Að stilla upp eldfjallaþjóðgarði sem nánast hliðstæðu við álver
Þann 20. febrúar síðastliðinn kom það fram á Vísir.is að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra teldi undirritun samninga um kísilverksmiðju í Helguvík vera ánægjuleg tíðindi en teldi álver vera óraunhæft. Í sömu frétt kom það einnig fram að henni hugnaðist frekar að setja á stofn eldfjallaþjóðgarð, eða eins og kom fram í sjálfri fréttinni ,, Svandís er þeirrar skoðunar að skoða megi aðrar leiðir til að auka atvinnu á Reykjanesi til dæmis hugmyndir um eldfjallaþjóðgarð sem getur laðað að þúsundir ferðamanna, helsta fyrirmyndin þar sé Hawaii. Stóriðjustefnan sé ekki alltaf lausnin“.
Jæja við skulum aðeins ræða þessa hugmynd hennar Svandísar varðandi eldfjallaþjóðgarðinn á Reykjanesi (ekki Suðurnesjum heldur Reykjanesi). Í fyrsta lagi er ég að sjálfsögðu alls ekki mótfallinn þeirri hugmynd, hún er ansi fín og allt það. En það er tvennt sem gerir hana ekki nógu góða til að bæta upp atvinnuástandið. Annars vegar að stilla upp eldfjallaþjóðgarði sem nánast hliðstæðu við álver hvað varðar starfsmannafjölda, ég veit að hún segir það ekki en hún segir samt að slíkur þjóðgarður ætti að koma frekar en álver og þá hlýtur hún að vera að miða að nokkru leiti við það að þeir sem myndu vinna í álverinu færu frekar að vinna í þjóðgarðinum. Hins vegar að miða við þjóðgarðinn í Hawaii.
Hún talar um að þúsundir kæmu að skoða þennan garð, sem á að vera svipaður og á sá á Hawaii. Við skulum hafa það alveg á hreinu að það kæmu ekki þúsundir hingað beinlínis til að skoða kulnað hraun eins og er á Reykjanesinu. Ekki misskilja mig, mér finnst Reykjanesið unaðslegur staður og því miður hafa Íslendingar ekki enn almennilega uppgötvað það sem ferðamannastað en það mun nú held ég lagast þegar að Suðurstrandavegur verður orðin fullkláraður og við verðum orðin spennandi valkostur í samkeppni við hinn unaðsfagra þingvallahring. Því Guð og goðin vita að náttúrufegurðin er ekki minni í heildina litið en á þeim hring. Fátt samt sem toppar sjálfa Þingvellina.
Það sem gerir þessa þjóðgarða gjörólíka er að á Reykjanesinu eru eingöngu óvirk eldfjöll, það sem ég meina með því að þau eru ekki að gjósa þessa stundina. Á Hawaii hefur hins vegar verið stöðugt eldgos síðan snemma á níunda áratugnum með stórbrotnu sjónarspili og það er það sem trekkir þennan gríðarlega fjölda ferðamanna til Hawaii, ásamt auðvitað einstöku loftslagi og náttúrufegurð. Hvað varðar almenna náttúrufegurð landanna að þá erum við á jafnréttisgrundvelli og jafnvel framar en Hawaii en tölurnar tala samt sínu máli. Þrisvar sinnum fleiri ferðamenn koma þangað en hingað og þeir geta verið á stuttubuxum allt árið þar.
En svo ég haldi áfram með svarið að þá koma árlega til að skoða þennan þjóðgarð um 1.3 milljónir manna (2009). Samtals ferðamenn til Íslands árið 2010 voru um 460.000. Semsagt rúmlega einn þriðji af þeim fjölda sem heimsóttu þjóðgarðinn í Hawaii. Einnig gróf ég það upp að það starfa um það bil tæplega 100 manns við þennan þjóðgarð.
Stærð þjóðgarðsins á Hawaii er reyndar talsverð eða um 1000 ferkílómetrar, til samanburðar má geta þess að Þingvallaþjóðgarður er um 247 ferkílómetrar að stærð eða um einn fjórði. Segjum að stærð þjóðgarðanna endurspegli starfsmannaþörfina. Garðurinn í Hawaii þarf um 100 manns með sína 1.3 milljónir gesta. Þá þyrfti Reykjanesgarður um það bil 35 manns miðað við að hver einasti ferðamaður sem kæmi til Íslands (m.v. tölur árið 2010) myndi stoppa þarna við. Það sér það hver heilvita maður að þessi þjóðgarður er fínasta hugmynd en getur aldrei komið í staðinn fyrir álver hvað varðar starfsmannafjölda.
Á heimasíðu Norðuráls er talað um að bein störf verði um 600 og afleidd störf verði um 800-1000. Nú skulum við ekki tala um afleidd störf heldur bara bein störf. Þrátt fyrir stærðfræðikunnáttu eingöngu í meðallagi að þá get ég ekki samþykkt þessa formúlu 600 = 35. Gildir þá einu hvort að talan fyrir þjóðgarðinn sé of lág eða ekki, hún verður aldrei 600, ekki einu sinni 25% (semsagt 150 manns?) af starfsmannafjölda álversins.
Ég ætla ekki heldur að sitja hérna og segja að álver sé upphaf og endir alls í atvinnumálum en rökin fyrir uppbyggingunni bara hvað varðar starfsmannafjölda, sýna fram á það svart á hvítu hversu þungt þetta mál getur vegið í atvinnuuppbyggingu á Reykjanesinu þar sem atvinnuleysið er mest á landinu.
Hvað varðar orkuöflun og fjármögnun, það þekki ég ekki til hlítar en gagnrýnendur álversins hafa bent á annmarka við orkuöflunina en svo les maður daginn eftir að það sé búið að finna út úr eða því sem næst þannig að ég ætla ekki að koma með pælingar hvað þá hluti varðar, eingöngu vegna vanþekkingar á stöðunni í þeim málum en vona að einhverjir komi með punkta og athugasemdir um þá.
Eins og ég sagði í upphafi að þá er ég alls ekki mótfallinn þessari hugmynd um eldfjallaþjóðgarð. Ég hef unnið talsvert í ferðaþjónustu sjálfur og veit það af fyrstu hendi hvað þetta getur verið gefandi, fræðandi og líka skemmtilegur starfsvettvangur. Hins vegar er það líka staðreynd að laun í ferðamannaiðnaðinum eru almennt lægri en störf í álveri og MUN sveiflukenndari að auki. Slíkur óstöðugleiki er ekki fyrir alla.
Þegar að ég byrjaði að grafa aðeins eftir heimildum fyrir þetta „stutta“ blogg hjá mér að þá fann stundum misvísandi tölur svo ég ákvað að taka alltaf lægstu tölu sem gefin var upp. Allir linkar og gögn sem ég styðst við eru hérna að neðan.
Ég er að sjálfsögðu ekki með öll svörin við atvinnuleysinu en ef geðþóttaákvörðun ráðherra getur stýrt eða stoppað ferli sem getur leitt milljarða inn í íslenskt samfélag og Reykjanesið sérstaklega að þá set ég spurningarmerki við hæfi viðkomandi aðila. En að sjálfsögðu vona ég álverið rísi og einnig verði líka, og ég undirstrika LÍKA, farið að vinna að undirbúningi að opnun eldfjallaþjóðgarðs á Reykjanesinu.
Kveðja frá landslagslausu Danmörku
Sigurbjörn Arnar Jónsson nemi í virðiskeðjustjórnun.
http://www.nationalparkstraveler.com/2010/10/numbers-hawaii-volcanoes-national-park7041
http://www.volcanogallery.com/Volcano_visit.htm
http://www.eoearth.org/article/Hawaii_Volcanoes_National_Park,_United_States
http://www.nordural.is/islenska/fyrirtaekid/helguvik/
http://www.visir.is/svandis-leggst-gegn-alveri-i-helguvik/article/2011110229990