Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Aðför að lýðræðinu! - Aðgerðir fyrir Garðinn og framtíðina?
Fimmtudagur 16. júní 2011 kl. 23:38

Aðför að lýðræðinu! - Aðgerðir fyrir Garðinn og framtíðina?

Eitthvað mikið er að í Sveitarfélaginu Garði, þegar meirihluti bæjarstjórnar á bæjarstjórnarfundi þann 8. júní s.l. ákveða einhliða að sameina Gerðaskóla og Tónlistarskólann í Garði og segja þar með upp báðum skólastjórnendum frá og með 1. júlí n.k. Svona gera menn ekki!

Á sama fundi varð minnihlutanum ljós alvarleiki málsins, án kynningar eða umræðu af neinu tagi. Er þetta lýðræðislegt og eru vinnubrögðin til fyrirmyndar?

Starfsfólk Gerðaskóla, Tónlistarskólans í Garði og margir íbúar sveitarfélagsins eru í losti yfir valdníðslu bæjarstjórnarmeirihlutans. Þetta er aðför að skólunum og stjórnendum þeirra, í raun lítilmannlegt af hálfu meirihlutans í Garði. Ekki hefur verið gerð grein fyrir hagræðingu þessari á nokkurn hátt, hvorki á bæjarstjórnarfundi né í skólanefnd, engin gögn liggja til grundvallar aðförðinni. Ljótt er til þess að vita nú, að sagt var af fulltrúa í skólanefnd á fundi nefndarinnar sem haldinn var um málið þann 14. júní s.l. að undirbúningur hafi staðið yfir frá því í haust en þau ekki viljað láta skólastjóra eða aðra vita fyrr? Hvaða leyndarmál eru í gangi og hvað býr undir?

Fundur með fagaðilum Tónlistarskólans í Garði og Sigrúnar Grendal formanns Félags tónlistarkennara var valinn tími eftir að boðað hafði verið til aukafundar í bæjarstjórn, sem á að vera mánudagsmorguninn 20. júní kl: 8:00. Eru þetta fagleg vinnubrögð?

Með þessari aðgerð er verið að leggja Tónlistarskólann í Garði niður. Meirhlutinn sýnir skólastjórnendum sem og öðrum starfsmönnum skólanna virðingarleysi með þessari ákvarðanatöku. Réttara hefði verið að kalla fólk saman til skrafs og ráðagerða með það að leiðarljósi að í náinni framtíð/eða á næsta ári verði þetta stefna bæjarins. Fá fólk í lið með sér og vinna sameiginlega að faglegu undirbúningsstarfi. Enginn hefur séð nein rök eða greinargerðir um þann faglega e ða hagræna ávinning sem hlýst vegna samrunans. Manni er til efs að þau liggji nokkuð fyrir!

Það eru starfsmenn skólanna beggja sem búa yfir betri sérþekkingu á málefnum skólanna en sveitarstjórnarmenn og ætti því hlutverk þeirra að vera að skapa og leggja þann faglega grunn að ákvörðunartöku svo sveitarstjórnarmenn hafi fullnægjandi yfirsýn til að sjá um framkvæmdina. Ekki hefur verið leitað til starfsmanna vegna tillögunnar.

Athafnir meirihlutans í þessu máli afhjúpar slaka siðferðisvitund þeirra. Þau óska eftir samvinnu skólastjórnenda í tillögu sinni á samrunanum. Ótrúlegt! Eða er þetta kannski ógætilega orðað hjá meirihlutanum, skólastjórnendum hefur verið sagt upp með ákvörðuninni og hætta í dag 16. júní? Samkvæmt tillögunni eru störf þeirra lögð niður frá og með 1. júlí 2011. Furðulegt! Þetta er fyrir Garðinn og framtíðina!

Fram kom breytingartillaga en því miður vill meirihlutinn mistúlka og misnota eins og þeim er einum lagið. Tilgangurinn var að s kapa umræður um málið, vinna tíma og svigrúm til að kanna og meta kosti og galla hagræðingar og þá allra skóla ekki bara Gerðaskóla og Tónlistarskólans í Garði. Gerðaskóli og Gefnarborg eru á ábyrgð bæjarins, ekki tónlistarskólinn þar skilur á milli þó svo bærinn greiði til tónlistarskólans. Við getum ekki úttalað okkur um hluti sem við vitum ekki, til þess þarf að vega og meta, finna leiðir í sátt við samfélagið!

Að sjálfsögðu er rétt að huga að sameiningu þegar aðhalds skal gætt í fjármálum, huga að segi ég, það er ekki það sama og að ganga til verksins með einvaldi!

Undirrituð undrast einnig mjög tímasetningu þessa og þann asa sem liggur á bæjarfulltrúum meirihlutans að þröngva og þvinga þessari áætlan í framkvæmd og þar með aðför að báðum skólastjórnendum og starfsmönnum skólanna. Harma ég þennan æðibunugang því í lýðræðislegum samfélögum eiga ekki að viðhafast svona vinnubrögð!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þörf er á opinberri almennri umræðu því hún er það afl sem fyrst og f remst gerir pólitíska ábyrgð virka. Bæjarstjórnin er æðsta stjórnvald sveitarfélagsins og ber ábyrgð á öllu sem gerist innan stjórnkerfisins. Vel skal vanda til þess sem lengi skal standa.


Með kveðju
Jónína Holm
bæjarfulltrúi N listans í Garði