Að hugleiða afsögn...
Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar telur að ég eigi að hugleiða afsögn eða afsökunarbeiðni af því að ég hef ekki enn lagt fyrir bæjarráð drög að hugmynd að yfirlýsingu frá fráfarandi ríkisstjórn sem Reykjanesbær eigi að taka þátt í að undirrita varðandi Helguvík. Þau drög verða lögð fyrir bæjarráð í vikunni. Það er sjálfsagt að setja hér fram hugleiðingu um afsögn eða afsökunarbeiðni.
Aðdragandi málsin: Það átti greinilega aldrei að koma frumvarp eða lög frá þessari ríkisstjórn um styrk við Helguvík þegar 3,4 milljarða styrkjafrumvarp um Bakka flaug í gegn og varð að lögum á síðasta degi þingsins. Þetta varð augljóst þegar hlustað var a forsvarsmenn Vinstri grænna. Þeir eru á móti Helguvík. Það var heldur ekki að sjá að Samfylkingin hafi verið að undirbúa neitt frumvarp um Helguvík. Þar á bæ tóku menn hins vegar við sér þegar Steingrímur afhenti fullskapað frumvarp um stuðning við Bakka á lokadögum þingsins. Ekkert frumvarp og engin lög um Helguvik. Steingrímur stakk þau af!
En þegar þingi er lokið og þessi ríkisstjórn að fara frá og þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu vinstri grænna í ríkisstjórn eru send til okkar drög að yfirlýsingu sem eigi að vera á milli Reykjanesbæjar og fráfarandi ríkisstjórnar. Allir vita að slík yfirlýsing rennur út strax og nýtt þing og ný ríkisstjórn tekur við. Hún er því ekki að afhenda neina fjármuni.
En viðleitnin væri virðingarverð ef hún fæli í sér skýran vilja a.m.k. Samfylkingar til að Helguvík njóti sama stuðnings og Bakki á Húsavík, eins og þau höfðu sagt. Frumvarpið sem varð að lögum um Bakka var að lögsetja stuðning um vegagerð og jarðgöng, lán til hafnargerðar, þjálfunarstyrki og lóðarstyrki fyrir alls um 3400 milljónir kr. Þetta var ekki „lýsing á vilja“ ríkisstjórnar sem er að fara frá eftir nokkra daga, heldur gert að „lögum“ sem næstu ríkisstjórn ber að fara eftir. En ekkert slíkt um Helguvík.
Hvað stendur þá í þessari yfirlýsingu sem bæjarráð tekur fyrir á fimmtudaginn? Í því uppkasti að yfirlýsingu sem sent var í tölvupósti 27. mars s.l. virtist vanta heilu kaflana. Það taldi ég að minnsta kosti. Þar er eingöngu vilji til að veita 100 milljón kr. styrk! Hitt er víkjandi lán, ekki styrkur, til hafnarinnar en lán ... og einungis fyrir helmingi af því sem eftir er að gera,engu af því mikla verki sem lokið er og kostar á 4. milljarð kr. líkt og á Bakka. Vegna tafa er fjármagnskostnaður orðinn gríðarlegur.
Þetta er jafnræðið sem var lofað. Uppkastið sem okkur var sent var því svo rýrt, að eg taldi að sendingin væri gölluð, enda virtist vanta eina blaðsíðu í það. Ég spurðist því fyrir um það s.l. fimmtudag en svarið var að svo væri ekki... svona á þetta að vera. Þá fer það þannig til bæjarráðs næsta fimmtudag!
Nú kemur aftur að hugleiðingu um afsögn: Ef við tækjum þátt í slíkum leikaraskap að skrifa undir yfirlýsingu við ríkisstjórn sem er að fara frá ..og gefa tóninn til næstu ríkisstjórnar um að við látum okkur nægja 100 milljón kr. styrk vegna þessa 4 milljarða verkefnis, sem skilar ríkinu 12 milljörðum í tekjur á ári, þá væri komin ástæða til að ég segði af mér sem bæjarstjóri!
Nú skulum við sjá hvað gerist í bæjarráði næsta fimmtudag.
Með kveðju,
Árni Sigfússon.