Að gera lítið úr og tala niður til fulltrúa minnihlutans
Yfirlýsing frá L- og N-listum bæjarstjórnar í Garði vegna ummæla bæjarstjórans í Garði Ásmundar Friðrikssonar í VF 18. apríl 2012
Í svari bæjarstjórans Ásmundar Friðrikssonar við grein sem Jónína Holm skrifar undir fyrir hönd N-listans í VF, koma fram þau vinnubrögð sem D-listinn grípur til þegar minnihlutinn gagnrýnir gjörðir meirihlutans, þ.e. að gera lítið úr og tala niður til fulltrúa minnihlutans í bæjarstjórninni.
L- og N-listar telja slík vinnubrögð ekki vera meirihluta sveitarfélagsins Garðs til sóma og síst til þess fallin að efla lýðræðið. Minnihlutinn hefur margoft óskað eftir upplýsingum úr bókhaldi bæjarins. Síðast bárust slík yfirlit í nóv. 2011 og nú í lok apríl liggja engar nýjar upplýsingar fyrir.
Hvað fjárhagsáætlunina varðar þá fékk minnihlutinn engan aðgang að sundurliðaðri áætlun.
Minnihlutinn beindi gagnrýni sinni á meirihlutann en ekki á endurskoðendur eins og Ásmundur bæjarstjóri ýjar að í grein sinni.
Bent skal á þróun rekstrartekna og rekstrargjalda fyrir árin 2011 til 2015 fyrir fjármagnsliði. Sjá mynd hér fyrir neðan úr skýrslu KPMG endurskoðenda Sveitarfélagsins Garðs.
Á árunum 2007 til 2010 var staðan hins vegar allt önnur, þá voru verulegar tekjur vegna sölu hlutabréfa í Hitaveitu Suðurnesja. Sameiginleg ákvörðun meirihluta og minnihluta á síðasta kjörtímabili, var sú að nýta tekjur af fjármagnstekjunum m.a. til skólabyggingar, fráveitu o.fl. Ætlunin var að draga úr útgjöldum í takt við lækkandi höfuðstól Framtíðarsjóðs. Miðað við óbreyttan rekstur næstu þrjú ár myndast halli á rekstri sveitarsjóðs Garðs upp á 436 milljónir.
Fyrir hönd L- og N-lista bæjarstjórnar í Garði
Davíð Ásgeirsson og Jónína Holm