Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Að horfa reiður um öxl eða björtum augum til framtíðar?
  • Að horfa reiður um öxl eða björtum augum til framtíðar?
Fimmtudagur 29. maí 2014 kl. 14:12

Að horfa reiður um öxl eða björtum augum til framtíðar?

Síðasta kjörtímabil í Garði var með öllu óvenjulegt og íbúar upplifðu að bæði meirihluti og minnihluti í bæjarstjórn hefði ekki hag allra bæjarbúa að leiðarljósi í störfum sínum. Mörgum var ofboðið og  þeirra skoðunar að breyta þyrfti kosningafyrirkomulaginu svo sátt næðist í samfélaginu. Samskiptin væru ekki góð og virðingaleysi mikið. Fyrirkomulagið myndi breyta þessu í okkar ágæta bæ.


En í allri umræðunni gleymist að það er fólk á bak við fyrirkomulagið. Hugarfarsbreyting er það sem þarf að mínu mati, að einstaklingar hugsi um sinn þátt í samskiptum og samfélagi við náungann. Hegða sér í samræmi við boðskapinn um betri samskipti, jákvæðni, samstöðu, virðingu og ábyrgð.
Þegar umræðan um skólann okkar gekk sem hæst voru margir Garðbúar  þeirrar skoðunar að ekki ætti að ræða skólamálin í fjölmiðlum og bæjarfulltrúar þyrftu að taka sig saman í andlitinu allir sem einn og hugsa um hag nemenda, kennara, foreldra og byggðarlagsins í heild sinni. Síðan þá hefur skólinn sem betur fer ekki verið í fjölmiðlaumræðunni. Enda mun farsælla að styðja við gott starf og vinna að þeim þáttum sem þarf að laga á faglegan hátt með hlutaðeigandi. Það á svo sannarlega líka við um allar stofnanir bæjarfélagsins.
Garðbúar vilja ekki lengur lýjandi umræðu sem skilar engu, sérstaklega ekki ef hún á sér stað í fjölmiðlum.
Það fylgir því mikil ábyrgð að vera bæjarfulltrúi. Hvað sem skrifað er á blað skiptir litlu ef menn fylgja því ekki eftir í verki. Ef vilji er fyrir sátt og samlyndi þá þarf að hegða sér í samræmi við það, ef vilji er fyrir virðingu þarf að sýna virðingu. Þetta er einfalt, gullna reglan fellur aldrei úr gildi. Jákvæð og uppbyggileg samskipti eru lykillinn að velgengni. Velgengni snýst ekki um að allir séu sammála, hún snýst um gildi, framtíðasýn og hvað við viljum standa fyrir.
Við í framboði fyrir sjálfstæðismenn og óháða bindum miklar vonir við bráðum útgefna skólastefnu. Að henni komu nemendur, foreldrara, kennarar, stjórendur,starfsfólk skólanna, bæjarfulltrúar, bæjarstjóri og íbúar. Hún endurspeglar gildi, framtíðarsýn og hvað skólasamfélagið vill standa fyrir.
Sjálfstæðismenn og óháðir ætla að vinna að henni í sátt og samlyndi við skólasamfélagið. Innihald hennar kemur að öllum þeim þáttum sem þarf til að gera góða skóla að þeim skólum sem við viljum sjá til framtíðar. Öllum sem vildu gafst tækifæri að leggja hugmyndir sínar inn í stefnuna.
Stefnu í umhverfis- og atvinnumálum þarf líka að móta og það sama gildir hjá framboðinu varðandi hana, vinna í samvinnu við þá sem að stefnunum koma,  bæjarfélaginu til heilla.
Þetta er kosningamál og þeir sem starfa fyrir hönd sjálfstæðismanna og óháðra munu vinna faglega að málum. Við horfum björt til framtíðar, lærum af reynslunni og trúum að þannig sýnum við virðingu og ábyrgð í verki.
Trú mín er sú að við munum uppskera heilbrigt og gott bæjarfélag ef hver og einn gerir þá kröfu til sjálfs sín að leggja sitt af mörkum í að byggja upp gott samfélag. Heiðarleg, jákvæð, uppbyggileg og virðingaverð samskipti án upphrópana er upphafið. Ég er tilbúin, hvað með þig kæri íbúi Garðs?
Með góðum kveðjum til allra Garðbúa

Jónína Magnúsdóttir
2. sæti á lista sjálfstæðismanna og óháðra í Garði

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024