Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Að vera besta útgáfan af sjálfum sér?
Miðvikudagur 28. janúar 2015 kl. 10:03

Að vera besta útgáfan af sjálfum sér?

Páll Valur Björnsson skrifar.

Kæra Suðurnesjafólk, ég óska ykkur öllum gleðilegs og farsæls komandi árs. Hver áramót færa okkur nýjar áskoranir og ný tækifæri og  þeim tímamótum endurskoðar maður oft ýmsar  ályktanir sem maður hefur áður dregið og reynir að skerpa þær áherslur sem maður telur bestar fyrir sjálfan sig, fjölskyldu sína og vinnustaðinn sinn. Um áramót gerum við  mörg áætlanir sem miða að því að bæta okkur og lofum sjáflum okkur því að verða nú besta útgáfan af sjálfum okkur.  

Það góða samfélag sem við lifum í er okkur í Bjartri framtíð afar hugleikið og ekki síst, hvernig getum við gert það enn þá betra. Við viljum vera virkir og uppbyggilegir þátttakendur í því og leggja okkar af mörkum við að byggja hér upp lifandi efnahags- og velferðarkerfi sem býr við heilbrigt samkeppnisumhverfi sem hvetur fjárfesta og frumkvöðla til framtaks, athafna og fjárfestinga. Ef okkur tekst vel til við þetta munu skapast hér ótal tækifæri á ýmsum sviðum; tækifæri sem munu gera okkur öllum kleift að fá störf  sem henta okkar margvíslegu hæfileikum og áhugamálum. 

Public deli
Public deli

Þessi tækifæri til að taka þátt og njóta hæfileika sinna og áhuga viljum við skapa fyrir landsmenn alla, þannig að þeir hafi jöfn tækifæri til að nýta margbreytilega hæfileika sína sjálfum sér og okkur öllum til framdráttar og við leggjum mikla áherslu á að allt þetta sé gert í fullkominni sátt við náttúruna og umhverfið, með sjálfbærni og ábyrgð og langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ef okkur tekst vel til við þetta mun unga fólkið vilja búa og starfa í okkar góða landi en ef við gerum þetta illa eða ekki munu börnin okkar og barnabörn líta til annarra landa eftir tækifærum og margir velja að búa annars staðar.   

Jöfn tækifæri fyrir alla

Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að hér sé og verði gott að lifa og starfa fyrir alla og að allir fái tækifæri til að taka þátt og leggja sitt af mörkum án þess að þurfa að þola mismunun og fordóma. Þetta hefur alltaf verið mikilvægt en þó aldrei sem nú  á þessum tímum fjölmenningar og margbreytileika mannlífsins og allra þeirra frábæru tækifæra sem í því felast. Við þurfum að hafa vit á og kjark til að nýta þau en reisa ekki veggi og óþarfar, gagnslausar hindranir fyrir okkur sjálf og aðra  með fordómum og þröngsýni. Byggjum saman upp samfélag umburðarlyndis, friðar og kærleika því eins og segir í góðri bók þá breiðir kærleikurinn yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt og hann fellur aldrei úr gildi.

Áskoranir

En að byggja hér upp samfélag sem verður besta útgáfan af sjálfu sér er mikil áskorun, áskorun sem krefst kjarks og þátttöku allra þeirra sem þetta samfélag byggja. Þátttöku stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífsins, fræðasamfélagsins, hverkonar samtaka og félaga og ekki síst okkar allra, fólkins sem í landinu býr, ungra og gamalla, kvenna og karla, bæjarbúa og sveitafólks. Til þess að ná sem bestum árangri í þeirri viðleitni okkar að skapa samfélag sem setur framfarir og hag almennings í forgrunn verðum við  að hafa víðsýni og  kjark til að leita allra leiða til að leggja ágreiningsefnin til hliðar. Þau geta auðvitað verið mýmörg ef við viljum svo hafa og þannig hefur okkur allt of oft tekist að hafa það, okkur öllum til ógagns og leiðinda . Það krefst hugrekkis að breyta því. Við eigum ekki að  horfa fyrst og mest á það sem skilur okkur að, okkur greinir á um og  sundrar okkur heldur eigum við að horfa fyrst og fremst á það sem við eigum sameiginlegt og hvernig við getum eflt og styrkt það sem sameinar okkur. Þannig náum við árangri. Með sundurlyndi stöðnum við og drögumst aftur úr.

Leiðarljós til framtíðar

Kæru lesendur ef við setjum okkur þetta leiðarljós til framtíðar og erum samhuga og einlæg í því þá óttast ég alls ekki það sem framtíðin ber í skauti sér  Ekki fyrir mig eða börnin mína eða aðra þá sem búa í okkar góða landi. því þegar að öllu er á botninn hvolft þá er það þetta sem farsælt samfélag snýst um og við höfum alls enga afsökun fyrir að skapa ekki þannig samfélag fyrir okkur öll hér í þessu landi. Aðstæðurnar til þess og tækfærin eru öll þarna ef við bara nýtum þau en  klúðrum þeim ekki með sundurlyndi, eigingirni og þröngsýni.

Páll Valur Björnsson

Þingmaður Bjartrar framtíðar