Að missa björg
Fyrir níu árum hóf ég störf á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og varð brátt vör við starfsemi Bjargarinnar í vinnu heilsugæslulæknisins.
Dyr Bjargarinnar standa opnar hverjum þeim, sem þangað leitar eftir athvarfi, góðu samneyti við aðra, stuðningi, aðstoð, iðju og rækt, sem getur haft meðferðar- og endurhæfingargildi.
Í heimilislækningum og störfum geðteymis HSS sinni ég heilsu fólks og velferð í víðu samhengi. Góð samskipti, samráð og samvinna eru þar lykilþættir. Mikilvægt er að mæta sérhverjum, þar sem hann er staddur og finna leið á forsendum hans. Við erum öll á þessu ferðalagi. Þetta getur kallað á þverfaglega nálgun. Þá sameinast ólíkir fagaðilar kringum einstaklinginn með honum í teymi til að vinna að bata, sem á sér margar myndir. Ég hef átt gott samstarf við Björgina í ýmsum málum og mér finnst hún í raun nauðsynlegt úrræði.
Fyrir mér er Björgin aðgengileg og mikilvæg þjónusta, sem fólk getur nýtt milliliðalaust. Hún er líka samfélag allra þeirra, sem henni tengjast, og snertir líf margra. Björgin hefur endurtekið sýnt sköpunarmátt og framkvæmdakraft til að þróast með því að nýta möguleikana og mæta þörf. Námskeið, markmiðshópar og viðburðir eru dæmi þessa. Björgin hefur tengingar víða m.a. við félags- og heilbrigðisþjónustu. Ýmsir aðilar á og utan Suðurnesja þekkja til og vísa oft í þjónustu Bjargarinnar svo sem Landspítalinn, Reykjalundur, VIRK og TR. Hún er hluti af stærri heild.
Rekstrargrundvöllur Bjargarinnar mun vera ótryggur til lengri tíma. Fyrir hönd geðteymis HSS vil ég koma á framfæri góðri reynslu og fullum stuðningi. Það er brýnt að tryggja Björgina til framtíðar.
Bestu óskir,
Margrét Geirsdóttir
heimilislæknir og teymisstjóri geðteymis á HSS