Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að kjósa fólk eða flokka?
Föstudagur 6. maí 2022 kl. 14:28

Að kjósa fólk eða flokka?

Nú eru kosningar á næsta leiti og því góð hugmynd að fara að huga að því hvaða flokk eða fólk hver og einn vill sjá í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili.

Það eru 5 flokkar í framboði í Grindavík. Það eru talsvert mörg framboð fyrir ekki stærra bæjarfélag en okkar. En erum við að kjósa flokka? Eða erum við að kjósa fólk?

Vanalega fara 1-3 einstaklingar inn í bæjarstjórn fyrir hvern flokk. Að gera góðan bæ betri er eflaust markmið allra frambjóðenda. Fólk er að bjóða fram vinnu sína og sú vinna getur oft á tíðum tekið á. Bæjarfulltrúar verða andlit bæjarins. Þeir eiga að vera tilbúnir til þess að svara spurningum bæjarbúa alla daga, allt kjörtímabilið. Það getur tekið á andlega.

Eftir kosningar er skipuð bæjarstjórn sem skiptist í meiri- og minnihluta og nefndir og stjórnir eru myndaðar. Í þessum nefndum og stjórnum eru allsskonar fólk. Einstaklingar sem eru tilbúnir til þess að vinna saman fyrir bæjarfélagið. Stundum er tekist á en yfirleitt er gott samstarf. Þarna eru oft samankomnir frændur og frænkur, vinir og vinkonur, þvert á flokka, með það markmið að gera góðan bæ betri. Fjölbreytt flóra fólks, á ólíkum stöðum í lífinu, sem vinnur að sameiginlegu markmiði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Því velti ég oft fyrir mér, þegar fólk segist frekar vilja kjósa fólk en flokk, hvort við séum ekki nú þegar að kjósa fólk? Viljum við sjá fólkið í efstu sætum listana vinna fyrir bæinn? Skiptir þá máli fyrir hvaða flokk fólkið býður sig fram?

Við erum stolt af því að hafa stofnað framboðið okkar fyrir fjórum árum. Markmið Raddar unga fólksins er að ungt fólk fái að hafa áhrif í ákvarðanatöku bæjarins, óháð pólitískum skoðunum. Við erum hópur, fullur af ólíkum og hæfileikaríkum einstaklingum, sem er tilbúinn að vinna fyrir bæjarfélagið. Síðustu fjögur ár höfum við fengið alla flóruna af bæði jákvæðri og neikvæðri gagnrýni og höfum við þurft að takast á við ýmiskonar mótlæti. En við stöndum upprétt. Höfum það að leiðarljósi að taka ekki þátt í neikvæðri umræðu og horfum alltaf fram á við. Það er mikið fagnaðarefni að sjá aðra flokka sem eru í framboði vera að yngja upp á listunum sínum. Þá er einu af markmiði framboðs okkar náð.

Gerum góðan bæ betri. Veljum fólk sem við sjáum fyrir okkur að vinni vel saman. Gleymum ekki fjölbreytileikanum. Fjárfestum í framtíðinni!

Inga Fanney Rúnarsdóttir,
9. sæti og formaður Raddar unga fólksins.