Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Aðför ríkisstjórnarinnar að Suðurkjördæmi?
Sunnudagur 7. febrúar 2010 kl. 13:36

Aðför ríkisstjórnarinnar að Suðurkjördæmi?

eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Fyrir ári tók ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs við stjórnartaumunum í landsmálunum. Flokkarnir gerðu með sér stjórnarsáttmála þar sem í fyrstu efnisgrein er kveðið á um að þessi ríkisstjórn ætli að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og leita þjóðarsamstöðu um leið Íslands til endurreisnar. Sannarlega metnaðarfullt hjá fyrstu hreinu vinstri stjórninni.


Eitthvað virðist þetta þó almennt hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá ríkisstjórninni, ekki síst hér í Suðurkjördæmi, þar sem ráðherrum ríkisstjórnarinnar virðist umhugað um að leggja hvern þann stein í götu atvinnulífs og uppbyggingar, sem þeir geta komið höndum yfir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Allir sem í okkar góða kjördæmi búa vita að það er gjöfult og að það byggir harðduglegt fólk sem er staðráðið í að gera sem mest úr þeim tækifærum sem hér er að finna. Þetta er framúrskarandi landbúnaðarkjördæmi, með afbragðs fiskimið, gróskumikinn iðnað og gnægð orku- og náttúruauðlinda, fyrir utan allan mannauðinn sem stendur fyrir margvíslegri þjónustu, allt frá heilbrigðisstarfsemi til ferðaþjónustu.


En Suðurkjördæmi á sér ekki málsvara í þessari ríkisstjórn. Þvert á móti virðist sem gefið hafi verið skotleyfi á þetta landssvæði af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og verk hennar – eða verkleysi – sýnir.


Síðast í þessari viku synjaði umhverfisráðherra skipulagsbreytingum staðfestingar sem snúa að virkjunum í neðri Þjórsá. Þátttaka Landsvirkjunar í kostnaði sveitarfélaga við skipulagsvinnu á að hafa stangast á við skipulags- og byggingarlög. Reyndar er ekki stafkrók að finna um bann við slíkri kostnaðarþátttöku, hvorki í þessum lögum né greinargerð með þeim, en það kemur ekki í veg fyrir að umhverfisráðherra noti þessa tylliástæðu til að koma í veg fyrir að orkan á svæðinu verði nýtt. Þetta hefur samstundis í för með sér að viðræðum Landsvirkjunar við áhugasama kaupendur orkunnar er hætt, a.m.k. í bili, og ötul áralöng barátta sveitarfélaga eins og Ölfuss fyrir margvíslegri orkufrekri starfsemi eins og ylræktarveri, áliðnaði, stálbræðslu, sólarkísilframleiðslu og heilsurækt gæti verið unnin fyrir gíg.


Í haust var það Suðvesturlína sem ekki mátti leggja og tafir urðu vegna þess við framkvæmdir í Helguvík. Hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar varðandi fjárfestingarsamning hefur orðið til þess að gagnaver í Reykjanesbæ er komið í hægagang. Niðurskurði í heilbrigðiskerfinu er beitt á HSS, með uppsögnum, skerðingu á grunnþjónustu og lokunum skurðstofa. Læknaráð HSS gagnrýnir aðgerðirnar og í ályktun þeirra kemur fram að í mörg ár hafi framlög til heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum verið hin lægstu á landinu. Og nú á að skera enn frekar niður, á svæði þar sem 22 000 manns hafa lengi búið við skerta þjónustu. Svipað vofir því miður yfir öðrum sjúkrastofnunum í kjördæminu eins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum.


Fyrirhugaðri aðför ríkisstjórnarinnar að sjávarútveginum í Suðurkjördæmi sem og annars staðar má heldur ekki gleyma; fyrning aflaheimilda er á óskalista stjórnarinnar, sem virðist telja þessa ögurstund í lífi þjóðarinnar tilvalda til þess að vega að undirstöðum atvinnulífsins. Þvílík fjarstæða.


Er von að menn spyrji hvort ríkisstjórnin hafi það hreinlega sem sérstakt markmið að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu í Suðurkjördæmi? Er von að menn séu hreinlega farnir að óttast afleiðingar verka hennar? Suðurkjördæmi er betur komið án þessa svokallaða efnahagslega og félagslega stöðugleika ríkisstjórnarinnar, ef þetta er birtingarmynd hans.


Má ég þá frekar biðja um frið fyrir þessari stjórn.


Ragnheiður Elín Árnadóttir

oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi