Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 22. mars 2000 kl. 14:15

Að slá ryki í augu fólks.

Í grein í Víkurfréttum í sl. viku heldur Þorsteinn Erlingsson því fram að bærinn hafi sparað um 100 milljónir króna með því að semja við Verkafl hf um byggingu knattspyrnuhúss á leigusamningi sem frægur er orðin um allt land sem dæmi um hvernig ekki eigi að semja. Hér gerir hann alvarlega tilraun til að slá ryki í augu bæjarbúa. Hann velur að rugla fólk í ríminu með því að blanda saman tveim ólíkum húsum, annars vegar fullbúnu fjölnota húsi fyrir 470 milljónir og hinns vegar því knattspyrnuhúsi sem byggt var og kostaði 370 milljónir og telur bæinn hafa “sparað” 100 milljónir með þessu. Ég sat í sömu nefnd og Þorsteinn og veit því vel hvernig þessi mál fóru fram. Í upphafi var send út útboðslýsing á FJÖLNOTA húsi . Tvö tilboð bárust sem hljóðuðu upp á um 470 milljónir króna, (áætlun meirihlutans hljóðaði upp á 320 milljónir og skakkaði þannig litlum 50%). Öll nefndin var sammála um að þetta væri of dýrt og hafnaði báðum tilboðum. Verkafl hf lagði einnig fram frávikstilboð upp á 370 milljónir. Sú lækkun fékkst með því að allur fjölnota búnaður var tekinn úr húsinu, minna lagt í húsið sjálft og lóðarfrágangur í lágmarki. ÞETTA HÚS GÁTUM VIÐ KEYPT á þessu verði. Undirritaður vildi einnig hafna þessu tilboði á þeim forsendum að fjölnota tilgangi væri ekki náð og eftir stæði einungis knattspyrnuhús sem væri gott til síns brúks en bænum ofviða í kostnaði. En meirihlutinn ákvað að ganga til samninga við Verkafl hf á þessum grundvelli. Í stað þess að kaupa það ákváðu þeir að leigja það til 35 ára fyrir 945 milljónir auk verðbóta á tímabilinu og við eigum ekkert í því að þeim tíma liðnum. Ástæðan fyrir vali þessa “kjarakosts” er bág skuldastaða bæjarsjóðs en með þessari aðferðarfræði kemur framkvæmdin ekki beint inn á hana þar sem um “leigu” er að ræða. Allt verður þetta bænum þó mun dýrara en ef húsið hefði verið keypt. En húsið er komið og stendur í miðjum bænum þar sem það tekur upp stóran hluta eins besta byggingarlands okkar. Í ljósi þess gríðarlega umframkostnaðar sem við berum af þessum “leigusamningi” eigum við að ganga hið fyrsta til samninga við Verkafl hf um kaup á því og bjarga þannig bæjarsjóði úr þessum vanda eins og unnt er undir þessum kringumstæðum. Um leið og ég óska knattspyrnumönnum bæjarins til hamingju með aðstöðuna vil ég lýsa óánægju minni með að við erum að greiða niður æfingar 15 utanbæjarliða í húsinu um 13-15 þúsund krónur á tímann. Nær væri að okkar fólk nyti þessa tíma. Kynnið ykkur samninginn á www.centrum.is/~kristmund Sérstaklega er bennt á grein 6. Kristmundur Ásmundsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024