Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Að „standa í lappirnar“ og segja nei við Arion banka
Föstudagur 14. desember 2018 kl. 15:30

Að „standa í lappirnar“ og segja nei við Arion banka

Núverandi meirihluti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar setti í núgildandi samstarfssáttmála eftirfarandi yfirlýsingu. „Framboðin þrjú hafna mengandi stóriðju í Helguvík og mun nýtt framtíðarráð fjalla um starfsemina og leita lausna svo tryggja megi að atvinnuuppbygging í Reykjanesbæ sé ávallt í sátt við íbúa.“ Kjarni hennar er hér undirstrikaður. Við vonum að ráðamenn bæjarins hafi ekki bara verið að slá pólitískar keilur, heldur muni þeir standa við stóru orðin, „standa í lappirnar“ og segja nei við Arion banka?
Umræðan á götunni
Einn orðaði það svo, þegar rætt var um kísilverið í Helguvík: „Arion, sem við er að eiga, er ekki árennilegur. Þeir eru þekktir fyrir að fara sínu fram, löglega eða ólöglega. Þeir tóku við miklu magni ólöglegra lánasamninga af þrotabúi Kaupþings og hártoguðu öll lagaleg atriði, sem voru ólögleg og þeim óhagstæð. Fóru með þau í gegnum öll möguleg dómstig í landinu. Á sama tíma var gengið í skrokk á lánþegum, einstaklingum og fyrirtækjum, fólk rekið af heimilum sínum og atvinnutækin/lífsbjörgin tekin af mönnum....“ Svo bætti hann við: „Það verður við ramman reip að draga. Þeir svífast einskis til að fá sínu fram. Hvort það kostar eina milljón, hundrað milljónir eða milljarð mun ekki skipta verulegu máli í þeirra ranni.“
Góssið í þrotabúinu
Erfitt er fyrir leikmann að átta sig á hvernig kennitöluflakk gengur fyrir sig. Nú eru þeir búnir að kaupa Sameinað Sílikon hf., áður Stakksbraut 9 ehf., sem hafði m.a. sett niður nokkrar skemmur með tækjum og tólum til kísilvinnslu, reist heilmikið röravirki, gert ótal samninga og sankað að sér ýmsum leyfisbréfum. Þeir segjast hafa greitt tuttugu milljarða króna fyrir. Í góssinu eru meðal annars samningar, sem voru gerðir við Stakksbraut 9 ehf., og/eða Sameinað Sílikon hf., um lóðarleigu, hafnargjöld og gatnagerðargjöld með góðum afsláttarkjörum, að því er sagt er. Einnig starfsleyfi fyrir framleiðslu á allt að 100.000 tonnum af hrákísli á ári í 2+2 ljósbogaofnum sem upphaflega var gefið út fyrir Stakksbraut 9 ehf., en síðar flutt yfir á Sameinað Sílikon hf. (leyfið er veitt Sameinað Sílikon hf., með gildistíma til 31. júlí 2030). Svo fylgir líka að þeirra sögn losunarleyfi fyrir koldíoxíð, sem gefið var út af Umhverfisstofnun 2016.

Upplýst er í matsáætlun Verkís verkfræðistofu að ein bygging er ekki í samræmi við hæðarákvæði gildandi deiliskipulags og að hálfu utan við byggingarreit ásamt öðrum byggingum, þó ekki allar á svæðinu. Strax í matsáætluninni er byrjað að hártoga gildi deiliskipulags, og verður óskað eftir „samstarfi“ við sveitarfélagið um að deiliskipulagið verði aðlagað að umræddum brotum. Víst er að hvaða annar meðal-Jón, sem væri staðinn að svona brotum, fengi ekki að halda áfram án þess að laga umrædd skipulagsbrot.
Fokking fokk
Eitt vinsælasta myndefni fjölmiðla frá mótmælum t.d. á Austurvelli er af mótmælanda með spjald sem á er skrifað „fokk“. Orðið kemur frá Ameríska orðinu „Fuck“ og er í þessu samhengi notað þegar farið er illa með einhvern. Á mergjaða íslensku mætti þýða það sem „nauðgun“. Þegar farið er yfir drögin að matsáætlun Verkís má vel lesa milli línana að öll vinnubrögð bæði Stakksbrautar 9 ehf. og síðar Sameinaðs Sílikons hf. hafi verið tómt „fokk“. Bæði undirbúningsgögn og verksmiðjan. Þeir „fokkuðu“ t.d. Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Vinnueftirliti ríkisins, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, stjórnendum og stofnunum Reykjanesbæjar ásamt íbúum bæjarins alveg frá byrjun. Þrátt fyrir þessa augljósu niðurstöðu notar Verkís allt „fokkið“ sem undirstöðu fyrir að leyft verði að endurræsa kísilverið. Það má segja að matsáætlunin sé nokkurs konar nútíma saga um nýju fötin keisarans, sem á að breyta í Hvítbók í þeirra höndum. Allir sjá að þetta er áfram sama sagan um nýju fötin keisarans. Slóðin er ljót og fagurgalinn eitraðri en látið er í veðri vaka. Þeir biðja íbúa og bæjaryfirvöld um traust og gott veður í sinn garð til að búa til ný föt úr gömlum lyga þræði.
Ekki kikna í hnjánum
Auðveldara er um að tala en í að vera, því margt hangir á spýtunni sem hvergi kemur opinberlega fram. Margir aðrir en Arion banki hafa fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu málsins, sbr. Verkís verkfræðistofa, sem hafa leiðst út í að verja þessa vitleysu. Bæjarfulltrúar þurfa ekkert síður að standa keikir gagnvart fleirum en Arion. Slagkrafturinn, ítökin, þrýstingurinn og mesti slagurinn verður hins vegar frá og við þá.
 
Án þess að gera lítið úr flækjustiginu eða gefa í skin að málið sé einfalt/auðvelt skal bent hér á örfá, en mikilvæg atriði, sem bæjaryfirvöld hafa í hendi sér og matsskýrslan margumtalaða nefnir. Kísilverksmiðjan í Helguvík er háð eftirfarandi leyfum úr heimabyggð:

Framkvæmdaleyfi Reykjanesbæjar samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að teknu tilliti til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.
Byggingarleyfi Reykjanesbæjar samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja gefur út starfsleyfi vegna tímabundins atvinnureksturs í tengslum við framkvæmdirnar, s.s. vegna olíubirgðastöðva, verkstæðisaðstöðu, steypustöðva, salerna, svefnskála, mötuneytis, vatnsbóla og fráveitu.

Ef bæjarstjórn ætlar að „standa í lappirnar“ þarf að fara í saumana á öllum hugsanlegum atriðum og nota orðið „nei“ eins oft og mögulegt er. Byrja á þessum tveim fyrrnefndu leyfum sem þeim er í lófa lagið að neita. Þeir geta borið fyrir sig þrýsting frá íbúum og samstarfssáttmálanum. Skoða þarf öll lagaleg atriði með smásjá og vera tilbúin að taka slaginn við harðsnúið teymi Arions, fái þeir ekki vilja sínum framgengt. Þarna verða lögfræðingar, verkfræðingar, líffræðingar, hagfræðingar og eðlisfræðingar, svo einhverjir titlar séu nefndir, sem fletta má upp í tengslum við verkefnið. Vitum ekki hvort þeir hafa veðurfræðing og dáleiðanda (nei, djók). Að baki þeim eru peningavald og fjármálaelíta sem munu ætlast til þess að fá annaðhvort að spúa sex tonnum af eiturefnum á dag yfir íbúana þegar svo ber við, eða að fá tuttugu milljarðana sína, sem enginn veit hvort er rétt, með dráttarvöxtum, að viðbættum kostnaði kennitöluflakkarans Stakksbergs endurgreitt. Það má búast við boðum um hrossakaup í byrjun og síðan hótunum, þvingunum, lögsóknum og líklega öllum mögulegum brögðum utan handrukkara. Lögfræðingar og aðrir fulltrúar íbúa, þ.m.t. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og aðrar sjálfstæðar stofnanir bæjarfélagsins, verða að leggjast á árar og vera úrræðagóðir, þrautseigir og staðfastir þegar til þeirra verður leitað. Velta upp hverju smáatriði með efasemd og tortryggni í huga‚ því eins og fyrr er sagt er allt verkefnið frá upphafi byggt á því, sem hér hefur verið nefnt, „fokk“.

Hér liggur fiskur undir steini og engin ástæða til að vera með minnimáttarkend. Ef íbúar bæjarins eru tilbúnir til að styðja sína kjörnu fulltrúa í baráttunni og í versta falli að sætta sig við afleiðingar af hugsanlegum dómsúrskurði ef Arion tekst að sannfæra dómarana í Landsrétti eða Hæstarétti um að heilsa samfélagsins sé minna virði en ávöxtunarkrafa fjármálaelítunar, þá er engin ástæða fyrir bæjarfulltrúana að kikna í hnjánum eða hræðast. Þeir verða alltént ekki sakaðir um að slá pólitískar keilur í samstarfssáttmálanum.

Reykjanesbæ 5. desember 2018,
Tómas Láruson.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024