Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 22. apríl 2002 kl. 13:22

Að vinna með traustu fólki !

Kæru Sandgerðingar. Að mjög vel athuguðu máli tók ég ákvörðun um að þyggja boð um að skipa 5. sæti K-listans í Sandgerði. Ástæða þess að ég tók þessa ákvörðun er sú að með því fæ ég tækifæri til að vinna með traustu og reyndu fólki sem hefur sýnt í verki getu sína til að stjórna bænum okkar af miklum dugnaði og ábyrgð.Ég tel mjög nauðsynlegt fyrir okkur Sandgerðinga að Jóhanna Norðfjörð nái kjöri til bæjarstjórnar en hún hefur unnið mjög vel fyrir okkur bæjarbúa á þessu kjörtímabili.
Með því að Jóhanna nái kjöri, verð ég fyrsti varamaður í bæjarstjórn og tek þá fullan þátt í allri umfjöllun og ákvarðanatöku um þau mál sem eru efst á baugi hverju sinni. Einnig tel ég að þetta gefi mér tækifæri til að vinna með góðum árangri að málefnum yngra fólks hér í bænum og öðrum þeim málum sem mér eru hugleikin.

Ég er ný í þessum hópi og er nú að takast á við ný verkefni og er fullviss um að ég er mjög vel fær um það. Ég hef mikið starfað með fólki, t.d. setið sem varamaður í stjórn Verkalýðsfélagsins, Íþrótta- og tómstundaráði og starfa nú á þriðja ári í stjórn Knattspyrnudeildar Ksf. Reynis. Ég get sagt það með hreinni samvisku að ég læt mig málefni Sandgerðisbæjar miklu skipta og ég vil taka virkan þátt í því að gera bæinn að enn blómlegra bæjarfélagi og þar held ég að við séum á réttri leið.

Ég lít á mig sem fulltrúa unga fólksins og í Sandgerði býr metnaðarfullt ungt fólk og ég veit að bæjarfélagið þarf að taka sig á í því að halda þessu fólki hér. Við þurfum að geta boðið ungu fólki upp á þann valkost að geta byrjað búsetu sína hér. Eins og staðan er í dag er ekki pláss fyrir alla þá sem vilja búa hér. Fólk sem t.d. er í námi annars staðar sér það ekki alltaf sem kost að koma hingað aftur, en hér vantar húsnæði þrátt fyrir að mikið hafi verið byggt.

Skólastarfið er einnig blómstrandi og sífellt fleiri sækja í frekara nám. Ég er mjög ánægð með þann metnað sem er að byggjast upp í skólastarfinu, t.d. hvað varðar góðan útbúnað og ráðningar á hæfu og lærðu starfsfólki. Nú er einnig mikil uppbygging á leikskólanum Sólborg og það er sannfæring mín sami metnaður sé að byggjast upp þar.
Ég hef lengi tekið þátt í starfi unglinga, bæði sem neytandi og sem starfsmaður Skýjaborgar. Ég hef verið starfsmaður Skýjaborgar frá 18 ára aldri og þar hefur mikið og öflugt starf farið fram, sem er í sífelldri þróun til hins betra. Ég verð að lýsa mjög mikilli ánægju með það starf sem þar fer fram.
Í framtíðinni munu börn verða lengur börn og með breyttum sjálfræðisaldri er það undirstrikað. Þá er komið að því að huga að aldrinum 16-18 ára.
Ég held að ég geti fullyrt að fólk sé orðið leitt á Miðhúsarvandamálinu og við losnum ekki við það nema eitthvað annað komi í staðinn, s.s. félagsmiðstöð eða athvarf fyrir umræddan hóp.

Ég vil að Sandgerði sé bær sem laðar að sér fólk og að allir geti búið hér sáttir. Við erum í nálægð við flugvöllinn og höfuðborgarsvæðið, við erum með mjög góða skóla og blómstrandi mannlíf. Þetta eigum við að nýta okkur. Reynum að halda fólkinu hér, laða að nýtt og umfram allt að ná Sandgerðingum til baka sem hafa farið eitthvert annað. Ég veit að þetta er hægt og ég vil gera mitt í því að þetta verði gert.

Kæru Sandgerðingar!
Eins og ég hef áður sagt hugsaði ég mig vel um áður en ég tók ákvörðun um að vera með á framboðslista. Ég er fullviss um að ég tók rétta ákvörðun. Hér er ég með fólki með ákveðnar skoðanir, þekkingu á mismunandi sviðum og umfram allt þá kem ég til með að vinna með fólki sem hefur hvað besta þekkingu á málefnum Sandgerðisbæjar. Hvar annars staðar stæði ég í betri sporum með minn metnað og það að leiðarljósi að ég ætla mér að hafa áhrif á það sem gert verður í Sandgerði, bæjarfélaginu mínu?
Ég tel mig vera á rétta staðnum til að byrja og byrja vel.

Með von um góðan stuðning!

Bergný Jóna Sævarsdóttir
í 5. sæti K - listans í Sandgerði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024