Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að vera meistara-foreldri...
Miðvikudagur 9. október 2013 kl. 09:24

Að vera meistara-foreldri...

Reykjanesbær er fjölskyldubær og  hefur sett sér metnaðarfulla fjölskyldustefnu sem unnið er markvisst eftir.  Eitt af lykilhlutverkum að styðja við börn og barnafjölskyldur í sveitarfélaginu og hlúa þannig að þeirri einingu sem hornsteini samfélagsins. Til þess eru farnar ólíkar leiðir en forvarnir gegna þar mikilvægu hlutverki. Að þróa ný úrræði sem styðja  við foreldra í uppeldishlutverki sínu og styrkja uppvaxtarskilyrði barna eru mikilvæg skref í þá átt.  Námskeiðið “Að verða foreldri” hefur verið hluti af forvarnarstefnu bæjarins frá árinu 2008 og miðar m.a. að því að  efla færni foreldra í þessu veigamikla verkefni, veita foreldrum verkfæri til að þekkja og virða tilfinningar barna, fyrirbyggja að álag og ágreiningur verði þeim ofraun og veita upplýsingar um hvert hægt er að leita eftir stuðningi ef þörf krefur.

Tilkoma barns er gleðigjafi í hverri fjölskyldu. Það sem nýbakaðir foreldrar gera sér ekki almennt grein fyrir eru þær breytingar sem verða í parsambandinu við það að verða foreldrar. Foreldrahlutverkið reynir á parsambandið og samskiptin innan þess og það er ekki þannig að það að verða foreldri sé bara eitthvað sem við eigum að kunna.

Ákveðna þætti foreldrahlutverksins höfum við lært í uppvextinum,  í því umhverfi sem við erum alin upp við,  en aðra fræðslu þurfum við að nálgast eftir öðrum leiðum. Að sækja námskeiðið “Að verða foreldri” er ein leið til að efla foreldrafærni sína. Námskeiðið er ætlað verðandi foreldrum og foreldrum barna allt að 3ja ára aldri. Bæði kynin lýsa yfir mikilli ánægju með námskeiðið og telja það opna á margt sem þau höfðu ekki hugsað út í áður varðandi foreldrahlutverkið.

Jafnréttisráð hefur fagnað þeirri hugmyndafræði um virka þátttöku beggja foreldra í umönnun barnsins sem unnið er út frá á námskeiðinu. Fræðsla sem þessi er mikilvægur liður til að auka meðvitund og stuðla að jafnrétti kynjanna og stuðla að því  að þátttakendur verði hæfari til að takast á við kröfur um samþættingu fjölskyldulífs og vinnumarkaðar.

Námskeiðið er nú haldið af Rannsóknarstofnun í barna og fjölskylduvernd (RBF) fyrir Reykjanesbæ og verður haldið í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju
2. og 3.nóvember frá kl. 10.00 – 16.30 báða dagana.

Skráning og nánari upplýsingar hjá  RBF í síma 525-5200 og [email protected]
Ungabörn undir 6 mánaða eru velkomin með foreldrum sínum.

Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024