Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að skera niður
Fimmtudagur 17. desember 2009 kl. 12:18

Að skera niður

Allir landsmenn gera sér grein fyrir því að niðurskurður er óhjákvæmilegur hjá hinu opinbera. Hann verður erfiður og við eigum öll eftir að finna fyrir honum.  Mikilvægt er að við þann niðurskurð verði beitt skýrri forgangsröðun og jafnræðis gætt. Fjárlagafrumvarpið 2010 sem er nú til meðferðar á Alþingi uppfyllir ekki framangreindar kröfur, því miður. Nauðsynlegt er að grípa til aðhaldsaðgerða til að ná tökum á ríkisrekstrinum. Ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki ráða við það verkefni og það mun hafa þau áhrif ef ekkert er að gert að niðurskurður komandi ára verður enn viðameiri en ef strax væri gripið í taumana.
 
Ýmsir hafa uppi þá skoðun að vernda þurfi heilbrigðiskerfið, menntakerfið og velferðarkerfið og vissulega væri ágætt ef það væri hægt en það er hins vegar ekki raunhæft. Skera þarf niður á öllum sviðum og þess verður að krefjast af öllum ríkisstofnunum að vel sé farið með þá fjármuni sem til skiptanna eru. Ég hef þá trú að ef rétt er á spilum haldið verði efnahagslægðin skammvinn þó að ýmsar efasemdir sæki að manni þegar litið er til vinnubragða ríkisstjórnarflokkanna við fjárlagagerðina.
 
 
Ég hef ávallt sagt að við niðurskurð í ríkisrekstri verði að taka mið af því fyrst og fremst að öryggi landsmanna sé tryggt. Þar á áherslan að mínu viti að liggja og verður í því sambandi að líta sérstaklega til verkefna lögreglunnar og gæta þess að ganga ekki of harkalega að þeirri grunnstoð öryggiskerfis landsins.
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafa lagt fram ítarlegt nefndarálit þar sem vakin er athygli grundvallargöllum fjárlagafrumvarpsins. Tekjuhlið frumvarpsins er óklár, þegar hefur verið slakað á aðhaldskröfu milli fyrstu og annarrar umræðu um frumvarpið og ekki liggja fyrir ákvarðanir um hvort stofnanir hafi heimild til að flytja óráðstafaðaðar fjárheimildir milli fjárlagaára, svo nokkur dæmi séu tekin. Sjálfstæðismenn benda jafnframt á aðrar leiðir til tekjuöflunar, m.a. með skattlagningu séreignarsparnaðar, aflaaukningu auk þess að leggja til frekari sparnaðaraðgerðir. Ég vonast til þess að fjárlaganefnd taki ábendingar sjálfstæðismanna til alvarlegrar íhugunar og kasti þeim ekki fyrir róða. Við höfum ekki efni á því. Framtíðin hefur ekki efni á því.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Unnur Brá Konráðsdóttir