Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 13. maí 2003 kl. 11:49

Að loknum kosningum

Að lokinni kosningabaráttu og úrslitum alþingiskosninganna vil ég koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu mér og T-listanum lið. Mikil og óeigingjörn vinna fjölmargra gerði þessa kosningabaráttu mjög eftirminnilega og mun hún lifa í minningu okkar sem skemmtileg og gefandi.Ég vil einnig þakka þeim 843 sem stóðu upp með mér og mótmæltu ólýðræðislegum og ódrengilegum vinnubrögðum í Sjálfstæðisflokknum í minn garð sem eiga sér vart sinn líkan í pólitískri sögu þjóðainnar. Þeir sem stóðu upp með mér komu nánast allir úr Reykjanesbæ sem er ekki svo óeðlilegt þegar litið er til þess að eina kosningaskrifstofa T-listans var í Reykjanesbæ og flestir frambjóðendur héðan. Með þetta fylgi að baki sér hefur T-listinn mikið afl hér í bænum ef vill.

Margir velta því fyrir sér hvers vegna atkvæðin urðu ekki fleiri en 844 greidd T-listanum? Auðvitað eru skýringar á öllu en það vita það margir að sá áróður að atkvæði greidd T-listanum væri atkvæði á glæ kastað hafði gríðarlega mikil áhrif. Þar var þáttur fjölmiðla stærstur því samanburður í skoðanakönnunum á T-listanum og öðrum framboðum var lang oftast á landsvísu þó T-listinn byði aðeins fram í einu kjördæmi. Fylgi hjá T-listanum í Suðurkjördæmi upp á 7% var aðeins um 0,8% á landsvísu sem hljómar lítið þó það slagi hátt í mann í kjördæminu. Grófasta dæmið um þetta er hjá Morgunblaðinu daginn fyrir kjördag þegar þeira segja að T-listinn mælist ekki með neitt fylgi á landsvísu. Hvað hugsar fólk sem sér þetta daginn fyrir kjördag og hafði hugsað sér að kjósa T-listann? Svari hver fyrir sig. Auðvitað hefði blað sem telur sig ábyrgt átt að gera sérstaka könnun í Suðurkjördæmi vegna þess að þar var eitt sérframboð sem var hvergi annarsstaðar. Við höfðum mælst dagana áður með 0,8 og 0,9% fylgi á landsvísu ( 7-8% fylgi í kjördæminu) samkvæmt könnunum Gallup fyrir RUV og því mikil ástæða til að kanna það frekar af Morgunblaðinu því þarna voru stór pólitísk tíðindi á ferðinni! Morgunblaðið tók þá ákvörðun að fullyrða að við hefðum ekkert fylgi daginn fyrir kjördag !!! Miðað við slíkan fréttaflutning er það kraftaverk að fá öll þessi atkvæði.

Þó þessi atkvæði fleyttu mér ekki inn á þing þá höfðu þau mikil og söguleg áhrif á úrslit kosninganna á landsvísu. M.a. missti Sjálfstæðisflokkurinn 1.þingmannssætið í Suðurkjördæmi og Ingibjörg Sólrún komst ekki á þing.

En úrslitin liggja fyrir og ljóst hverjir náðu sæti á Alþingi og hverjir ekki. Ég vil óska þeim til hamingju sem náðu settu marki og óska alþingismönnum velfarnaðar í störfum sínum landi og þjóð til heilla. Því fólki sem studdi mig í þessari baráttu verð ég ævinlega þakklátur fyrir þeirra trúmennsku og traust. Kærar þakkir og guð blessi ykkur öll.


Með T-lista kveðju,
Kristján Pálsson f.v. alþingismaður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024