Að vera vargur í véum

Hver yrðu viðbrögð þín ef þú lesandi góður hefðir verið plottaður, af glæframönnum, til að leggja fjármuni í t.d. húsnæði og vélbúnað, sem átti að skapa þér auknar tekjur?  Glæframennirnir voru vargar í véum. Diktuðu mjög byltingarkennda hugmynd um að með því að blanda saman mörgum orkugjöfum og setja í vélbúnaðinn, þá væri hægt að framleiða einstakt efni, sem sæi heimilum fyrir allri orkuþörf á óvenju ódýran máta. Tilfinningin væri eins og að fólk væri í aldingarðinum Eden þegar það dveldi inni á heimilum sínum. Engin mengun hlytist af. Þetta væri sérstök formúla, sem fullnýtti alla orku í umræddum orkugjöfum, svona eins og sólin gerir í sólkerfinu.

Þeir diktuðu sérstaklega góða skýrslu (nefndu hana „Matsáætlun“), sem þeir voru búnir að fá samþykki fyrir hjá öllum nauðsynlegum stofnunum ríkis og bæjar. Allt væri pottþétt en það vantaði nokkrar milljónir uppá að geta komið þessu á koppinn. Með því að taka af bankabókinni þinni og leggja til megnið af séreigna sparnaðinum þínum í púkkið væri málið komið í höfn.  Þú lést glepjast, enda sannfæringarkraftur glæframannanna ótrúlega mikill. Excel skjalið sýndi að gróðinn var margfalt meiri en bankabókin gaf og þarna væri sko komið „búst“ sem um munaði í ávöxtun séreignasparnaðarins.

Þegar til kastanna kom stóð ekki steinn yfir steini. Fnykur af kolaryki og sót frá viðarkurli fóru með loftgæðin til kolabrennslu aldar. Eitur sem hvergi var minnst á fór að valda óþægindum á heimilum. Loks sagði eftirlitskerfið stopp. Glæframennirnir sögðu að það þyrfti að stilla búnaðinn betur og þó þeir fengju tækifæri til þess þá lagaðist ekkert. Að lokum var útséð að verkefnið var tómt plott og heilbrigðisyfirvöld skipuðu lokun.

Glæframennirnir voru fljótir að stökkva frá borði. Mjólkuðu alla fjármuni sem þeir gátu úr verkefninu og settu það síðan í þrot. Í von um að húsnæðið og vélbúnaðurinn væri einhvers virði ert þú lesandi góður kominn með herlegheitin í fangið og veltir fyrir þér hvort ærlegt sé að halda áfram með plottið. Láta fnykinn, sótið og eitrið fara endanlega með loftgæðin í bænum þínum til kolabrennslu aldar.  

Því miður eru fyrirhuguð áform Stakksbergs ehf „óærleg“ og á engan hátt öðruvísi en fyrra plott.  

Nú er það Arion banki sem ætlar að vera vargur í véum.

Reykjanesbæ 31 des. 2018.

Tómas Láruson