Að gera betur fyrir Suðurnesin

Undirritaður flutti tvær breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem afgreitt var á Alþingi nú fyrir áramótin. Lagði ég til hækkun til löggæslumála, þar af 60 milljónir til Lögreglustjórans á Suðurnesjum svo fjölga mætti rannsóknarlögreglumönnum við embættið. Álag á rannsóknarlögreglumönnum á Suðurnesjum er mjög mikið og geta þeir engan veginn sinnt öllum þeim málafjölda sem kemur á þeirra borð. Ástæða þess er mikil fólksfjölgun á svæðinu, sem og fjölgun ferðamanna, hælisleitenda og erlendra borgara er starfa á svæðinu. Sami fjöldi rannsóknarlögreglumanna hefur starfað hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum síðan 2007. Þetta er brýnt hagsmunamál allra íbúa á svæðinu en skipulögð glæpastarfsemi hefur færst í aukana síðustu ár og við sem borgarar gerum þá kröfu að unnið sé markvisst að uppræta slíka starfsemi. Í raun þarf embættið enn frekari hækkun á fjárveitingum en tillagan var skref í rétta átt.

Fjölgun lögreglumanna á Suðurnesjum
Því er skemmst frá að segja að tillaga mín var felld í þinginu og voru það vonbrigði. Það voru hins vegar mun meiri vonbrigði að af fimm þingmönnum búsettum á Suðurnesjum sögðu þrír þeirra; Nei í atkvæðagreiðslunni.

Tvöföldun Reykjanesbrautar við Hafnarfjörð
Þetta er hins vegar ekki öll sagan. Á síðustu metrum fjárlagavinnunnar kom fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins með inn í frumvarpið að bílaleigur skyldu áfram njóta skattaafsláttar af vörugjöldum, vegna þess að þær hafi “offjárfest í bílum að undanförnu”, eins og segir í greinagerðinni með frumvarpinu. Afslátturinn átti að renna út um áramótin og höfðu leigurnar góðan undirbúningstíma. Afslátturinn kostar ríkissjóð 1500 milljónir. Þetta eru miklir peningar en hinn almenni borgari getur ekki fengið skattaafslátt ef hann offjárfestir í bifreiðakaupum. Lagði ég fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að afslátturinn félli niður, eins og til stóð upphaflega. Þeir peningar sem kæmu þá til ríkisins, þessar 1500 milljónir, yrðu nýttar í mikilvæg samfélagsverkefni, meðal annars yrðu nýttar 820 milljónir í tvöföldun Reykjanesbrautar við Hafnarfjörð. Það er mjög brýnt verkefni sem gagnast öllum landsmönnum og þá ekki síst Suðurnesjamönnum.

Tækjakaup fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Auk þess lagði ég til aukafjárveitingu til tækjakaupa allra heilbrigðisstofnanna út á landi, þar af 90 milljónir til Heilbrigisstofnunnar Suðurnesja. Tillögurnar voru báðar felldar, meðal annars af þingmönnum sem hafa lagt áherslu á að ljúka beri tvöföldum Reykjanesbrautar sem fyrst.                                               Undirritaður barðist fyrir því í fjárlaganefnd, ásamt þingmönnum kjördæmisins, að settar yrðu 200 milljónir í Grindavíkurveg og náðist það í gegn ásamt 50 milljónum aukalega til Fjölbrautaskóla Suðurnesja og auka fjárveitingu til almenningssamgangna. Í þessum málum stóðu þingmenn saman og er það ánægjulegt. 

Flokkslína framar hagsmunum íbúa
Með áðurnefndum breytingartillögum var undirritaður að reyna að rétta hlut svæðisins, sem hefur fengið hlutfallslega lægri fjárveitingar en aðrir landshlutar. Allir þingmennirnir voru sammála um það, á fundi í Reykjanesbæ fyrir kosningar, að brýnt væri að leiðrétta ranglætið í fjárveitingum til Suðurnesja. Stjórnarþingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna virðast hins vegar einungis samþykkja fjárveitingar til Suðurnesja á þeirra forsendum. Ljóst er að fyrirfram gefin flokkslína réð för í atkvæðagreiðslunni og virðist hún ganga framar hagsmunum íbúa svæðisins, sem þingmenn Suðurkjördæmis eru kjörnir til að starfa fyrir. Þetta er ekki í anda nýrra vinnubragða í stjórnmálum, sem þjóðin hefur kallað eftir.
Ríkisstjórnin sagði þegar hún tók við völdum að hún ætlaði að innleiða ný vinnubrögð á Alþingi og styðja góð mál, hvaðan sem þau kæmu. Allt virðist það hljóm eitt.

Birgir Þórarinsson
Höfundur er þingmaður Miðflokksins og situr í fjárlaganefnd Alþingis.