Að setja forvarnarstarf í þágu barna á oddinn
Sýnt hefur verið fram á mikilvægi forvarna og snemmtækrar íhlutunar til að efla geðheilbrigði, lífsgæði og framtíðarhorfur barna. Jón Ragnar skrifaði grein í síðustu viku um m.a. forvarnir í skipulögðu íþróttastarfi og minnir lesendur á að Suðurnesjabær er aðili að heilsueflandi samfélagi og í slíku samfélagi á heilsa og líðan íbúa að vera í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á sviði velferðar, heilsu og menntunar.
Rannsóknir sýna fram á að gagnvirkustu forvarnaraðgerðir fyrir börn og ungmenni fela í sér þétta samvinnu sveitarfélags (velferðarþjónustu), skóla og heimilis til að efla félagslegu og tilfinningalegu hæfni barnanna í okkar nútímasamfélagi.
Snemmtæk íhlutun felst í því að börn og ungmenni fái aðstoð og hjálp sem fyrst áður en vandinn ágerist með skaðlegum og óafturkræfum afleiðingum. Ef grunur vaknar um að barn sé með einhvers konar röskun erum við skyldug til þess að standa undir aðgerðaráætlun geðheilbrigðismála Alþingis og veita barni og umönnunaraðila þess viðeigandi þjónustu og stuðning. Það á þá að eiga við barn og ungmenni að 18 ára aldri.
Við hjá Bæjarlistanum viljum setja forvarnarstarf barna á oddinn. Það er margt og mikið sem Suðurnesjabær er að gera vel en það þarf að gera enn betur, meðal annars að bæta skipulag og skilvirkni þjónustunnar og styðja betur við starfsfólk grunnskólanna. Okkur finnst mikilvægt að grunnskólar Suðurnesjabæjar hafi aðgengi að skólasálfræðingi. Þannig að hann geti tekið á þeim tilteknum vanda sem á við hverju sinni í samvinnu við heimili barns/ungmennis, áður en vandinn verður alvarlegri. Við viljum teymisvinnu skólasálfræðings og námsráðgjafa sem og sálfræðing í fast stöðugildi fyrir alla skóla Suðurnesjabæjar.
Við viljum auka fræðslu og kynningar í félagsmiðstöðvum sem og aukna fræðslu fyrir forráðamenn.
Okkur langar að feta í fótspot annarra sveitarfélaga hér á landi og innleiða verkfærið BUILD “Building Resilience and Brighter Futures” sem er áætluð að vera fyrsta stigs forvörn. BUILD er námskeið ætlað að styðja ungmenni til að takast á við ólíkar áskoranir í lífinu, byggja upp seiglu, efla sjálfstraust og tilfinningfærni. Það er til þess fallið að kenna börnum og ungmönnum að takast á við erfiðar tilfinningar, sporna við áhættuhegðun og andlegar áskoranir.
Allar forsendur eru til staðar til að taka höndum saman en það vantar bæði stuðning og raunverulega forystu til að innleiða geðrækt markvisst inn í nám barna.
Við erum fyrsta stig geðheilbrigðisþjónustunnar. Skólasamfélagið, heilsugæslur og sérfræðiþjónusta skóla. Við erum forvörnin.
Bæjarlistinn vill auka aðgengi íbúa í Suðurnesjabæ að geðheilbrigðisþjónustu og geðbætandi forvörnum í nærumhverfi.
X við O í kosningum þann 14. maí 2022.
Júdit Sophusdóttir,
skipar 8. sæti Bæjarlistans í Suðurnesjabæ