Að loknum kosningum
Að afloknum þingkosingum sendi ég öllum kjósendum á Reykjanesi kveðjur og um leið þakkir fyrir ágæta kjörsókn, betri en í kosningunum 2016. Vonandi verða að minnsta kosti jafn margir eða fleiri í kjörklefum sveitarstjórnarkosninganna í sumarbyrjun. Átta þingflokkar telst met á Alþingi og setur okkur þingmönnum það fyrir að slípa og aga vinnubrögðin, gera þau skilvirkari og sanngjarnari. Mörg, og flest mikil, verkefni bíða þingsins eftir óvænt hlé. Nokkur breyting varð á tíu manna þingliði Suðurkjördæmis. Ég sendi þeim sem hurfu af þingi góðar kveðjur og býð nýja þingmenn velkomna í hópinn. Hann hefur dálítið reynt að halda saman um tiltekin mál.
Árangur okkar vinstri-grænna í kjördæminu var viðunandi. Rúmlega eins og hálfs prósentustiga viðbót merkir að við erum á leið í rétta átt hvað málefni, traust og vinnubrögð varðar. Ég þakka stuðningsfólki VG fyrir vinnu og brautargengi hreyfingarinnar. Þá ber líka að þakka öðrum frambjóðendum í kjördæminu fyrir málefnalega baráttu, á opnum fundum í útvarpi og sjónvarpi.
Hvet til þess að næst verði efnt til umræðufunda frambjóðenda fyrir almenning hér og hvar í kjördæminu, í samvinnu flokkanna. Héraðsblöðin og aðrir heimamiðlar stóðu sig vel í aðdraganda kosninganna.
Ari Trausti Guðmundsson
Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi