Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 24. febrúar 2003 kl. 10:12

Að vera víti öðrum til varnaðar

Það eru oft furðulegar setningar sem koma upp í samræðum manna á meðal.
Um daginn heyrði ég eina sem svar við spurningu á þá leið hvort eitthvað sem var á döfinni væri æskilegt fyrir börn. „Það er ekki okkar að vernda börnin þín. Það er þitt mál og áhyggjuefni.“ Í þessu svari er gripið til réttlætingar, fyrirbæris sem elt hefur mannkynið í aldanna rás: Einum finnst hann betur settur, ef annar er til viðmiðunar þegar samviskan kallar, eða notað er tækifærið til að varpa ábyrgð gjörða sinna á aðrar herðar. Við vitum öll að börnin eru dýrmætasta eign okkar og þjóðfélagsins og á herðum þeirra hvílir framtíðin. Við sækjum daglega til samfélagsins umhyggju annarra hvort heldur er fyrir venslafólk okkar, okkur sjálf eða börnin. Við gerum kröfur og við þeim er orðið t.d. að móðir okkar eða faðir sem dvelur á sjúkrahúsi fái alla þá þjónustu og velvild sem kostur er á og hvergi sé til sparað, að kennarinn sýni barninu okkar þolinmæði og skilningur hans og menntun glæði huga þess vægi samhygðar og góðra gilda.
Ofanrituð setning er af sama meiði og „Á ég að gæta bróður míns?“ Það er vissulega foreldranna að ala upp og vernda börnin sín og okkar að gæta að högum meðbræðra okkar af sama mætti og við viljum að þeir geri í okkar aðstæðum. Þannig búum við til samfélag.

Í viðtalsþætti var verið að ræða um að þyngja ætti dóma við ákveðnum afbrotum innan flokka refsilaganna. Ef ég skyldi umræðuna rétt var sú aðgerð, lagabreytingin, hugsuð sem skilaboð til dómara og þeir dómar sem kæmu í kjölfarið ættu að vera mun þyngri, öðrum víti til varnaðar: Að viðkomandi hugsaði sig tvisvar um áður en hann hygði á afbrot. Þessi hugmynd virtist í fyrstu sýn ákaflega réttmæt en við nánari skoðun kom ýmislegt í ljós.
Í fyrsta lagi hef ég alltaf litið svo á lagabálkar t.d. refsilöggjöfin innihéldi ákveðna heildarhugsun og hver hreyfing á lagagreinum, breytingar á t.d. refsihæð gætu skekkt innbyrðis vægi laganna. Þessu mætti líkja við úrverk, klukku, ef eitt tannhjól væri tekið og annað stærra eða minna sett í þess stað fengjum við ranga tímamælingu.
Í öðru lagi vitum við að það er staðreynd að við byggjum ekki upp mannvirðingu, siðferði og skilning góðs og ills í einstaklingnum með lögum einum saman né spornum gegn afbrotum með því að hækka refsidóma. Það gerum við með góðu uppeldi, sæmandi umhverfi sem allir reyna að skapa, kærleika, góðri fyrirmynd og höfum það sem sannara er í skoðunum okkar. Sæmandi umhverfi má ekki innihalda villandi umræður, ósóma á netinu, kvikmyndir og tölvuleiki yfirfulla af ofbeldi og mannfyrirlitningu. Þá er hætt við að erfiðara gangi fyrir barnið eða unglinginn að feta sig áfram í lífinu. Til þess að átta sig betur á þessari setningu um þyngingu dóma þarf að setja upp dæmi og besta leiðin til að fá glögga yfirsýn yfir aðstæður annarra er að setja sjálfan sig í þær aðstæður. Sem viðmiðun á frelsissviptingu skulum við hafa í huga setningu manns sem reynt hafði sitthvað í lífinu: „Frekar vildi ég vera rúmliggjandi í heila viku en að þurfa að dúsa einn dag í fangelsi.“

Dæmið gæti verið að sporna ætti gegn búðarhnupli. Löggjafinn setti lög, breytti refsihæð úr nokkrum mánuðum í 5 ára fangelsi, óskilorðsbundið. Sakamaðurinn sæti við hlið hinna sem hefðu framið sama afbrot, en fyrir lagabreytinguna. Hjá þeim væru nokkrir dagar eftir af frelsissviptingunni á meðan hann burðaðist með 5 árin á bakinu. Vissulega væri hann víti öðrum til varnaðar en hér koma fleiri sjónarmið t.d. felur ekki setningin í sér að harðara væri dæmt en viðkomandi ætti skilið? Er brotamaðurinn þá ekki saklaus af þeim hluta sem ætlaður væri öðrum til varnaðar? Við viljum öll réttlæti og sérstaklega okkur til handa. Þetta heitir mannlegt. Ég held samt að við gætum sæst á að: Dómar eigi að vera boðberar viskunnar, bæði í huga og hjarta, hvorki of mildir né of harðir og umfram allt kveðnir upp af réttsýni.

Konráð K. Björgólfsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024