Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að rækta ávaxtartré í garðinum sínum
Miðvikudagur 2. júní 2010 kl. 09:30

Að rækta ávaxtartré í garðinum sínum


Hvern skyldi hafa órað fyrir því að hægt væri að ganga út í garðinn sinn og tína af trjánum epli eða þess vegna perur?  Ekki mér að minnsta kosti, á þeim tíma þegar eina von til að fá eitthvað til að vaxa hér á Suðurnesjum var að velja efniviðinn nógu harðgerðan til að von væri að hann fengist þrifist. Að maður nyti fegurðar ilmandi rósa af ýmsum gerðum með tilheyrandi litskrúð virtist fjarlægur draumur, hvað þá heldur að rækta sína eigin ávexti nema í gróðurhúsi.

Nú hafa gerst þau tíðindi vegna breytinga í árferði og tilkomu innflutnings og framræktunar á harðgerðari plöntukvæmum að nánast óendanlegir möguleikar eru á ræktun utanhúss. Það þarf aðeins hugmyndaflug til að hefjast handa og láta drauma sína rætast. Að rækta er lækning við streitu og hugarangri. Á umrótartímum er gott að tala við blómin sín.

Við hjá nýstofnaðri Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands ætlum næstkomandi mánudag kl 20 að fá til okkar Jón Þóri Guðmundsson garðyrkjufræðing til að tala við okkur um ræktun ávaxtatrjáa.  Jón býr niður við sjóinn á Akranesi áveðurs. Hann hefur komið sér upp ótrúlegum garði, þar sem mikil áhersla er lögð á ávaxtatrjáarækt auk annarra nytjajurta. Ég hef sjálfur fengið að skoða garðinn og fylltist eldmóði.
Jón mun kenna okkur handbrögðin í máli og myndum.

Fundurinn verður haldinn í fundarsal Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á 3 hæð í D-álmu mánudaginn  7. júní .

Konráð Lúðvíksson,

formaður Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélags Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024