Að þora að segja það sem segja þarf!
Ég er ánægður með að nýleg skrif mín í Morgunblaðið og Víkurfréttir um hvað þurfi til að atvinnuverkefni á Suðurnesjum komist á fullt skrið, hafa hreyft við mörgum. Skrif mín eru knúin áfram af þeim veruleika sem við búum við, gríðarleg tækifæri en fólk án atvinnu, vonin að bresta, uppgjöf svo margra. Ég lít á það sem skyldu mína halda áfram að berjast fyrir þessum verkefnum og knýja á stjórnvöld að styðja verkefnin í stað þess að sitja á þeim eða deila um þau. Sumir pólitískir andstæðingar velja að ráðast að orðum mínum með skítadreifara og fjalla um eitthvað allt annað en greinin fjallaði um. Í greininni var ég að fjalla um nauðsynlegar aðgerðir í atvinnumálum, ekki um annað.
Það er ekki hægt að saka okkur í Reykjanesbæ um skort á biðlund gagnvart uppbyggingu hinna ýmsu atvinnuverkefna hér í bæ. Við mættum í Víkingaheima með ríkisstjórninni 9.nóvember 2010 þar sem mylsnu af borðum ráðuneyta var pakkað í sellófan og við þáðum með virktum. Úr þeim viðræðum hafa skapast 6 störf á Suðurnesjum. Við tókum þessum tillögum vel í von um að við fengjum þá meðbyr með stóru atvinnuverkefnunum, sem ekki voru í gjafapakkanum, en við vonuðum að ráðherrar létu af andstöðu við þau í máli og gerðum. Þau mál voru m.a. ECA flugverkefnið, virkjanaleyfi, einkasjúkrahús og álver svo það helsta sé nefnt. Okkur varð ekki að ósk okkar.
Samfylkingarmenn í Reykjanesbæ ættu að standa með okkur í gagnrýninni því þeir þekkja sjálfir hvernig mál eru tafin eða eyðilögð vegna ágreinings í ríkisstjórn sem þeir styðja og bera ábyrgð á. Þeir lögðu t.d. mikla áherslu á að vera í forsvari ECA flugverkefnisins sem tengist viðhaldi herflugvéla til æfinga. Vinstri grænir steindrápu það mál og ekki heyrðist styggðaryrði á prenti eða í ræðum frá Samfylkingarmönnum. Það heyrist reyndar oft í þeim undir vegg, á tveggja eða þriggja manna tali. Þar samsinna þeir því að ríkisstjórnin sé ekkert að hjálpa, en þegar fram á ritvöll eða í ræður kemur, er meira virði að verja þessa ríkisstjórn en standa með heimamönnum. Þetta er einnig einkenni á þeim skrifum sem Friðjón Einarsson, nýr oddviti samfylkingarinnar stendur fyrir. Í stað þess að fylgja eftir af krafti kröfu á ríkisstjórnina um að vinna með okkur, þora a.m.k. að gagnrýna ráðherra vinstri grænna, er megin verkefnið að reyna að koma höggi á okkur heimamenn sem erum í forsvari bæjarins. Af hverju er Kristján Möller þingmaður utan okkar kjördæmis, sá eini í Samfylkingunni sem þorir að segja að ríkisstjórnin sé ekki að standa sig í atvinnuuppbyggingu eða samgöngubótum og krefst aðgerða?
Það er leitt að „svargreinar“ forystumanna minnihlutans í Reykjanesbæ taka á engan hátt undir að ríkisstjórnin þurfi að leggja áherslu á atvinnuleiðina - hvað þá að þær fjalli um lausnir! Ég get fullvissað lesendur um að við sjálfstæðismenn erum á öllum vígstöðvum að hreyfa við verkefnunum og þau þokast áfram þótt alltof hægt gangi.
Ég hlakka til að sjá þá Friðjón Einarsson og Kristinn Þór Jakobsson setja fram í næstu greinum hugmyndir sínar um sköpun þúsunda vel launaðra starfa, afstöðu til þeirra verkefna sem við erum að styðja áfram hér á Reykjanesi og hvernig þeir vilji sjá ríkisstjórnina starfa með okkur. Það væri tilbreyting að koma með lausnir.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri