Að þjóna eigin lund
Hafi Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, verið óviss um viðbrögð minnihlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar vegna Capacent skýrslu um Fasteign hf. þegar hann sigri hrósandi skrifaði grein í síðasta tölublað Tíðinda, ætti hann ekki að velkjast í vafa um það núna eftir að hafa setið síðasta bæjarstjórnarfund þar sem ég lagði fram bókun um það mál. Það er miður að þegar lögð er fram annars ágæt skýrsla um mál sem hefur verið mjög umdeilt skuli einstök atriði hennar dregin fram til þess eins að reyna að skapa sjálfum sér stöðu eins og gert var í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ þann 30. apríl sl.
Vegna þess vil ég tiltaka nokkur atriði sem ég setti fram í bókun en hafa ekki komið fram í umfjöllun þeirra sjálfstæðismanna né heldur fjölmiðla sem virðast margir hverjir vera áhugalitlir um annað en að birta bara auglýsingar og fréttatilkynningar frá ríkjandi öflum.
Eignir seldar á yfirverði
Í skýrslunni er sagt frá því að RNB hafi selt eignirnar til EFF á yfirverði og haft út úr því 858,7 milljónir (bls 4). Þessir fjármunir voru síðan nýttir til að greiða niður hallarekstur sveitarfélagsins á árinu 2003. Þetta hækkaða mat á virði fasteigna gerir það að verkum að RnB er að greiða miklu hærri húsaleigu en annars væri og nam þessi mismunur kr. 136 milljónum á árinu 2009. Ætla má að RnB þurfi að greiða u.þ.b 100 milljónir á ári aukalega í húsleigu allan þann tíma sem RnB verður í EFF vegna þess að sjálfstæðismönnum vantaði skotsilfur á árinu 2003.
Hækkun raunkostnaðar um 80% pr. fermetra?
Í skýrslunni segir að raunkostnaður á hvern fermetra hafi farið hækkandi á föstu verðlagi (bls 3) og að kostnaður á hvern fermetra undir liðnum íþrótta- og æskulýðsmál hafi hækkað um 80%. (bls 16). Þetta sé sú hækkun eftir að leiðrétt hafi verið fyrir verðlagsbreytingum.
Fjármögnun hagstæðari í höndum sveitarfélagsins
Í skýrslunni segir að sennilega komi það betur út fyrir sveitarfélagið að sjá um fjármögnun sjálft ef einungis er horft á vaxtakjör þar sem það ætti undir eðlilegum kringumstæðum að njóta betri vaxtakjara en EFF ( bls. 9).
Nýjar leiðir við rekstur fasteigna?
Á bls 19 og 20 í skýrslunni er bent á aðrar leiðir til reksturs fasteigna og þar er vakin athygli á sameiginlegri ábyrgð á skuldum annara sveitarfélaga með þátttöku í Fasteign hf. Capacent er því ekki að leggja til óbreytt ástand heldur vekur athygli á að til eru aðrar leiðir.
Samanburður við önnur sveitarfélög ófullnægjandi?
Í fréttatilkynningu bæjarstjóra um samanburð milli sveitarfélaga segir að svipuð þróun hafi átt sér stað á Akureyri og í Reykjanesbæ. Þetta er rangt þar sem 13% aukning hefur orðið fermetrafjölda pr. íbúa í Reykjanesbæ á meðan aukningin hefur orðið 8% á Akureyri. Þetta skiptir auðvitað máli þegar húsaleiga er reiknuð. Ekki voru fleiri sveitarfélög sem gáfu upp aukningu á þjónustufermetrum og því varla samanburðarhæf. Það kom þó fram að Reykjanesbær nýtir fleiri fermetra pr. íbúa en þau. (bls. 15).
Vissulega er hægt að þjóna eigin lund með karpi um einstök atriði þessarar skýrslu en það þjónar engum tilgangi. Megintilgangurinn hlýtur alltaf að vera sá að vinna að almannahagsmunun og nýta eins vel og kostur er það fé sem sveitarfélagið hefur úr að spila hverju sinni. Þar dugar hvorki froðusnakk né flugeldasýningar.
Guðbrandur Einarsson,
?oddviti A-listans