Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Að stika trúverðuga leið út úr vandanum
Föstudagur 17. apríl 2009 kl. 12:07

Að stika trúverðuga leið út úr vandanum

Skríbentar Íhaldsins hafa farið mikinn á netfréttamiðlum Eyjamanna og öðrum netmiðlum á Suðurlandi undanfarna daga, þar sem þeir hafa uppljóstrað um einstakan áhuga sinn á Samfylkingunni og oddvita hennar í Suðurkjördæmi. Minna fer fyrir málefnalegri umræðu af þeirra hálfu um raunhæfar lausnir sjálfstæðisstefnunnar fyrir íslenska þjóð til framtíðar. Hverju er um kenna er ekki gott að segja. Líklegasta skýringin er þó sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki upp á neinar lausnir að bjóða fyrir þjóðina – nema endurvinnslu á sömu gömlu stefnunni og leiddi til efnahagshrunsins.

Mikið að gera hjá skrímsladeild Íhaldsins

Það gefur augaleið að Íhaldið vill ekki halda út í kosningabaráttu þar sem slagorðið verður: Sama stefnan – annað hrun. Það myndi sennilega skila færri atkvæðum en ella. Þess vegna hefur skrímsladeildin þeirra aldrei haft meira að gera en núna. Hennar verkefni er að búa til hræðsluáróður og gera andstæðingana eins tortryggilega og hægt er – allt til þess að draga athyglina frá stefnu – og getuleysi Sjálfstæðisflokksins.
Nýjasti liðsmaður skrímsladeildarinnar – Írís Róbertsdótir – fellur í þessa gryfju í grein á vefnum í dag. Þar beinir hún athyglinni að Samfylkingunni og oddvita hennar í Suðurkjördæmi. Í greininni leitar frambjóðandinn allra leiða til þess að klína ábyrgðinni á íslenska bankahruninu á Samfylkinguna. Hins vegar er algjörlega horft fram hjá því að stærstu orsök bankahrunsins á Íslandi er að finna í spilltu og gölluðu einkavinavæðingarferli Sjálfstæðis – og Framóknarflokks á bönkunum á árunum 2002 - 2003. Enginn sá heldur fyrir hið algjöra hrun frjálshyggjunnar – hins hugmyndafræðilega grunns Sjálfstæðisflokksins – á heimsvísu með þeim afleiðingum að alþjóðleg fjármálakreppa skók hinn vestræna heim, þar sem algjör lausafjárþurrð skapaðist og það reyndist íslensku bönkunum endanlegur banabiti.  

Pólitísk ábyrgð
Rétt er að halda því til haga að Björgvin G. Sigurðsson er eini stjórnmálamaðurinn sem axlað hefur pólitíska ábyrgð á bankahruninu með afsögn sinni og brottvikningu stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Þannig var lagður grunnur að nauðsynlegri endurskipulagningu íslensks fjármálaumhverfis. Auk þess lagði hann til, á meðan hann var viðskiptaráðherra, að gengið yrði til kosninga svo Alþingi fengi endurnýjað umboð þjóðarinnar. Sjálfstæðismenn höfðu hins vegar lítinn áhuga á að endurnýja umboð sitt hjá þjóðinni. Enda hefur það komið á daginn, í umræðum á Alþingi um stjórnarskrá lýðveldisins, að Sjálfstæðismenn virðast ekki skilja að vald þingmanna kemur frá þjóðinni.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins skilaði auðu
Tilraun Sjálfstæðismanna, byggð á hugmyndafræði Davíðs Oddssonar, Geirs H. Haarde, Ragnheiðar Elínar Árndóttur, Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar (hvar er hann?) og fleiri góðra Sjálfstæðismanna, til þess að byggja upp alþjóðlega fjármálamiðstöð á Íslandi með íslensku krónuna sem bakhjarl hefur leitt til ófarnaðar fyrir íslenska þjóð. Það er kjarni málsins og auðvitað er erfitt fyrir innvígða og innmúraða að horfast í augu við það. Á því hef ég hins vegar skilning enda skilningsríkur maður með eindæmum og vil þess vegna sýna þessu ágæta fólki umburðarlyndi. Það gefur því hins vegar ekki rétt til ala á ótta fólks við stefnu annarra flokka og reyna allt til þess að gera þá tortryggilega. Þeirra verkefni ætti miklu frekar að snúast um naflaskoðun á efnahagsstefnunni sem hefur verið fylgt á valdatíma Sjálfstæðismanna með hörmulegum afleiðingum fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Í þessu ljósi er athyglisvert að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hvorki „gerði meira en axla sinn hluta ábyrgðar á fortíðinni“ né „stikaði hann trúverðuga leið út úr vandanum til framtíðar“. Flokkurinn skilaði auðu í Evrópu – og gjaldmiðilsmálum, sem eru stærstu spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir í kjölfar efnahagshrunins. Flokki, sem ekki treystir sér til þess að hafa stefnu í þessum málum vegna innbyrðis deilna, er ekki treystandi til þess að varða leiðina inn í framtíðina. Skýr framtíðarsýn er lykilatriði í þeirri endurreisn sem nú stendur yfir – og hana hafa jafnaðarmenn.

Árni Rúnar Þorvaldsson
Skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024