Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 16. maí 2002 kl. 00:16

Að gera ekkert er leiðin til að verða ekkert

Atvinnumál í Sandgerði: Það á við flesta að þeir þurfa að vinna til að lifa. Til að bæjarfélag lifi og dafni þurfa íbúarnir að eiga kost á fjölbreyttri atvinnu. Sem betur fer á Sandgerðingur í atvinnuleit enn nokkra möguleika á að fá starf við hæfi.En það eru óveðursský á lofti. Í útgerðarplássinu Sandgerði finnst vart kvóti í dag. Stór og smá sjávarútvegsfyrirtæki hafa horfið af sjónarsviðinu og það þykir fréttnæmt ef togari sést í Sandgerðishöfn. Nú gæti einhver sagt að ný fyrirtæki hafi vaxið upp og dafnað í bænum, en raunin er önnur. Nýsköpun hefur vantað í atvinnumálum í Sandgerði.
Fráfarandi bæjarstjórn hefur því miður lítið sem ekkert gert til að bæta ástandið. Sem dæmi eru fundir hjá atvinnumálaráðs Sandgerðisbæjar, þeir hafa verið 2 á síðustu 7 árum samkvæmt fundargerðum hjá ráðinu. Síðasti fundur var haldinn 28. september 1995. - Það er því greinilegt að áhersla bæjaryfirvalda hafa verið önnur en í atvinnumálum undanfarin ár.

Sandgerðislistinn vill að tekið verði til hendinni í atvinnumálum.
Tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Markaðssetningu hafnarinnar er hægt að efla bæði innanlands og erlendis. Mikilvægast er þó að fá kvóta til bæjarins og leið til þess gæti t.d. verið kvótabanki sem að hluta væri í eigu bæjarins. Þann möguleika þarf að kanna af fullri alvöru. Sandgerðisbær þarfa að hafa frumkvæði að því að ný fyrirtæki komi til bæjarins og að fjölbreytileikinn í atvinnulífinu aukist. Í ferðaþjónustu eru ótal sóknarfæri sem Sandgerðingar með dug og þor geta nýtt sér, sérstaklega ef bæjaryfirvöld styðja við bakið á þeim. Sandgerðingar þurfa fólk í bæjarstórn sem er tilbúið til að lyfta höfðinu upp úr sandinum til að horfast í augu við staðreyndirnar og takast á við þau verkefni sem bíða.

Við þorum, þorir þú? x-Þ

Sigríður Ágústa Jónsdóttir
skipar 4. sæti Sandgerðislistans
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024