Að mætast á miðri leið
Sem stækkandi fjölmenningarsamfélag þurfum við að huga betur að og þjónusta betur þá aðila af erlendu bergi brotnu sem til okkar leita. Atvinnurekendur sem ráða til sín erlent vinnuafl ættu til að mynda að kynna sér vel þá menningu sem erlendu starfsmennirnir koma frá. Með því að gera svo ættu þeir að skilja betur hegðun einstaklingsins og geta betur leiðbeint honum í starfi og átt þannig betri samskipti við hann. Þetta er einstaklingnum sjálfum mjög mikilvægt því ef hann og hans hegðun er ekki skilin eða virt getur það ógnað hans öryggi og þar með andlegri líðan á vinnustaðnum og almennt í hinum nýja menningarheimi.
Slíkt óöryggi getur leitt til kvíða og þunglyndis þess sem fyrir slíku verður. Þetta á þó helst við þá sem koma frá menningarheimum sem eru ólíkir þeim vestræna menningarheimi sem Íslendingar hafa alist upp við. Að auki getum við bætt við þekkingu okkar frá öðrum menningarheimum sem nýtist okkur til góðs.
Að búa í íslensku samfélagi krefst þess að erlendir aðilar læri íslensku. Tungumálið er lykill að öruggara líferni þeirra sem þangað flytja þar sem atvinnu-og námsmöguleikar aukast þegar tökum er náð á tungumálinu.
Að sama skapi ætti sá sem leitar vinnu á Íslandi að geta gert þá kröfu að vinnuveitandi hans skilji menningarlegan bakgrunn hans og taki tillit til hans.
Þegar einstaklingar, hópar og fyrirtæki lifa og/eða vinna í öðrum menningarheimum en sínum eigin þá taka þeir með sér hugmyndir, þekkingu, fordóma, staðalímyndir og þau gildi sem í þeirra menningu eru ríkjandi og samþykkt. Þessi huglægu gildi hafa þeir alist upp við sem rétt og gild og þurfa því bæði skilning og stuðning við að tileinka sér nýja hugsun.
Það er þó mikilvægt að hafa í huga þegar unnið er með fólki frá ólíkum menningarheimum að það er langt frá því að vera einsleitur hópur. Þeir eru án efa eins misjafnir og þeir eru margir en þó mótar menning þeirra stóran þátt í hugsun og hegðun.
Þó svo að það sé mikilvægt fyrir stjórnendur að skilja menningarbakgrunn erlendra starfsmanna sinna er auðvitað mikilvægt fyrir allt vinnuafl óháð menningu að starfa eftir gildum vinnustaðarins og íslenskum lögum og reglum. Mikilvægt er að erlent vinnuafl fái upplýsingar og fræðslu um það land og þá stjórnsýslu í því landi sem þeir eru að fara að starfa í. Þá er mikilvægt að þeir fái fræðslu um réttindi og skyldur starfsmanna, réttindi þeirra í stéttarfélögum ofl. sem tengist vinnumarkaðnum. Fræðsla um lífsvenjur, íslenska menningu ofl er líka nauðsynleg.
Vinnumálastofnun á Suðurnesjum lætur sitt ekki eftir liggja í þessum málum og veitir fræðslu á vinnustaði bæði til erlends vinnuafls sem og stjórnenda fyrirtækja og stofnana.
Hægt er að panta fræðslu hjá stofnuninni í gegnum netfangið [email protected] eða í síma 515-4800.
Hildur J. Gísladóttir
Forstöðumaður Vinnumálastofnunar