Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að selja frá sér hugvitið
Föstudagur 20. ágúst 2021 kl. 08:09

Að selja frá sér hugvitið

Það eru ekki margar afurðir á heimsmarkaði sem við Íslendingar getum eignað okkur. Lambakjötið okkar er oft nefnt í þessu sambandi en það er svo sem framleitt annars staðar þó að við í belgingi teljum okkur framleiða besta lambakjöt í heimi.

Ein er þó afurð sem svo sannarlega er hægt að kenna við Ísland og sú afurð er íslenska skyrið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvergi í heiminum var að finna afurð sem var sambærileg við íslenska skyrið og maður hefði því haldið að hægt yrði að tryggja mjólkurframleiðendum betri afkomu vegna aukinna vinsælda íslenska skyrsins, en það fæst ekki séð að það hafi gerst, heldur er verið að flytja framleiðslu á þessari einstöku afurð úr landi og einhverjir aðrir en bændur njóta góðs af því.

Tölur eru sláandi

Það þarf ekki að leita lengi til þess að gera sér grein fyrir mikilli öfugþróun í þessum málum. 

Skv. frétt í Morgunblaðinu frá 19. september 2015 var greint frá nýjum samningi Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur. Þar er m.a. sagt frá því að  útflutningsheimildir íslenskra skyrframleiðeiðenda muni rúmlega tífaldast, fara úr 380 tonnum í 4.000 tonn

með nýjum samningi.

Hver er staðan?

Hafa Íslendingar nýtt sér þessar auknu heimildir til útflutnings á skyri til hagsbóta fyrir íslenska bændur og erum við að nýta þær heimildir sem við höfum til útflutnings á vöru sem við getum svo sannarlega talið sem okkar vöru og ættum að hafa einkaleyfi á?

Því fer víðs fjárri.

Skv. upplýsingum frá Hagstofu hefur útflutningur á skyri verið að dragast mjög mikið saman. Frá árinu 2010 til ársins 2018 og með nýjum samningi við ESB, jókst útflutningur á skyri úr 20 tonnum í 1.422 tonn. Síðan þá hefur sigið  verulega á ógæfuhliðina.

Skv. tölum Hagstofu var útflutningur á skyri 922 tonn árið 2019 en ekki nema 516 tonn árið 2020.

Útflutningur á skyri fer því að nálgast það sem hann var áður en samningurinn við ESB var undirritaður árið 2015.

Eru útlendingar þá ekki að borða íslenskt skyr?

Því fer hins vegar fjarri að ekki sé verið að borða íslenskt skyr í útlöndum. Skyr er að finna í verslunum  í mörgum Evrópulöndum og einnig er hægt að nálgast það í Ameríku og Asíu. Hins vegar er verið að framleiða vöruna annars staðar en á Íslandi, úr erlendri mjólk

Ákveðnir aðilar hafa ákveðið að fara með vöru, sem við hefðum getað haft einkarétt á, til framleiðslu í öðrum löndum þar sem hægt er að kaupa merkt íslenskt skyr á lægra verði en við njótum hér heima á Fróni. Við getum kannski farið að flytja inn íslenskt skyr.

Heitir þetta ekki að pissa í skóinn sinn?

Guðbrandur Einarsson

skipar 1. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi í
komandi alþingiskosningum