Að sá fyrir sumrinu
Ritari nýtur þeirra forréttinda að eiga sér gróðurhús á lóðinni. Það er hálf-kalt hús þar sem hita gætir mest frá geislum sólar auk affalsvatns frá íbúðarhúsinu eftir að það hefur runnið gegnum snjóbræðslulögn stétta og bílastæðis. Þrátt fyrir það má ætla að vorið birtist þar tveimur mánuðum fyrr en ella, rósirnar byrja að laufgast upp úr miðjum janúar, svo koll af kolli.
Í þessum rituðu orðum er þar innanglers 15 stiga hiti enda sólarglenna nú um miðjan daginn. Margar ánægjustundir hefur hús þetta veitt mér, en ekki allar áhyggjulausar. Stormbyljir þessa árs hafa t.a.m. haldið fyrir mér vöku, enda er ég brenndur af febrúarveðrinu 1991 en þá við horfðum út um glugga á samskonar hús jafnast við jörðu. Ekkert annað í stöðunni en að byggja það hús aftur en styrkja með öflugum miðjuprófíl og skástífum festum við hann til beggja gafla á húsinu. Síðan þá hefur húsið staðið af sér allt. Í húsinu er rafmagn og vatn og næstu daga má þar greina að kvöldlagi ljósbirtu frá ódýrum led-ljósum sem stýrt er með klukkurofa frá Ikea til að auka við sólarganginn. Ég ætla nefnilega að fara dreifplanta og sá fyrir fleiri sumarblómum, auk matjurta. Þá verða settir þar inn tveir olíufylltir rafmagnaofnar til að auka við hita að næturlagi.
Að sá fyrir eigin blómum og matjurtum veitir mikla lífsfylli. Að fylgjast með örlitlu fræi verða að fullmótaðri plöntu, sem ýmist blómstrar eða gefur af sér aldin, fær úreldan fæðingalækninn til að endurlifa sköpunarverkið í starfi þá hann fylgdist með slíkri þróun í mannheimum.
Sáning er í eðli sínu einföld athöfn, á færi allra sem taka sér tíma og tileinka sér vinnubrögð, sem lúta lögmáli náttúrunnar um upphaf, þroska og viðhaldi lífsins. Í bók bókanna segir frá sáðmanni er gekk út að sá sæði sínu (Lúkas 8) og örlögum þess allt eftir því í hvern jarðveg það féll og hvernig að því varð hlúð. Þótt hér sé átt við guðsorð með dæmisögu er vegferðin í raun sú sama þegar við viljum að fræið sem við sáum beri góðan ávöxt. Við þurfum heppilegan jarðveg til að sá í, svo fræið megi spíra, á þeim tíma ekki of kröftugan til að hindra myndun frumplöntunnar. Þá fyrst rótarkerfi plöntunnar þroskast færum við að henni næringu í litlu mæli til að byrja með, en bætum síðan í til að uppfylla þarfir hennar. Ljós og vökvun eru lykilatriði til að viðhalda lífi plöntunnar enda er hún háð hvort tveggja, þá hún hefur ljóstillífun. Hún þarf líka meira rými þegar hún vex, þess vegna fær hver planta sérstaka athygli í sínum eigin potti.
Við ætlum að fjalla um sáningu sumarblóma og matjurta á fyrsta fundi garðyrkjudeildarinnar sem haldinn verður miðvikudaginn 16. mars í húsi leikskólans Tjarnarsels, Tjarnargötu 19. Hefst fundurinn kl 20. Sýnikennsla fer fram og þáttakendur fá efnivið til sáningar í hendur, aðgangseyrir er 1000 kr.
Á síðastlinu vori afhenti Reykjanesbær Suðurnesjadeild G.Í til umsjónar og varðveislu 25 veglega gróðurkassa, sem staðsettir eru í nýjum fjölskyldureit við Njarðvíkurskóga. Þar hefur farið fram metnaðarfull uppbygging á útivistarsvæði fyrir það fjölmenningarsamfélag sem við búum í. Þar gefst tækifæri til að safna saman fólki af mismundandi uppruna og deila gagnkvæmri reynslu, sem gjarnan er uppruni virðingar og vinskapar.
Um leið og við lútum höfði og hugsum til Úkraínu og þeirra hörmunga sem fólkið þar nú tekst á við, þá minnum við okkur sjálf á að ræktun er ein leið til þess að öðlast frið í sálinni. Oft er gott að sækja á þau mið þegar á bjátar.
Konráð Lúðvíksson.
Séð inn í gróðurhús greinarhöfundar, undirbúningur í fullum gangi.
Efniviður til sáningar.
Gróður kassar í Njarðvíkurskógum.