Að stunda geðrækt
Geðrækt má flokka sem einn þátt heilsueflingar þar sem fólk beinir sjónum sínum að heilbrigði og hvernig styrkja megi eigin heilsu og annarra. Mikilvægt er að huga vel að geðheilsunni og halda góðum tengslum við fjölskyldu og vini. Einnig er mikilvægt að taka virkan þátt í félagsstörfum og látum gott af sér leiða. Góð geðheilsa er eitthvað sem þarf að rækta á sama hátt og þegar fólk stundar daglega hreyfingu. Með því að leggja markvissa stund á geðrækt byggjum við um leið upp okkar geðheilsu. Forsenda hennar er að við séum meðvituð um eigin geðheilsu og þá þætti sem hafa áhrif á hana.
Hvernig stunda ég geðrækt?
Fyrst skrefið er að hugsa jákvætt um lífið og tilveruna og hlúa markvisst að því sem styrkir geðheilsuna. Það er hægt að hafa áhrif á eigin hugsanir og líðan með því að einbeita sér að því sem veldur vellíðan. Leita að því jákvæða og góða í fari hvers og eins. Draga fram góðar minningar, myndir eða hlusta á tónlist sem okkur líkar við. Mikilvægt er einnig að hreyfa sig reglulega og njóta útiveru. Það skilar okkur hressum og glöðum heim á ný. Gott er að komast í umhverfi þar sem hægt er að skoða trjágróður, ganga meðfram sjó eða vatni og njóta útsýnis í leiðinni.
Geðorðin 10
Geðorðin 10 byggja á gagnreyndum aðferðum. Markmið þeirra er að styrkja geðheilsu og auka vellíðan. Hver og einn getur tileinkað sér þessi atriði og haldið þeim við ævina á enda. Geðrækt er mikilvægur hluti heilsueflingar.
1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara
Fyrsta geðorðið „Hugsaðu jákvætt“ er undirstaða vellíðunar því án jákvæðra hugsana er engin vellíðan.
2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Mikilvægt er að hafa eitthvað sem manni þykir vænt um, rækta þá væntumþykju og hlúa vel að henni.
3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir
Til að koma í veg fyrir stöðnun er mikilvægt að tileinka sér víðsýni og takast á við lífið með jákvæðum og opnum huga.
4. Lærðu af mistökum þínum
Allir geta gert mistök en við getum brugðist við á tvennan hátt: Við getum hætt því sem erum að gera og farið í sjálfsvorkun eða við getum haldið áfram að reyna og reynt að læra af því sem við gerðum rangt í fyrri skiptið.
5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina
Hreyfingin ein og sér veitir okkur útrás frá amstri dagsins. Að hreyfa sig í nokkrar mínútur á dag fyllir okkur lífsorku og léttir lundina.
6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu
Flæktu ekki líf þitt að óþörfu er í hrópandi mótsögn við skilaboð auglýsinganna þar sem reynt er að sannfæra fólk um nauðsyn þess að eignast ýmsa hluti til að geta lifað af daginn.
7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig
Að vera góður í mannlegum samskiptum er góður kostur. Til að bæta samskipti okkar enn frekar er mikilvægt að kunna að hrósa öðrum og hvetja þá áfram.
8. Gefstu ekki upp. Velgengni í lífinu er langhlaup
Það er mikilvægt að byggja sig upp og styrkja sig bæði andlega og líkamlega. Skyndilausnir duga hins vegar ekki til að ná góðri heilsu, hamingju eða velgengni í lífinu.
9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína
Þegar hæfileikar okkar fá að njóta sín vinnum við og störfum eftir bestu getu. Við slíkar aðstæður náum við að vera stolt og ánægð af verkum okkar.
10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast
Settu þér skýr og skrifleg framtíðarmarkmið að láttu drauma þína rætast. Að fylgja geðorðunum tíu getur verið góð leið til að ná því markmiði sem stefnt er að.