftirsóknarvert að búa, ef ekki er hugað að grunnþjónustu við íbúa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áhyggjur af heilbrigðisþjónustu hafa ítrekað komið fram í samtali mínu við íbúa á Suðurlandi að undanförnu og þá sérstaklega á Suðurnesjum. Í Suðurnesjabæ er uppi ótrúleg staða þar sem engin heilsugæslustöð er í sveitarfélaginu þrátt fyrir að þar búi tæplega fjögur þúsund íbúar. Slíkt hlýtur að teljast óviðunandi fyrir íbúana sem hafa hvorki aðgang að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð né skráðan heimilislækni. Bið eftir tíma hjá lækni getur því tekið nokkra daga, jafnvel vikur.

Í Vestmannaeyjum hefur bæjarráð og bæjarstjórn í mörg ár háð baráttu um að halda því þjónustustigi sem er til staðar á heilsugæslunni. Í sumum tilvikum hefur sú hagsmunabarátta borið árangur en þó alls ekki alltaf. Þá er ekki hægt að skella skuldinni á stofnunina sem veitir þjónustuna heldur miklu fremur þungt, óskilvirkt og oft á tíðum fjársvelt heilbrigðiskerfi.

Heilbrigðismál, og þá sérstaklega aðgangur að heilsugæslu, eiga að vera kosningamál í haust. Við verðum að tryggja aðgengi íbúa á landsbyggðinni að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Það er full þörf á því að taka til hendinni í þeim efnum.

Njáll Ragnarsson.

Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs í Vestmannaeyjum og gefur kost á sér í 3.–4. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins þann 19. júní nk.