Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 22. nóvember 2005 kl. 14:10

Að neyta eða njóta jólanna?

Fjölskylduráð vill hvetja til umræðu um jólahald íslenskra fjölskyldna og stendur því fyrir tveimur fundum undir yfirskriftinni: Að neyta eða njóta jólanna. Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um að jólin sem eiga að vera tími helgi og samveru hafi orðið neyslunni að bráð. Gerðar séu miklar kröfur til umgjarðar jólahaldsins og að jólin hafi jafnvel snúist upp í andhverfu sína þannig að þau einkennist af kvíða og áhyggjum. Til að vekja umræðu um hvernig fjölskyldur fá best notið jólanna á eigin forsendum hefur fjölskylduráð fengið til liðs aðila sem munu ræða nútíma jólahald frá ýmsum sjónarhornum. Báðir fundirnir verða haldnir fimmtudaginn 24. nóvember kl. 9-10 í Iðnó í Reykjavík og í Nýja bíói á Akureyri.

Morgunfundur í Iðnó við Tjörnina í Reykjavík kl. 9-10

Dagskrá
Ávarp félagsmálaráðherra Árna Magnússonar.
Í skjól fyrir jól. Jóna Hrönn Bolladóttir, miðborgarprestur í Reykjavík.
Jólaólympíuleikarnir? Oddný Sturludóttir rithöfundur.
Jólaminning. Áslaug Brynjólfsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík.

Fundarstjóri Drífa Sigfúsdóttir formaður fjölskylduráðs. Eftir fundinn verður gestum boðið að ganga til Dómkirkju þar sem dr. Einar Sigurbjörnsson flytur hugvekju.


Morgunfundur í Nýja bíói á Akureyri kl. 9-10

Dagskrá:
Jólaminningar. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri.
Jólin sem breyttust. Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík og fulltrúi í fjölskylduráði.
Fæðingarorlof fyrir jólin - undirbúningur fjölskyldunnar. Óskar H. Óskarsson, sóknarprestur á Akureyri.

Fundarstjóri Soffía Gísladóttir, framkvæmdastjóri SÍMEY og fulltrúi í fjölskylduráði.

Á báðum fundunum verður boðið upp á kaffi og kleinur í boði ráðsins. Allir velkomnir.

Á heimasíðunni www.fjolskylda.is verður sett upp síðan Áhrifaríkar jólaminningar. Þangað gefst öllum kostur á að senda inn jólaminningar sínar. Tekið verður á móti jólaminningum til síðasta dags jóla.

Fjölskylduráð hvetur fjölskyldur landsins til að skapa góðar jólaminningar og leggja meiri áherslu á samveru fjölskyldunnar en að eltast við óþarfa neyslu.

Fjölskylduráð
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024